Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Hátekjufólkið fær afslátt á Íslandi

Hvergi á Norð­ur­lönd­un­um greið­ir há­tekju­fólk jafn lága skatta og á Ís­landi og eng­in Norð­ur­landa­þjóð legg­ur lægri skatta á fjár­magn og fyr­ir­tæki. Hins veg­ar hef­ur skatt­byrði lág­tekju­fjöl­skyldna auk­ist meira á Ís­landi frá alda­mót­um held­ur en í öll­um hinum OECD-ríkj­un­um.

Íslendingar búa við lægstu fjármagnstekjuskatta og fyrirtækjaskatta á Norðurlöndunum. Þá greiða hátekjuhópar hérlendis mun lægri skatta af hæstu tekjum sínum heldur en tekjuháir á hinum Norðurlöndunum.

Hins vegar er meðalskattbyrði lágtekjufólks með hæsta móti á Íslandi, eða næsthæst á eftir Danmörku ef horft er til Norðurlandanna. 

Þetta leiðir einfaldur samanburður á sköttum og skattbyrði tíu Evrópuríkja í ljós en byggt er á gögnum OECD og KPMG um meðalskattbyrði og skatthlutföll árin 2017 og 2018. 

Árið 2017 greiddi íslensk fjölskylda með tvö börn, þar sem annað foreldrið er á meðallaunum en hitt þénar 67 prósent af meðallaunum, að jafnaði tæplega 27 prósent af tekjum sínum í beinan skatt. Skattbyrði fjölskyldna á sama stað í tekjustiganum var 35 prósent í Danmörku en miklu lægri í hinum samanburðarlöndunum. 

Ef rýnt er í þróunina í löndum OECD frá aldamótum til dagsins í dag kemur í ljós að hvergi hefur skattbyrði þessa hóps aukist jafn mikið og á Íslandi. Hérlendis hefur skattbyrði hópsins aukist um rúm 5 prósent frá árinu 2000 en víðast hvar í þróuðum ríkjum hefur skattbyrði sama hóps dregist saman.

0,1 prósentið lifir á fjármagni

Tekjuskattur af hæstu launatekjum er talsvert lægri hér en á hinum Norðurlöndunum. Íslendingar greiða 46,24 prósenta skatt af tekjum yfir 927.087 krónum á mánuði, eða um 10 prósentustigum minna en Svíar og Danir. Þar eru fjármagnstekjuskattar einnig miklu hærri en á Íslandi.

Leiðrétting:Taflan hér að ofan var áður sögð sýna samanburð á fjármagnstekjusköttum mismunandi ríkja. Um var að ræða mistök í framsetningu. Stundin biðst velvirðingar á þeim. Hið rétta er að tölurnar sýna hæstu skatta sem lagðir eru á arð einstaklinga af hlutum og hlutabréfum í félögum. Hér á Íslandi fellur slíkt undir hinn samræmda fjármagnstekjuskatt og er skattlagt með álíkum hætti og t.d. söluhagnaður, en sú er ekki raunin í öllum samanburðarlöndunum. Þetta breytir því þó ekki að hvergi á Norðurlöndunum eru skattar á fjármagnstekjur jafn lágir og á Íslandi.

Yfir 70 prósent fjármagnstekna einstaklinga renna til tekjuhæstu 10 prósenta Íslendinga, en til fjármagnstekna teljast vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur. Af þeim 63,7 milljörðum sem runnu til 229 tekjuhæstu fjölskyldna á Íslandi árið 2017 voru 70 prósent í formi fjármagnstekna. Þeir 330 einstaklingar sem þénuðu allra hæstu tekjurnar árið 2016 samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra (tekjuhæsta 0,1 prósentið) fengu 86 prósent af heildartekjum sínum í formi fjármagnstekna, að verulegu leyti sem söluhagnað af hlutabréfum og arðgreiðslur úr eignarhaldsfélögum. 

„Í samanburði við aðrar OECD-þjóðir er meðferð skattkerfisins á Íslandi hlutfallslega hagstæðari hátekjufólki en lágtekjufólki“

Sá afgerandi munur sem er á skatthlutföllum tekjuskatts (36,94 prósent í neðra þrepi) og fjármagnstekjuskatts (22 prósent) hérlendis felur í raun í sér margra milljarða ívilnun til þessara fjársterkustu hópa samfélagsins. „Í samanburði við aðrar OECD-þjóðir er meðferð skattkerfisins á Íslandi hlutfallslega hagstæðari hátekjufólki en lágtekjufólki,“ segja Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur í bók sinni Ójöfnuður á Íslandi sem kom út í fyrra.

Þyngri skattbyrði hélt aftur af lífskjarasókn lágtekjufólks

Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist mest hjá tekjuhæstu fjölskyldum landsins undanfarin ár meðan þynging skattbyrðarnnar, einkum vegna raunrýrnunar persónuafsláttar og veikingar tekjutilfærslukerfa, hélt aftur af lífskjarasókn lágtekju- og millitekjufólks. Tölur Hagstofunnar og Ríkisskattstjóra sýna þetta svart á hvítu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

0,1 prósentið

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár