Snemma á níunda áratugnum vann ég í nokkur misseri á flugvellinum á Ísafirði og var starfsmaður Flugfélags Íslands. Við seldum miða, hlóðum töskum, dældum eldsneyti á flugvélar, ókum út vörum og afgreiddum farþega gegnum síma og augliti til auglitis.
Þetta voru fyrstu kynni mín af ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Þá var greinin varla til í samanburði við það sem nú er orðið eftir hraðan vöxt undanfarinna ára. Flestir farþegar með Flugfélaginu voru Íslendingar en þá sjaldan að erlendir ferðamenn birtust á ísfirskum flugvelli reyndum við að leggja þeim lið.
Þá voru leiðsögumenn í fullu starfi nánast óþekkt fyrirbæri. Kennarar leiðsögðu útlendingum í sínum sumarfríum því þeir töluðu útlensku betur en alþýðan. Yfir veturinn var enginn hérna nema við.
Próper Íslendingar á þessum tíma litu ferðamenn hálfgerðu hornauga og kölluðu þá bakpokalýð. Þeir höfðu áhyggjur af því að þeir kæmu með allan matinn með sér, stælu steinum og náttúruundrum og yfirhöfuð væri lítið á þeim að græða.
Ég kom svo aftur inn í ferðaþjónustuna fyrir fjórum árum þegar ég fór að starfa sem ökuleiðsögumaður með útlendinga og ferðast allt árið um landið með 1–19 farþega í bílnum.
Eins og títt er um afmarkaðar atvinnugreinar þá er ferðaþjónustan lagskipt. Forsvarsmenn og talsmenn greinarinnar eru ýmist fyrirferðarmiklir atvinnurekendur innan hennar eða sérfræðingar sem fást við að gera kannanir og rannsóknir á sviði ferðamála.
Ef við lítum á þetta eins og píramída þá starfa ég líklega nálægt botninum sem jafnframt er stærsti snertiflöturinn.
Eldsneyti ferðaþjónustunnar eru ferðamenn. Öfugt við marga þá sem tala fyrir hönd greinarinnar þá hitti ég þá á hverjum vinnudegi. Ég er maðurinn sem tíni í þá fróðleiksmola um eldgos, víkinga, jarðhita, fjármálakreppur, álfa og tröll. Ég gæti öryggis þeirra, reyni að svara spurningum þeirra og stjórna væntingum þeirra þegar duttlungar veðurs og ranghugmyndir úr Instagram-lituðum netheimi setja strik í reikninginn.
Eitt af því sem er sérstakt við ferðaþjónustuna er að hún er að einhverju leyti einangruð frá Íslendingum nema þeim sem vinna við greinina. Alþýða manna greinir auðvitað ytra borðið, mannfjöldann á götum Reykjavíkur, mannfjöldann á vinsælum áfangastöðum á Suðurlandi og yfirleitt mannfjölda þar sem áður norpuðu fáeinir krokulegir mörlandar í Hekluúlpum. Innviðirnir eru hins vegar aðeins sýnilegir starfsmönnum og farþegum og þar eru hlutfallslega fáir Íslendingar á vettvangi.
Ég semsagt hitti ferðamennina sem talsmenn ferðaþjónustunnar hitta aldrei. Ég hitti hins vegar aldrei talsmenn ferðaþjónustunnar.
Fyrir vikið þá þekki ég af eigin reynslu að á þeim fleti ferðaþjónustunnar sem á samskipti við hina eiginlegu farþega starfa nánast eingöngu útlendingar. Fulltrúar Íslendinga á þessum starfsvettvangi eru helst leiðsögumenn og bílstjórar og í mínu tilviki er það sami maðurinn.
Ég hef gert mér far um að tala við fólk sem verður á vegi mínum, aðallega þá sem vinna á stöðum sem við gistum á því þá gefst betri tími til samræðna. Fólk er komið víða að úr heiminum til þess að kynnast ævintýralandinu Íslandi, vinna eins mikið og kostur er í stuttan tíma og leggja launin til hliðar eða senda þau heim.
Þótt margt af þessu séu láglaunastörf í okkar augum er oft um að ræða hrein uppgrip ef ekki gullgröft þegar borið er saman við hagkerfi heimalands viðkomandi.
„Þetta er besta starf sem ég hef nokkru sinni fengið,“ sagði rúmenskur starfsmaður á fertugsaldri við mig á hóteli á Suðurlandi.
„Mikið væri gaman að kynnast Íslendingum"
„Mikið væri gaman að kynnast Íslendingum,“ sögðu stúlkur tvær sem ég drakk kaffi með á hóteli á Síðu fyrir stuttu.
Þær höfðu verið hérlendis á fleiri en einum stað í 8–10 mánuði hvor. Þær sögðust vinna fimm daga í viku, oft langa daga, og fá góð laun, fæði og húsnæði. En á hótelinu vinna eingöngu útlendingar og þangað koma eingöngu útlendingar og engin samskipti virðast vera í boði við nærsamfélagið þótt tveggja mínútna akstur sé niður á Klaustur.
„Hittið þið þá aldrei Íslendinga?“ spurði ég.
„Jú, leiðsögumenn,“ sögðu þær.
Þá rann það upp fyrir mér að þessar góðu stúlkur gætu í sjálfu sér verið hvar sem er í hinum vestræna heimi. Staðsetningin Ísland skiptir nákvæmlega engu máli í þessu tilliti. Landið Ísland og náttúra þess er eiginlega það eina sem þetta starfsfólk sér en menning þess og samfélag snertir það hvergi.
Að þessu leyti eru ferðamennirnir hugsanlega í sömu sporum. Leiðsögumennirnir eru einu Íslendingarnir sem þeir hitta.
Hinir fjölmörgu sem ferðast á eigin vegum gætu vel verið einu skrefi fjær því þeir geta vel ferðast um Ísland gervallt án þess að hitta nokkru sinni Íslending.
Næst þegar þið lesið stóryrtar yfirlýsingar okkar heimamanna um ferðamennina sem vaða yfir allt, skíta í garðana okkar og trampa viðkvæma náttúru niður í svaðið þá skuluð þið muna að þetta er lokaður heimur og ekki alveg víst að höfundur hafi nokkru sinni komið þangað inn.
Athugasemdir