Nefndarmenn forsætisnefndar fengu ekki tilmæli um að meta hæfi sitt á grundvelli hæfisreglna stjórnsýsluréttar þegar erindi Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um akstursgreiðslur þingmanna og meint brot á siðareglum voru tekin fyrir.
Þetta staðfestir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið. Hann segir að mál Björns Levís hafi ekki fengið „stöðu siðareglumáls“ og að við afgreiðslu forsætisnefndar á erindinu hafi ekki verið til staðar álitamál er snertu hæfi forsætisnefndarmanna.
„Loks í þriðja lagi, þegar ljóst var að erindið uppfyllti ekki skilyrði um meðferð siðareglumála, var ekki tilefni til þess að beina því til allra þingmanna eða eftir atvikum til tilgreindra þingmanna hvort þeir gerðu athugasemd við hæfi nefndarmanna,“ skrifar hann.
Athygli vakti þann 17. desember síðastliðinn þegar allir nefndarmenn forsætisnefndar lýstu sig vanhæfa til að fjalla um Klaustursmálið svokallaða með vísan til hæfisreglna stjórnsýsluréttar, meðal annars vegna ummæla sem þau höfðu áður látið falla um framgöngu þeirra sex þingmanna sem slepptu af sér beislinu á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn.
Við afgreiðslu forsætisnefndar á erindum Björns Levís Gunnarssonar fyrr á árinu komu hins vegar hæfisreglur stjórnsýsluréttar hvergi við sögu. Nefndarmenn sem höfðu tjáð sig frjálslega um aksturskostnað og tengd málefni, t.d. Brynjar Níelsson 2. varaforseti sem kom Ásmundi Friðrikssyni til varnar á Facebook í febrúar, töldu ekki ástæðu til að segja sig frá afgreiðslu þess máls.
Helgi Bernódusson segir að líta verði til þess að fyrra erindi Björns Levís, sem svarað var með bréfi forseta Alþingis þann 8. maí síðastliðinn, hafi beinst að „þeirri ósk þingmannsins að almenn athugun færi fram á endurgreiðslu aksturskostnaðar til alþingismanna og hvort forsætisnefnd væri almennt hæf til þess að fjalla um slík mál á grundvelli siðareglna“. Þar hafi ekki verið til umfjöllunar tilgreint hátterni einstaks þingmanns.
Þá fullyrðir Helgi að akstursgreiðslumálin séu ekki sambærileg Klaustursmálinu sem forsætisnefnd og siðanefnd munu taka til umfjöllunar eftir hátíðarnar. „Loks er rétt að benda á að erindi þingmannsins og erindi það sem lýtur að hátterni umræddra þingmanna eru ekki sambærileg eins og augljóst má vera.“
Athugasemdir