Ekki veit ég hvort það skiptir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Braga Sveinsson, Bergþór Ólason og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur nokkru máli, en hafi þau ekki verið það fyrir, þá eru þau nú öll fjögur komin í hóp fyrirlitlegustu þingmanna sem ég veit til að setið hafa á Alþingi Íslendinga. Kannski ekki endilega þeirra spilltustu (þótt þau komi þar vissulega vel til greina) eða þeirra verstu í einhverjum almennum skilningi, heldur einfaldlega fyrirlitlegustu.
Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason koma svo ekki allfjarri.
Og þau eru öll sífellt að bíta hausinn af skömminni.
Skriðdýrin
Framganga sér í lagi fyrstnefndu fjórmenninganna á Klausturbarnum var vissulega nógu slæm. Mannfyrirlitningin, hrokinn, belgingurinn, heimskan, skriðdýrshátturinn og ruddaskapurinn óðu uppi og þótt ég hafi lagt á mig að lesa allt sem birt hefur verið af upptökunum af barnum, þá finn ég ekkert sem bendir til þess að þar séu kunningjar að spjalla á eðlilegan hátt um landsins gagn og nauðsynjar. Ekkert. Þetta eru eintóm illmælgi og rógur og svívirðingar, og það iðulega af allra grófustu og subbulegustu og klámfengnustu sort, nema þegar skriðdýrin sleikja lappirnar á Sigmundi Davíð og segja honum hvað hann sé „góður“.
Verslað með sendiherraembætti
Ég hef heldur ekki fundið neitt sem bendir til að þarna hafi þingmenn á Alþingi Íslendinga – fólk sem gegnir einhverju ábyrgðarmesta starfi á landinu – verið að ræða einhver málefni, eitthvað sem gæti orðið þjóðinni til góðs – vinnuveitendum þessa fólks og þeim sem borga þeirra ansi góðu laun. Nei, ekki neitt. Hér um bil það sem þetta fólk ræddi og snerti vinnu þeirra snerist annars vegar um plott til að fá þá Ólaf og Karl Gauta yfir í lokkandi (hahaha!) faðm Miðflokksins og hins vegar um sendiherraembætti sem Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð vildu versla um við Bjarna Benediktsson.
(Bjarni neitar því. Hefur Bjarni einhvern tíma sagt ósatt?)
Siðferðilegir og vitsmunalegir yfirburðir
Og aldrei í öllu þessu málæði vottar fyrir nokkurri minnstu virðingu fyrir þjóðinni sem þetta fólk á að vera að vinna fyrir? Aldrei. Þvert á móti. Það mun seint gleymast þegar Anna Kolbrún Árnadóttir, sem sæti á í velferðarnefnd, leggur sérstaka lykkju á leið sína í þessari ömurlegu samkundu, til að smána sérstaklega einn merkasta baráttumann fyrir réttindum fatlaðra sem þetta land hefur alið, manneskju sem hefur algjöra siðferðilega og vitsmunalega yfirburði yfir þingmanninn.
Tala nú ekki um suma hina þingmennina.
En þetta var nú eitt.
Viðbrögð þeirra allra síðan hafa enn aukið á fyrirlitninguna sem ég hef á þeim.
Gantast yfir glasi?
Fyrstu viðbrögðin voru reyndar að þræta eiginlega fyrir allt saman. Jú, en þetta hefði nú ekki verið svo alvarlegt, bara meira og minna grín, ha, bara vinir að gantast yfir glasi. Svo þegar rann upp fyrir þeim að það gekk ekki, þá komu afsökunarbeiðnir, en allar með semingi og bundnar alls konar fyrirvörum, enginn þingmannanna horfðist í alvöru í augu við sjálfan sig.
Enginn þeirra.
Og nú þegar Gunnar Bragi og Bergþór – þeir menn sem mest og grófast klæmdust og hæddust að konum á þingi og víðar – nú þegar þeir eru sestir inn á þing að nýju, svona óforskammaðir, þá á allt að falla í ljúfa löð.
„Og nú er allt Báru að kenna.“
Og með þessu ætlast þeir til að allir samþingmenn þeirra viðurkenni í raun hátterni þeirra og gjörninga og „afsökunarbeiðni“ – falli niður á sama plan og þeir. Þar í drafinu með þeim líði hvort sem er öllum best, er það ekki?
Og nú er allt Báru að kenna. Og það sem ekki er Báru að kenna er nú Steingrími J. Sigfússyni að kenna. Og málið snýst í raun og veru um fundarsköp, er það ekki?
Jahérna hér. Hvílíka botnlausa og innilega fyrirlitningu sem ég hef á þessu fólki.
Athugasemdir