Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð mannanafnanefndar um eiginnafnið Zoe. Barátta stúlku fæddrar í október 2015 heldur þó áfram, þar sem hæstiréttur var ekki tilbúinn að viðurkenna að hún megi bera nafnið.
Forsaga málsins er sú að mannanafnanefnd hafði hafnað nafninu Zoe á þeim forsendum að bókstafurinn Z sé ekki notaður í íslenskri stafsetningu. Nefndin lagði ekki mat á það í úrskurði sínum hvort aðrir þættir kæmu í veg fyrir að nafnið Zoe yrði samþykkt.
Foreldrar stúlkunnar höfðuðu mál í hennar nafni, en héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfum þeirra í október í fyrra. Málinu var áfrýjað til hæstaréttar sem varð við kröfu þeirra um að úrskurðurinn falli úr gildi, þar sem notkun Z er heimil í tilviki erlendra eiginnafna.
Var það niðurstaða hæstaréttar að mannanafnanefnd hafi ekki tekið afstöðu til nafnsins að öðru leyti og líklega mun nafnið því fara aftur fyrir nefndina. Íslenska ríkið var jafnframt dæmt til að greiða 1 og hálfa milljón króna í málskostnað.
Athugasemdir