Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur að Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi kannski haft „væntingar í ljósi reynslu sinnar“ um að verða skipaður sendiherra.
Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi rétt í þessu spurði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, út í skipan Gunnars Braga á Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sem sendiherra í Bandaríkjunum. Á Klaustursupptökunum kom fram að Gunnar Bragi hafi talið sig eiga von á að verða sjálfur skipaður sendiherra af Bjarna sem endurgjald fyrir skipanina. Hafi Bjarni lofað honum þessu.
„Átti hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, fund, samtal eða nokkur skonar samskipti, formleg eða óformleg, með Gunnari Braga Sveinssyni þar sem skipan Geirs H. Haarde sem sendiherra í Bandaríkjunum var rædd?“ spurði Þórhildur Sunna.
Bjarni sagðist hafa átt ótal fundi með Gunnari Braga. „Á einum fundinum sem ég sat með honum tilkynnti hann mér að hann hyggðist skipa Geir H. Haarde sem sendirherra,“ sagði Bjarni. „Honum fannst það við hæfi þar sem um var að ræða fyrrverandi formann flokks míns og ég tók því fagnandi.“
Þórhildur Sunna spurði í framhaldinu hvort Bjarni vissi um eitthvað sem gæti hafa gefið Gunnari Braga væntingar um endurgjald vegna skipaninnar.
Sagði Bjarni að stutta svarið við spurningunni væri nei. „Almenna svarið við þessu er að háttvirtur þingmaður er fyrrverandi utanríkisrðaherra og margir slíkir hafa endað í utanríkisþjónustunni einhvers staðar.“
Bætti Bjarni því við að ekkert hefði komið fram á fundum þeirra Gunnars Braga sem gefið hafi tilefni fyrir hann að búast við slíkri endurgreiðslu. „Hann hefur kannski væntingar í ljósi reynslu sinnar,“ sagði Bjarni loks og taldi upp fyrrverandi stjórnmálamenn og utanríkisráðherra sem nú gegna störfum fyrir utanríkisþjónustuna.
Athugasemdir