Ríkustu 26 menn í heimi eiga álíka mikinn auð og fátækari helmingur mannkyns. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Oxfam um ójöfnuð í heiminum. Bilið milli ríkra og fátækra hefur breikkað umtalsvert undanfarin ár og mun halda því áfram nema tekið verði í taumana. Þar skiptir höfuðmáli að mati skýrsluhöfunda að skattleggja fjármagn, fyrirtæki og háartekjur af miklu meiri þunga en nú er gert víðast hvar í heiminum. „Ríkasta fólkið og fyrirtæki þess eru undirskattlögð,“ segir í skýrslunni.
Á undanförnum árum hefur umræða um ójöfnuð og slæma fylgifiska hans orðið æ háværari um allan heim. Fræðimenn hafa dregið fram gögn sem benda til þess að ójöfn dreifing eigna og tekna haldist jafnan í hendur við aukna glæpatíðni, fátækt og félagsleg vandamál. Þá hafa OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefið út skýrslur þar sem leidd eru rök að því að ójöfnuður sé beinlínis þjóðhagslega óhagkvæmur og hamli hagvexti.
Í fyrra gaf sérfræðingahópur á vegum OECD út ítarlega skýrslu um skattlagningu heildareigna (e. net wealth taxes). „Eignaójöfnuður er miklu meiri en tekjuójöfnuður og ýmislegt bendir til þess að eignaójöfnuður hafi aukist undanfarna áratugi,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar en höfundar telja „sterk rök hníga að því að skattkerfinu sé beitt til að draga úr eignaójöfnuði“.
Alla jafna sé fjármagnstekjuskattur heppilegri en skattur á heildareignir. Hins vegar dugi fjármagnstekjuskattur ekki einn og sér til að draga úr ójöfnuði; einnig þurfi eignaskatta af einhverju tagi og þar sé erfðafjárskattur einna hagkvæmastur og sanngjarnastur.
Lágur fjármagnstekjuskattur kalli á aukna skattlagningu eigna
Höfundar OECD-skýrslunnar telja þó að í ríkjum þar sem fjármagnstekjuskatturinn sé mjög lágur hnígi miklu sterkari rök að skattlagningu heildareigna heldur en annars staðar.
Á Íslandi er fjármagnstekjuskatturinn aðeins 22 prósent, lægri en í nágrannalöndunum og miklu lægri en skattur á launatekjur. Þetta lága skatthlutfall hefur til að mynda verið réttlætt með því að hagkerfið sé lítið, gjaldmiðillinn óstöðugur, verðstöðugleiki minni en annars staðar og skattstofn fjármagnstekjuskattsins hvikur.
Auðlegðarskatturinn sem vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigufússonar innleiddi til skamms tíma lagðist á uppsafnaðar heildareignir: hreina eign einstaklings yfir 75 milljónum króna og eign hjóna yfir 100 milljónum en skatthlutfallið var á bilinu 1,25 til 2 prósent.
Þegar mest lét skilaði skatturinn tæpum 12 milljörðum í ríkissjóð. Honum var helst fundið til foráttu að dæmi væru um að hann bitnaði á tekjulitlum eldri borgurum með eignir bundnar í skuldlitlu eða skuldlausu húsnæði. Staðtölur ríkisskattstjóra sýna þó að skatturinn var að langstærstum hluta greiddur af tekjuhæstu hópum íslensks samfélags.
Tekjulitlir greiddu 4 prósent auðlegðarskattsins
Á síðasta árinu sem auðlegðarskatturinn var innheimtur – þegar skatturinn var hæstur og fríeignamark hans lægst – stóðu tekjuhæstu 20 prósent hjóna undir 77 prósentum af öllum auðlegðarskatti hjóna. Um leið greiddu tekjuhæstu 20 prósent einstaklinga 87 prósent af öllum auðlegðarskatti einstaklinga.
Dæmin um tekjulitla eldri borgara sem greiddu auðlegðarskatt eru vissulega til, en þau eru undantekningar: alls lentu aðeins 4 prósent af auðlegðarskattinum á þeim einstaklingum og hjónum sem tilheyrðu tekjulægsta fimmtungi Íslendinga árið 2013.
Það að hópurinn sé fámennur ógildir þó ekki fyrrnefnd rök gegn auðlegðarskattinum. Með breyttri útfærslu mætti hins vegar fyrirbyggja að auðlegðarskatturinn bitni illa á þessum fámenna hópi. Ein leiðin væri að undanskilja heimili fólks, þ.e. þá fasteign sem skattaðilar nýta til eigin búsetu, frá skattstofninum. Á móti væri hægt að hafa fríeignamarkið lægra en það var.
Athugasemdir