Frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðarsjóð gerir ráð fyrir að rekstri sjóðsins verði útvistað til einkaaðila og að einn og sami aðilinn annist vörslu, eignastýringu, daglegan rekstur og innra eftirlit með starfseminni. Af orðalagi frumvarpsins má ráða að þar komi einungis viðskiptabankar, lánafyrirtæki og sparisjóðir til greina.
Fjármálaeftirlitið bendir á þetta í umsögn um frumvarpið og gagnrýnir meðal annars að fyrirkomulagið sé frábrugðið því sem tíðkast hjá rekstrarfélögum verðbréfasjóða og mælt er fyrir um í Evróputilskipun um rekstraraðila sérhæfðra sjóða frá 2011.
Þá kann það að útvista þjóðarsjóðnum til einkaaðila í stað þess að koma honum fyrir hjá Seðlabanka Íslands að hafa í för með sér óþarfan kostnað fyrir hið opinbera.
Seðlabankinn bendir á að lánamál ríkisins og varðveisla gjaldeyrisvarasjóðs séu nú þegar á hendi bankans þar sem safnast hefur upp þekking á mismunandi eignaflokkum, ávöxtun og áhættudreifingu. Því geti verið hagkvæmt að Seðlabankinn sjái um rekstur sjóðsins, enda myndi útvistun til einkafyrirtækja eðli málsins samkvæmt fela í sér að stefnumótunin færist fjær íslenskum stjórnvöldum.
Fjárhagslegur viðbúnaður gegn skakkaföllum
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram frumvarp til laga um þjóðarsjóð þann 5. desember síðastliðinn. Sjóðnum er ætlað að verða eins konar áfallavörn til að mæta efnahagslegum skakkaföllum sem þjóðarbúið kann að verða fyrir í framtíðinni, til dæmis vegna vistkerfisbrests, náttúruhamfara, hryðjuverka eða netárása. Hann verður fjármagnaður með tekjum af nýtingu orkuauðlinda, einkum arðgreiðslum frá Landsvirkjun til ríkisins, en samkvæmt áætlunum fyrirtækisins gæti arðgreiðslugeta þess brátt numið 10 til 20 milljörðum króna á ári.
„Í stað þess verði þeim varið til að byggja upp fjárhagslegan viðbúnað í Þjóðarsjóði“
„Hyggilegt þykir að þessar nýju tekjur verði ekki nýttar eins og hver annar tekjustofn til þess að standa undir reglubundnum ríkisútgjöldum. Í stað þess verði þeim varið til að byggja upp fjárhagslegan viðbúnað í Þjóðarsjóði til að bregðast við ófyrirséðum áföllum og stuðla að efnahagslegu öryggi þjóðarinnar til framtíðar,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Skylt að fjárfesta í gerningum með lága lánshæfiseinkunn
Fjármálaeftirlitið gerir ýmsar athugasemdir við útfærsluna og vekur til að mynda athygli á að í lögunum er hvergi mælt fyrir um hvernig áhættustýringu skuli háttað. Auk þess sé sú kvöð lögð á sjóðinn að tryggja „dreifða áhættu af fjárfestingum m.a. eftir lánshæfisflokkum“. Með því sé þess krafist að sjóðurinn fjárfesti í fjármálagerningum sem hafa hlotið lága lánshæfiseinkunn. Á hinn bóginn sé ekki kveðið á um dreifða áhættu eftir gjaldmiðlum.
Athugasemdir