Álit siðanefndar Alþingis er einungis ráðgefandi og þingið hefur ekkert vald til þess að víkja þingmönnum úr sæti ef álitið er þeim óhagstætt. Þetta segir Ólafur Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, við Morgunblaðið í dag.
Forsætisnefnd Alþingis hefur vísað máli þingmannanna sem náðust á upptöku á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn til siðanefndar Alþingis. Siðanefndina skipa Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, formaður og fyrrverandi forseti Alþingis, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, doktor í heimspeki og umboðsmaður barna.
Ólafur segir þetta fordæmalaust ástand þar sem svona mál hefur ekki komið upp áður. „Það er þó ekki að sjá að hægt verði að gera mikið með það álit,“ segir hann. „Þetta er bara ráðgefandi álit og þótt það verði þeim mjög óhagstætt breytir það ekki því að það eru þingmennirnir sjálfir sem ákveða hvort þeir segja af sér eða ekki.“
Siðanefndin var skipuð í febrúar í fyrra, en þingsályktun um siðareglur Alþingis hafði verið samþykkt ári fyrr. „Alþingi getur því í raun mjög lítið gert,“ segir Ólafur. „En ef úrskurður siðanefndar verður umræddum þingmönnum óhagstæður er það auðvitað áfellisdómur yfir þeim. Það mun þó ekki hafa neinar beinar afleiðingar varðandi stöðu þeirra.“
Athugasemdir