„Hve margar konur þurfa að stíga fram til þess að þeim sé trúað?“ spyr Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko í færslu á Facebook. Ástæða skrifanna er meint kynferðisleg áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem er faðir Aldísar Schram, móður Tatjönu.
„Hve margar konur þurfa að stíga fram til þess að fjölmiðlamenn hætti að hylma yfir með Jóni Baldvini Hannibalssyni?“ skrifar Aldís. „Hve margar konur þurfa að stíga fram til þess að Ríkissjónvarp- og útvarpið (þrátt fyrir mótmæli starfsfólks þar), Harmageddon, Silfrið meðal annars, hætti að upphefja Jón Baldvin, þrátt fyrir að kynferðisbrot hans hafi verið opinberlega afhjúpuð árið 2012? Þið eruð þátttakendur í þöggun og þið ættuð að skammast ykkar.“
Í Stundinni lýsa fjórar konur kynferðislegri áreitni af hendi Jóns Baldvins, fyrrverandi ráðherra og sendiherra. Umfjöllunina í heild má lesa í tölublaði Stundarinnar sem kom út í gær.
Í samtali við Stundina sagði Jón Baldvin frásagnir kvennanna eiga rætur að rekja til dóttur sinnar og kallar málið „fjölskylduharmleik“. „Aldís dóttir mín hefur spunnið þær sögur og það er þyngra en tárum taki. Ég hef svarað því áður og endurtek það ekki.“
Aðspurður hvað þetta hafi með framburð kvennanna fjögurra að gera, sagði Jón Baldvin að því megi velta fyrir sér. „Kynntu þér stöðu Aldísar dóttur minnar, hún hefur átt við geðræn vandamál að stríða alllengi. Ég hélt að það væri að lagast, hef engar áreiðanlegar heimildir fyrir því svo sem.“
Vildi ekki heita Bryndís lengur í höfuðið á ömmu sinni
Tatjana Dís segir Jón Baldvin hafa misnotað völd sín til að afskrifa Aldísi sem geðveika. Aldís hefur síðan 1992 verið nauðungarvistuð sex sinnum á geðdeild, sem hún segir alltaf hafa verið fyrir tilstilli föður síns.
„Mamma mín þurfti að sitja undir þeim stimpli að vera geðveik til margra ára.“
„Mamma mín þurfti að sitja undir þeim stimpli að vera geðveik til margra ára. Og öll fjölskyldan lék með í leikritinu,“ skrifar Tatjana Dís. „Að hún sé þrátt fyrir allt ein heilsteyptasta manneskja sem ég þekki, eftir þá meðferð sem hún fékk frá sinni eigin fjölskyldu og undirlægjum þeirra í landinu, er í raun ótrúlegt.“
Tatjana Dís greinir einnig frá því að árið 2012, þegar hún var 16 ára gömul, hafi hún sagt Jóni Baldvini og Bryndísi Schram, eiginkonu hans, í tölvupósti að hún vildi ekki lengur heita Bryndís í höfuðið á ömmu sinni. „Hljóðaði svarið frá þeim svo að ég ætti ekki að láta þennan fjölskylduharmleik (geðveiki lygasjúkrar móður minnar - ekki kynferðisofbeldi afa míns) ganga í þriðja ættlið. Svo mikil var og er firringin,“ skrifar hún.
Tatjana Dís skrifar að sá tími sem tekinn hafi verið frá þeim mæðgum verði ekki endurheimtur. „Tíminn sem hefur farið í vanlíðan, reiði, skömm og sorg allra þeirra kvenna sem urðu fyrir barðinu á honum, verður ekki endurheimtur. Sárin munu aldrei fullgróa. En það verður ekki þagað lengur.“
Athugasemdir