Bára Halldórsdóttir, uppljóstrari í Klaustursmálinu, hefur verið boðuð til þinghalds í héraðsdómi Reykjavíkur klukkan korter yfir þrjú í dag. Boðað hefur verið til samstöðufundar henni til stuðnings á meðan þinghald stendur yfir.
Á þriðjudag barst Báru bréf frá héraðsdómi þar sem fram kom að mál kynni að vera höfðað gegn henni. Í bréfinu segir að beiðni hafi komið frá Reimari Péturssyni lögmanni, fyrir hönd fjögurra einstaklinga, um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna.
Þeir einstaklingar eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, sem voru á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn og náðust á upptöku að fara hörðum orðum um kvenkyns stjórnmálamenn og ræða pólitíska fyrirgreiðslu.
Bára fram í forsíðuviðtali í Stundinni 7. desember síðastliðinn og afhjúpaði sig sem manneskjuna sem tók upp samtöl stjórnmálamannanna.
Á Facebook síðu Báru til stuðnings er boðað til samstöðufundar með henni. Þess er óskað að fólk geymi hvers kyns mótmælaaðgerðir þar til fundurinn er yfirstaðinn og mæti ekki í gulum vestum, að ósk Báru. Gul vesti hafa verið táknmynd mótmæla í Frakklandi undanfarnar vikur.
Þá er áréttað mikilvægi þess að hópurinn hamli ekki aðgengi hjólastóla að héraðsdómi, gefi Báru rými og þrýsti ekki á hana eða lögmenn hennar um viðtöl.
Athugasemdir