Bára Halldórsdóttir, konan sem sat skammt frá sex þingmönnum á Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn og hljóðritaði samskipti þeirra, hefur afhent skrifstofu Alþingi hljóðupptökurnar vegna umfjöllunar forsætisnefndar og siðanefndar Alþingis um málið.
Forstöðumaður lagaskrifstofu Alþingis hafði samband við Stundina, DV og Kvennablaðið í síðustu viku og óskaði eftir gögnunum fyrir hönd þingforseta. Stundin greindi Báru frá beiðninni og ákvað hún nú um helgina, eftir að hafa stigið fram undir sínu rétta nafni í viðtali við Stundina, að afhenda hljóðupptökurnar til að siðanefndin gæti byggt vinnu sína á frumgögnum.
Forsætisnefnd Alþingis tók hátterni þingmannanna sex til umfjöllunar á fundi sínum þann 3. desember og samþykkti að leita álits hinnar ráðgefandi siðanefndar á grundvelli 16. gr. siðareglna alþingismanna. Í bókun forsætisnefndar er þingforseta og skrifstofu Alþingis falið að „ganga svo frá málum næstu daga að erindið fái sem skjótasta meðferð í siðanefndinni þannig að forsætisnefndin geti tekið endanlega afstöðu til málsins“.
Athugasemdir