Þingmenn hafa rætt sín á milli ýmsar hugmyndir um hvernig þeir geti komið þeim þingmönnum sem náðust á upptökur á Klaustri bar í skilning um að nærveru þeirra sé ekki óskað á Alþingi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Stundin birti á miðvikudag fréttir upp úr upptöku af samskiptum sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustur bar 20. nóvember. Voru þingmennirnir háværir og vakti hegðun þeirra athygli í vitna viðurvist.
Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hyggjast fara í tímabundið leyfi frá þingstörfum vegna málsins. Þá voru Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson reknir úr þingflokki Flokks fólksins, en munu sitja áfram á þingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum hafa ekki tilkynnt um annað en áframhaldandi þingsetu.
Að því sem fram kemur í Fréttablaðinu íhuga ýmsir þingmenn mótmæli til þess að sannfæra þingmennina um að ekki sé vilji til að vinna með þeim og að þeir þurfi að víkja sem fyrst. Ein hugmynd hefur verið að yfirgefa þingsalinn þegar þingmennirnir taka til máls til þess að þrýsta á afsögn þeirra.
Einn þingmaður sagðist ekki koma til greina að þeir sem talað var illa um á upptökunum þurfi að sitja nefndarfundi með þingmönnunum sem um ræðir.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir þingfund ekki munu hefjast með hefðbundnum hætti.
„Við erum að undirbúa ýmislegt og eitt af því er upphaf fundarins og menn geta velt því fyrir sér hvort það sé líklegt að hann byrji án þess að þetta á einhvern hátt komi við sögu,“ segir Steingrímur. „Þetta er upphaf fyrsta fundar eftir að þetta hefur gengið yfir. Einnig verða forsætisnefndarfundur og fundur með formönnum þingflokka svo það mun líklegast eitthvað gerast þar.“
Athugasemdir