Stærsta sushi-keðja Íslands, Tokyo-sushi, er hætt að kaupa eldislax úr sjókvíaeldi Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands. Tokyo-sushi rekur sushi-staði í Glæsibæ, á Nýbýlavegi auk þess sem fyrirtækið rekur fjóra staði í verslunum Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í stað þess að kaupa lax úr sjókvíaeldi kaupir Tokyo-sushi nú lax frá landeldi sem Samherji rekur í Öxarfirði.
Mikil umræða hefur skapast á Íslandi um framtíð sjókvíaeldis í opnum kvíum. Ein af spurningunum sem er undir er sú spurning hvort byggja eigi upp laxeldi í opnum sjókvíum eða hvort færa eigi laxeldið upp á land. Landeldi á laxi er dýrara og endurspeglast það í verði vörunnar en slíkt eldi er einnig umhverfisvænna þar sem það spillir ekki lífríki náttúrunnar og engin hætta er á að eldislaxinn blandist saman við villta laxastofna. Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna sem stunda sjókvíaeldi halda því fram að ekki sé raunhæft að byggja upp landeldi á Íslandi þar sem það sé svo dýrt. …
Athugasemdir