Við eigum vonandi öll minningar af því sem gerir Ísland einstakt. Eftir dimman vetur koma sívaxandi sumarkvöld sem teygja sig, þegar best lætur, inn í hina heimsfrægu miðnætursól, sem ferðamenn og innfæddir njóta í einhvers konar tilfinningu um eilífð og óendanleika. Fáir á jörðinni lifa við þau lífsgæði að geta lagt af stað í lengri eða styttri ferð eftir vinnu, til dæmis klifið fjall eða keyrt lengri leið út úr þéttbýlinu og notið náttúrunnar langt fram eftir kvöldi, setið í sólskini á pallinum, jafnvel fram til tíu, ellefu eða lengur á tímabilinu frá maí til ágúst, og notið hverfula ævintýris íslenska sumarsins.
Ég man eftir þessum endalausum sumarkvöldum sem lítill strákur á Vestfjörðum, þar sem við spiluðum fótbolta á grasvelli á eyri við sjóinn, þar til sólin settist milli fjallanna í fjarðarmynnið. Stundum spiluðum við fram yfir myrkur, í þeirri von að ná að sjá hvítan boltann áður en hann skylli í netið, eða versta falli andlitið á manni. En einhvern veginn gerast aðrir hlutir eftir sólsetur en hreyfing og útivist.
Löngu sumarkvöldin voru uppbót fyrir dimma veturinn, þar sem sólin rís ekki upp fyrir fjöllin vikum saman, þar til seinni hluta janúar eða byrjun febrúar að fyrsta sólarmínútan kemur aftur eftir myrkrið.
Sumarkvöldin stytt
Nú er verið að undirbúa lagasetningu, sem nýtur meirihlutafylgis, sem mun breyta töluvert íslensku sumarkvöldunum. Meirihluti almennings og svo margir sérfræðingar í svefnrannsóknum og lýðheilsu, þrýsta á að tímanum á Íslandi verði seinkað um eina klukkustund, svo sólin komi fyrr upp að morgni.
Breytingunni fylgir hins vegar að birtunni síðustu eftirmiðdaga er seinkað, frá janúar fram í febrúar. Í dag myndi sólin setjast klukkan 17.38 í staðinn fyrir 18.38, gegn því að hún hefði risið klukkan 7.43 frekar en 8.43.
28. janúar í ár var fyrsti dagurinn í Reykjavík þar sem sólin var ekki sest þegar vinnudegi margra lýkur klukkan fimm. Við breytinguna færist þessi tímamótadagur aftur til 15. febrúar. Í Reykjavík lifum við nú þegar á hverju ári tæpa þrjá mánuði náttmyrkurs við lok vinnudags, frá 5. nóvember. Eftir klukkubreytingu lengist þetta tímabil töluvert. Það byrjar að vera dimmt eftir vinnu 18. október. 128 dagar myrkurs eftir vinnu, í stað 84 daga.
Áttum okkur á því að við munum aldrei ná því að það verði alltaf bjart að morgni. Munurinn er sá að sólin verður komin upp klukkan níu að morgni 3. febrúar frekar en 22. febrúar. En hvar erum við klukkan níu að morgni? Eða átta?
Við erum annaðhvort sofandi eða í morgunumferðinni
Við erum annaðhvort sofandi eða í morgunumferðinni, þau okkar sem ekki rífa sig í gang í útivist fyrir vinnu.
Flest erum við í málmkössunum okkar, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu þar sem 62,5% mannfjöldans býr. Í Reykjavík eru 73% allra ferða farnar á einkabílum. 65% íslenskra ökumanna eru meira en hálftíma á dag í umferðinni. Þannig eru allar líkur á því að morgunbirtan birtist fólki í bifreiðum eða inni á vinnustöðum eða skóla, eða birtist fólki hreinlega ekki, því það er sofandi.
Ef sumarkvöldin eru íslenski draumurinn, er líklega morgunumferðin á höfuðborgarsvæðinu íslenska martröðin.
Sofandi unglingar og himintunglin
Eitt helsta markmið klukkubreytingarinnar er að hressa unglingana okkar, sem sofa ekki nóg og verða fyrir einbeitingarskorti í réttu hlutfalli við svefnskort. „Nýlegar íslenskar rannsóknir sýna jafnframt að meðal svefntími 15 ára íslenskra unglinga er einungis um 6 klukkustundir á virkum dögum,“ segir í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra, sem mælir með seinkun klukkunnar, ekki síst til að bæta svefn unglinga. En sex tíma svefn, sem bendir til þess að venjulegur unglingur sofni klukkan eitt eða tvö og vakni klukkan sjö eða átta, er líklega vísbending um meiri vanda en sólarganginn.
En er jafnvel gangur himintunglanna þess megnugur að vekja ungling af svefni sínum? Er það sólin eða skólinn sem vekur unglingana?
Svefnsérfræðingar munu útskýra að líkamsklukkan stýrist heildrænt af sólarganginum. Það bendir hins vegar til óumflýjanlegs vanda sem tengist hnattrænum sveiflum í dagsbirtu. Líkamsklukka Íslendinga er dæmd til að vera upptrekkt og í ósamræmi við umhverfi sitt, með eða án klukkubreytingar, þar sem öfgarnar í birtu á Íslandi ná frá algeru sólarleysi yfir í sól á lofti allan sólarhringinn.
En við getum gefið okkur að svefnrannsakendur hafi rétt fyrir sér og að við sofnum fyrr með seinni klukku, þótt ekki sé hægt að spá fyrir um hegðun af miklu öryggi. Það eru augljós jákvæð áhrif af því að sólin komi fyrr á loft, út frá klukkutalinu. En eru lýðheilsuáhrif og lífsgæði sem skerðast við fækkun birtustunda tekin með í reikninginn að fullu?
Myrkur eftir vinnu mánuði lengur
Lagasetningin snýst á endanum ekki bara um bjartari morgna heldur líka að framlengja myrkur eftir vinnu um einn mánuð, þannig að sólsetur fyrir klukkan fimm á eftirmiðdegi í Reykjavík byrji 18. október í stað 4. nóvember og endi í dag, 15. febrúar, í stað 28. janúar. Þannig skerðast góðar aðstæður um eina klukkustund til þess að fara út að hlaupa, að spila fótbolta úti undir berum himni, að skoða náttúruna, fyrir krakka að leika úti eða hvaðeina sem kallar helst á dagsbirtu. En í staðinn verður bjartara um morguninn, sem er líklegast í rúminu eða í umferðinni, til dæmis á Miklubrautinni.
Þetta er því spurning um að velja eða hafna. Tímatal og klukka eru manngerð fyrirbæri og eiga að nýtast okkur sem best.
„... myndi fjölga talsvert þeim stundum þegar dimmt er á vökutíma.“
Vísindavefur Háskóla Íslands svarar spurningunni mjög einfaldlega. „Ef klukkunni á Íslandi yrði seinkað um klukkustund frá því sem nú er myndi fjölga talsvert þeim stundum þegar dimmt er á vökutíma.“
Til samanburðar eru sólskinsstundir í Reykjavík um 1.200 til 1.300 á ári. Þær voru 1.163 í fyrra. Það eru sólskinsstundir, meira en bara dagsbirta. Sólarstundum í vökutíma fækkar væntanlega töluvert við breytinguna á klukkunni, og jafnframt fjölgar sólarstundum á vinnutíma.
Og eins og Vísindavefurinn bendir á, er alþjóðlega tilhneigingin í dag ekki sú að færa klukkuna eins og nú er lagt til, svo hún hæfi beltatíma: „Þegar samþykkt var að skipta jörðinni í tímabelti árið 1883 var við það miðað að hádegi í hverju belti skyldi vera sem næst klukkan 12. Í reynd hafa mörg lönd vikið frá þessum „beltatíma“, yfirleitt í þá átt að flýta klukkunni umfram það sem beltatíminn segir til um, eins og gert hefur verið á Íslandi, til þess að fá betra samræmi milli birtutímans og þeirra vökustunda sem menn hafa tamið sér.“
Einu sinni á ágústkvöldi
Allir muna eftir ágústkvöldunum, þegar ennþá er hlýtt úti en rökkrið boðar sumarlok. Við munum fá þetta hauströkkur yfir okkur á gefnum tímapunkti kvölds þremur vikum fyrr við breytinguna sem nú er lögð til.
„Ég held að fólk myndi taka eftir þessu í tvo, þrjá daga og svo myndi þetta gleymast fyrir utan vonandi þau jákvæðu áhrif sem við teljum að þessi breyting gæti haft fyrir svefnvenjur Íslendinga,“ sagði sálfræðingur, einn helsti hvatamaður klukkubreytingar, við Fréttablaðið í janúar.
Verða löngu sumarkvöldin gleymd, eitthvað sem eldra fólk rifjar upp að hafi verið í gamla daga? Þegar grunnskólar hefjast, 22. ágúst, sest sólin 19 mínútur yfir átta í stað 19 mínútna yfir níu. Í stað þess að rísa klukkan 5.39 þann daginn mun sólin rísa 4.39, eins og tré sem fellur í skóginum sem enginn heyrir af. Sólarstundin færist þannig úr vöku- og mögulegum útivistartíma yfir í óvéfengjanlegan svefntíma.
Þannig má augljóslega sjá að seinkun klukkunnar skerðir þau takmörkuðu en nauðsynlegu lífsgæði Íslendinga á sumrin sem felast í sólarljósi og dagsbirtu í vökutíma. Raunar staðfestir starfshópur heilbrigðisráðherra að birtustundum á vökutíma (frá 7 til 23) fækkar í heildina um 3 til 4 prósent við seinkun klukkunnar. Þetta snertir ekki síst börn og unglinga. Þau sem gátu leikið sér og hreyft sig úti á björtum sumarkvöldum þurfa að fara klukkutíma fyrr heim í mars, apríl, ágúst og september, nema þau leiki sér í myrkrinu, til dæmis á raflýstum fótboltavelli. Hver eru lýðheilsuáhrifin af þeim klukkustundum í lífi barna sem færast úr útiveru í inniveru? Eða fyrir fullorðið fólk, sem ekki nær lengur að nýta stórlega styttan birtutíma eftir vinnu?
Fórnarkostnaðurinn
Það eru góð og gild rök með seinkun klukkunnar og flýtingu morgunbirtunnar, en vandamálið er fórnarkostnaðurinn.
Spurningin er því hvort við viljum fjölga myrkvuðum stundum í vökutíma um 131 til 190 á ári, til þess að það verði bjartara á morgnana? Er það besta leiðin fyrir börn og unglinga? Eða er þessum nýju morgunbirtutímum sóað í svefn, innivinnu og morgunumferðina?
Hvað með annað? Skiptir máli að það verði ekki lengur eiginlegt miðnætursólsetur í nyrstu höfuðborg heims? Að sólsetrið 21. júní verði ekki klukkan 3 mínútur yfir miðnætti, heldur klukkan 23.03?
Skiptir máli að ágústkvöldin verði myrkvuð klukkutíma fyrr? Skiptir máli að ef breytingin væri orðinn hlutur væri sólin sest í dag klukkan rétt rúmlega fimm, í stað þess að vera á lofti fram yfir sex, gegn því að hún hefði risið í dag klukkan átta frekar en níu?
Stundum er fólki skipt í A- og B-fólk, eftir því hvort það er morgun- eða kvöldglatt. Fyrir þá sem láta sig varða löngu sumarkvöldin og útiveru síðdegis er þetta ein versta hugmynd Íslandssögunnar, komin óhugnanlega langt á leið, lögð til af starfshópi heilbrigðisráðherra og með stuðning 63 prósent landsmanna samkvæmt skoðanakönnun.
Er til önnur leið?
Af þremur valkostum sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda er líka sá valkostur að breyta ekki klukkunni, heldur að koma fólki fyrr í svefn með fræðslu, eins og það er orðað: „Óbreytt staða, klukkan er áfram 1 klst. fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.“
Við þennan valkost mætti bæta skattaafslætti eða styrkjum til kaupa á dagsbirtulömpum fyrir unglinga. Samkvæmt rannsóknum geta þeir minnkað skammdegisþunglyndi í ofanálag. Og kostnaðurinn er ekki svo mikill miðað við annað. Það eru 4.206 fimmtán ára unglingar á Íslandi. Það myndi því kosta 29,3 milljónir króna að beinlínis gefa öllum fimmtán ára unglingum dagsljóslampa að virði 6.990 kr. á ári hverju, eða 22 milljónir króna án virðisaukaskatts. Síðasta sumar voru lagðar 22 milljónir króna af peningunum okkar í að bæta birtuskilyrði á Alþingishátíðinni á Þingvöllum fyrir upptöku á þingmönnum sitjandi á 39 milljóna króna palli í okkar nafni. Það er fyrir utan hönnun og ráðgjöf upp á 9 milljónir og raflagnir upp á 4,6 milljónir króna. Fyrir 87 milljóna króna alþingishátíðina mætti gefa 12 þúsund Íslendingum dagsbirtulampa til að vakna við á morgnana, að frátöldum sendingarkostnaði og magnafslætti. Til viðbótar mætti hvetja til uppsetningar myrkvunargluggatjalda í svefnherbergjum, þar sem sólin raskar óumflýjanlega birtuskilyrðum á sumrin óháð því hvað við segjum að klukkan sé.
Þetta væri ein leið til að stilla betur líkamsklukkuna án þess að svipta okkur tæplega 4 prósent birtustunda og skerða íslenska sumarævintýrið.
Skapa sumarkvöld hamingju?
Á sama tíma og Íslendingar sofa of lítið miðað við aðra, ekki síst unglingarnir, mælast þeir í efstu röð þegar kemur að hamingju. Rætur hamingjunnar eru afstæðar og að miklu leyti órekjanlegar, þótt það séu nánast sjálfgefin sannindi að góður svefn sé ein undirstaða hennar.
Getur verið að endurtekin hamingjuheimsmet Íslendinga eigi að einhverjum hluta rót sína að rekja til minninganna um ævintýralegu íslensku sumarkvöldin og réttmætrar vonar um eilífu endurkomuna, sem við getum þó yljað okkur við í óumflýjanlegu myrkri yfir háveturinn?
Aldrei áður hefur verið gripið til aðgerðar á Íslandi sem lengir verulega tímann sem við þurfum að upplifa í myrkri og sólarleysi, í landi þar sem birtan er sannarlega af skornum skammti. Svefni okkar verður alltaf raskað vegna hnattstöðunnar, en það er illmælanlegt og ómetanlegt að fá að lifa lengur í ljósinu þegar við erum þó vakandi og frjáls.
Athugasemdir