Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að ekkert sem sagt hafi verið um hann í pólitík hafi sært hann eins mikið og þau orð Lilju Alfreðsdóttur að hann væri ofbeldismaður.
Lilja, sem kölluð var „helvítis tík“, sem hægt væri að „ríða“, í samtali Miðflokksmannanna Sigmundar Davíðs, Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, þar sem Sigmundur sagði að henni væri ekki treystandi og að hún „spilaði á karlmenn eins og kona kann“, vegna þess að hún hafði ekki samband við Miðflokksmenn til að „tengjast við þá“, kom fram í viðtali við Kastljósið í gærkvöldi og sagðist upplifa þá sem ofbeldismenn, sem ættu ekki að hafa dagskrárvald.
„Lilja er vinur minn,“ segir Sigmundur Davíð í dag, „og það sem hefur reynst mér erfiðast við þau mál sem hafa verið til umræðu að undanförnu var að særa vini mína. Ég skil því vel reiði Lilju.“
Þá segist Sigmundur hafa særst mikið við þessa lýsingu Lilju. „Ég hef verið kallaður fleiri ljótum nöfnum en ég hef tölu á. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa áður verið kallaður ofbeldismaður. Ekkert sem um mig hefur verið sagt í pólitík hefur sært mig eins mikið.“
Hann segir sér þykja erfiðast við Klaustur-málið hafi verið að hafa sært hana. „Ég skil því vel reiði Lilju.“
Segir samhengið hafa riðlast
Þetta kemur fram í færslu sem Sigmundur Davíð birtir á Facebook-síðu sinni. Þar heldur Sigmundur því fram að heildarmynd og samhengi umræðunnar sem átti sér stað á Klaustri Bar hafi riðlast sökum þess að bútar hafi verið klipptir úr upptökunni og birtir. Hann hafi farið mörgum fögrum orðum um Lilju, kallað hana frábæra og þeir sem réðu málum í Framsóknarflokknum létu hana ekki njóta sannmælis. Rétt er að geta þess að við þetta kannast blaðamenn sem hlustað hafa á upptökurnar ekki, en þó er ekki allt samtalið greinanlegt. Vel heyrist hins vegar þegar Gunnar Bragi Sveinsson hrópar: „Hjólum í helvítis tíkina!“
Sigmundur segir líka að honum þyki leitt að sjá Lilju halda því fram að hann hafi ekki haft samband við hana eftir að greint var frá því hvernig talað var um hana. „Ég sendi henni skeyti með afsökunarbeiðni til að reyna að koma á samskiptum. Þegar ekki barst svar við því bað ég aðra manneskju að láta hana vita hvernig mér liði vegna þess sem gerst hefði og að mig langaði að hitta hana. Hún afþakkaði það boð að sinni.“
Segist ekki hafa notað ljót orð
Sigmundur segist aðeins hafa sagt að Lilju væri ekki treystandi pólitískt og hann gæti sjálfum sér kenntu um að hafa skipað hana að Framsóknarflokkurinn hafi með því fengið líflínu. Hann hafi ekki haft ljót orð um hana og sagði það miður að hann hefði ekki atyrt menn fyrir að nota ljót orð um Lilju. Fyrir það skammist hann sín.
Rétt er að benda á að Sigmundur tók undir atyrði sessunauta sinna í garð Lilju. Þá sagði hann meðal annars, eftir að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason höfðu lýst því yfir að hægt væri að „ríða“ henni: „Ég er mjög ánægður að heyra að þið séuð komnir að sameiginlegri niðurstöðu með þetta.“ Einnig sagði Sigmundur að Lilja notaði kynþokkann og „hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“
Athugasemdir