Ekkert varð af kaupum Icelandair á WOW air þar sem fjárþörf þess síðara var metin um 15 milljarðar á þessu ári og næsta. Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag.
Vinna við áreiðanleikakönnun vegna fyrirhugaðra kaupa Icelandair á lággjaldaflugfélaginu leiddi í ljós þessa miklu fjárþörf næstu missera. Sviðsmyndir sýndu að sjóðstreymi félagsins yrði neikvætt allt næsta ár.
ViðskiptaMogginn bar töluna undir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, sem sagði hana ekki vera fjarri lagi, en vildi að öðru leyti ekki skýra fjárþörfina.
Undir lok síðustu viku birti WOW air uppgjör vegna fyrstu 9 mánuða ársins. Kom fram að tap félagsins hafi numið 4,2 milljörðum króna á tímabilinu. Þá hefur Skúli sagt að fjórði ársfjórðungur verði verri en búist var við vegna neikvæðrar umræðu um flugfélagið undanfarna mánuði.
Í tilkynningu í gær kom fram að vilji væri fyrir hendi hjá báðum aðilum að ljúka kaupum Indigo Partners á WOW air sem fyrst.
Athugasemdir