Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, hefur stigið fram og lýst því að hún sé konan sem Ágúst Ólafur Ágústsson áreitti í byrjun síðasta sumars. Ágústi var veitt áminning af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar í síðustu viku vegna málsins og kaus hann að greina frá málinu á Facebook-síðu sinni í kjölfarið. Bára segir að í þeirri yfirlýsingu hafi hann dregið verulega úr málavöxtum, geri minna úr atvikinu en hann hafi áður gengist við, og að hans lýsing sé ekki í samræmi við hennar upplifun. Bára tekur einnig fram að það hafi ekki verið hennar vilji að málið yrði gert opinbert en þá ákvörðun hafi Ágúst tekið úr hennar höndum með því að greina frá málinu á Facebook, og það ekki með réttum hætti.
Gekk yfir mörk Báru og niðurlægði hana
Bára segir í yfirlýsingu sem hún birtir á Kjarnanum að Ágúst Ólafur hafi ekki reynt að kyssa hana tvívegis, eins og hann hélt fram í yfirlýsingu sinni, heldur ítrekað. „Hann reyndi það aftur og aftur þrátt fyrir að ég hefði neitað honum og sett skýr mörk. Í hvert sinn sem ég neitaði honum þá niðurlægði hann mig með ýmsum hætti.“
„Í hvert sinn sem ég neitaði honum þá niðurlægði hann mig með ýmsum hætti“
Bára greinir ennfremur frá því að Ágúst Ólafur hafi ekki yfirgefið skrifstofu Kjarnans, þangað sem þau fóru saman, þegar hún hafi beðið um það. Hún hafi að endingu fylgt honum út með þeim orðum að hún treysti sér ekki til að vera í sama rými og hann. „Hann lét samt ekki segjast og hélt þvingandi áreitni sinni áfram í lyftunni á leiðinni út.“
Upplifði algjört varnarleysi
Bára segir að Ágústi Ólafi hafi mátt vera fullljóst að hún hefði eingöngu áhuga á að eiga við hann áframhaldandi spjall eftir að þau yfirgáfu barinn sem þau höfðu hist á. Hann hefði ekki átt að geta misskilið umræddar aðstæður. „Mín upplifun af þessum aðstæðum var algjört varnarleysi. Það orsakaðist af því að ég varð fyrir ítrekaðri áreitni af hálfu annars einstaklings. Það orsakaðist af því að ég var blaðamaður sem varð fyrir áreitni af hálfu þingmanns. Það orsakaðist af því að ég var starfsmaður fyrirtækis sem varð fyrir áreitni af hálfu fyrrverandi hluthafa í því fyrirtæki. Allt þetta gerði það að verkum að ég hugsaði að mögulega væri starf mitt í hættu. Að ég gæti ekki lengur unnið við það sem ég vinn við þar sem að þarna væri á ferðinni áhrifamaður í valdastöðu.“
„Mín upplifun af þessum aðstæðum var algjört varnarleysi“
Þá hafi Ágúst Ólafur niðurlægt Báru ítrekað með ummælum um vitsmuni hennar og útlit. Því hafi hún fundið fyrir kvíða og vanlíðan eftir á og hafi sú líðan varða næstu mánuði, og geri raunar enn að vissu leyti. Því hafi henni þótt sem hún þyrfti að skila þessum afleiðingum til gerandans, Ágústs. Hún hafi sent honum tölvupóst í vikunni eftir atvikið en hann hafi ekki svarað og ekki heldur þegar Bára hafi ítrekað þann póst. Loks níu dögum eftir atvikið hafi hann hins vegar hringt og beðist afsökunar á hegðun sinni.
„Seinna um sumarið ákváðum við að hittast í vitna viðurvist og ræða saman um það sem átt hafði sér stað. Ég útskýrði þar fyrir honum líðan mína og áhrifin sem þetta hefði haft á mig. Hann rengdi ekki frásögn mína af atvikinu með neinum hætti og baðst aftur afsökunar. Þar varð mér einnig ljóst að hann virtist ekki ætla að segja neinum frá þessu atviki.
Mér fannst það ekki í lagi að ég væri ein með vitneskju um þessa hegðun hans og þar með ábyrgð vegna hennar. Ég gat ekki hugsað mér að annar einstaklingur myndi síðar lenda í viðlíka atviki með honum. Því væri eðlilegt að skilja vitneskjuna um atvikið eftir annars staðar. Sérstaklega í ljósi þess að um mann í valdstöðu var að ræða.
„Þetta var ekki bara misheppnuð viðreynsla, heldur ítrekuð áreitni og niðurlæging“
Ég hafði því samband við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, og greindi honum frá málavöxtum. Hann benti mér á að senda inn erindi til trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar en hún hafði þá nýlega hafið störf. Ég gerði það þann 19. september síðastliðinn.“
Braut gegn fjölda greina í siðareglum Samfylkingarinnar
Bára greinir frá því að trúnaðarnefndin hafi skilað niðurstöðu sinni 27. nóvember síðastliðinn. Sú niðurstaða hafi verið skýr og afgerandi: „Ágúst Ólafur Ágústsson sæti áminningu fyrir að hafa brotið gegn Báru Huld Beck með eftirfarandi hætti: Með því að reyna endurtekið og í óþökk þolanda að kyssa hana á starfsstöð Kjarnans 20. júní 2018 og varðar það við reglu 3.1.3. Með því að niðurlægja og auðmýkja þolanda meðal annars með niðurlægjandi og móðgandi athugasemdum um útlit hennar og vitsmuni þegar tilraunir hans báru ekki árangur og varðar það við reglu 3.1.2. Þá telur nefndin að Ágúst Ólafur hafi með framkomu sinni gegn þolanda sniðgengið stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni og bakað félögum sínum í Samfylkingunni tjón með því að virða ekki 1., 4. og 11. gr. siðareglna flokksins. Ákvörðunin styðst við verklagsreglur 6.1.3 um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni.“
Yfirlýsing Ágústar ekki í samræmi við málavexti
Bára segir að hún hyggist ekki taka nokkra afstöðu til þess hvort eða hvernig Ágúst Ólafur geri sinnt stöfum sínum að ferli þessu loknu. Fyrir henni hafi einungis vakað að fá viðurkenningu frá gerandi á því sem átti stað. Þá hafi hún ekki ætlað sér að gera málið opinbert. „Það er ábyrgðarhlutur að senda frá sér yfirlýsingu um mál sem þessi, eins og Ágúst Ólafur gerði. En ef slík yfirlýsing er skrumskæld á einhvern hátt er hætt við að röng og jafnvel varhugaverð skilaboð séu send út í samfélagið. Yfirlýsing Ágústar Ólafs er ekki í samræmi við málavexti. Hún gerir mun minna úr því sem átti sér stað en tilefni var til. Þetta var ekki bara misheppnuð viðreynsla, heldur ítrekuð áreitni og niðurlæging.“
Athugasemdir