James Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands og landeigandi á Norðausturlandi, hyggst flytja lögheimili sitt til Mónakó til þess að sleppa við 4 milljarða punda í skattgreiðslur.
Samkvæmt Sunday Times njóta Ratcliffe og tveir viðskiptafélagar hans hjá efnaframleiðslurisanum Ineos aðstoðar endurskoðenda PwC við áformin. Fjöldi breskra þingmanna hefur gagnrýnt Ratcliffe fyrir að vilja sleppa við greiðslur, enda hafi hann sem forstjóri Ineos beitt sér gagnvart stjórnvöldum fyrir lægri umhverfissköttum og veikari reglugerðum þegar kemur að gasvinnslu með vökvabroti (e. fracking).
Árið 2010 flutti Ratcliffe höfuðstöðvar Ineos frá Bretlandi til bæjarins Rolle í Sviss. Fyrirtækið hafði beðið bresk stjórnvöld um frest til þess að greiða 350 milljóna punda virðisaukaskattsgreiðslu, en ekki fengið. Fyrirtækið sneri til baka árið 2016. Ratcliffe er mikill stuðningsmaður Brexit og segir að Bretland geti átt frábæra framtíð utan Evrópusambandsins.
Ratcliffe hefur verið mikið til umfjöllunar vegna jarðakaupa sinna á Norðausturlandi. Hefur hann ásamt viðskiptafélögum sínum keypt upp tugi jarða, með það að markmiði að eignast veiðirétt í laxveiðiám. Ratcliffe hefur lýst því yfir að markmiðið sé að vernda viðkvæmt vistkerfi ánna og hefur talsvert verið gert til að bæta laxgengi í þeim.
Ratcliffe hefur lánað félagi sínu, Halicilla Limited Company, 9,7 milljónir breskra punda, að andvirði 1,3 milljarða króna, til fjárfestinga. Félagið á net íslenskra eignarhaldsfélaga sem keypt hafa upp jarðir á Norðausturlandi, meðal annars Grímsstaði á Fjöllum. Lánið er vaxtalaust og samkvæmt ársreikningi Halicilla mun Ratcliffe ekki sækjast eftir endurgreiðslu á láninu.
Undanfarin ár hefur Ineos styrkt stöðu sína í olíuiðnaðinum með umsvifum í Noregi og Danmörku. Nýlega var tilkynnt um viðræður fyrirtækisins við olíufélagið ConocoPhillips um kaup á olíu- og gasauðlindum í Norðursjó að verðmæti um 370 milljarða íslenskra króna. Varða þau kaup á olíu- og gaslindunum Clair, um 75 kílómetrum vestan Hjaltlandseyja, og Britannia, um 210 kílómetrum norðaustur af Aberdeen.
Athugasemdir