Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, kallaði Eygló Harðardóttur, fyrrverandi ráðherra, „galna kerlingarklessu“ á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn.
Karl sat ásamt Ólafi Ísleifssyni, flokksbróður sínum, og fjórum þingmönnum Miðflokksins á barnum. Ræddi hópurinn meðal annars möguleg vistaskipti Karls og Ólafs yfir í Miðflokkinn. Stundin hefur undir höndum upptöku af samskiptum þeirra, en þingmennirnir voru háværir og vakti hegðun þeirra athygli í vitna viðurvist.
„Hún bjó í Vestmannaeyjum, þess vegna studdi hana enginn,“ sagði Karl við kollega sína. „Það var ekkert í henni, það var ekkert í henni. Það var ekkert að frétta hjá þessari konu. Galin kerlingarklessa.
Eygló var þingmaður Framsóknarflokksins frá 2008 til 2017 og félags- og húsnæðismálaráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar frá 2013 til 2017. Hún bjó um langt skeið í Vestmannaeyjum, þar sem Karl Gauti var sýslumaður frá 1998 til 2014.
Þingmennirnir á barnum létu ýmis óviðurkvæmileg orð falla í garð stjórnmálakvenna, líkt og fjallað hefur verið um hér, hér, hér, hér, hér og hér. Haft var eftir Karli Gauta í Stundinni að Inga Sæland gæti „grenjað“ en ekki stjórnað.
Rekinn úr flokknum
Flokkur fólksins tilkynnti rétt í þessu að „í ljósi trúnaðarbrests sem upp er kominn“ í þingflokknum hafi stjórnin ákveðið að víkja þeim Karli Gauta og Ólafi Ísleifssyni úr flokknum. Við ákvörðunina var stuðst við samþykktir flokksins, þar sem segir meðal annars að „sé félagsmaður staðinn að því að vinna gegn meginmarkmiðum og hagsmunum Flokks fólksins, skal hann sviptur félagsaðild“. Í yfirlýsingu stjórnar kom fram að hún harmi þá rýrð sem umræddir þingmenn hafa kastað á Flokk fólksins, með óafsakanlegri þátttöku sinni á fundi með þingmönnum Miðflokksins. Undir yfirlýsinguna skrifar formaður flokksins, Inga Sæland.
Karl Gauti taldi sig hins vegar geta verið áfram í Flokki fólksins, eins og fram kom í fréttum í gær. Honum liði illa yfir málinu og hefði beðið Ingu afsökunar.
„Ég harma ummæli sem ég lét falla á veitingastað fyrir stuttu síðan og hafa birst í nokkrum fjölmiðlum. Af því tilefni vil ég taka fram að ég er ekki á förum úr Flokki fólksins, styð stefnu flokksins og ber traust til formanns hans, Ingu Sæland,“ sagði Karl í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum.
Telja þeim ekki stætt á þingi
Þingkonur sem voru lítilsvirtar í samtali þingmanna Miðflokksins og Flokksins líta svo á að þátttakendum í þessu samtali sé ekki stætt að sitja áfram á Alþingi. Fjöldi þingmanna hefur fordæmt málflutning þeirra og forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sagði ummælin óafsakanleg og óverjandi. Hópur þingmanna sendi í gær erindi á forsætisnefnd Alþingis þar sem þess var óskað að siðanefnd Alþingis tæki málið fyrir.
Fyrr í dag var þeim tilmælum beint að Karli Gauta að hann myndi ekki sitja fund umhverfis- og samgöngunefndar, þegar Íris Róbertsdóttir, bæjarsjóri Vestmannaeyja var gestur nefndarinnar. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður nefndarinnar, lét sig einnig hverfa af fundinum áður en Íris mætti.
„Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan,“ sagði Bergþór meðal annars um Írisi. „Og á þeim forsendum segi ég að hún hrynji niður listann,“ svaraði Sigmundur Davíð og Bergþór tók undir það: „Eðlilega.“
Vildu fá þá yfir
Í fréttum Stundarinnar hefur einnig komið fram að Miðflokkurinn sóttist eftir því að fá Karl Gauta og Ólaf Ísleifsson yfir til sín, þar sem þeir sátu saman að sumbli á Klaustri.
Nú eru þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólafsson „komnir í leyfi“ frá þingstörfum fyrir Miðflokkinn, en Sigmundur Davíð, sem einnig tók þátt í samtalinu tilkynnti Miðflokksmönnum það með tölvupósti í dag.
Í tölvupóstinum sagðist Sigmundur Davíð oft hafa setið slíkar samræður án þess að stöðva þær og gerði lítið úr því að þær tengdust kyni fólksins sem þar átti í hlut eða flokksaðild. „Ég hef hlustað á þingmenn flestra flokka úthúða flokksfélögum sínum og nota orðbragð sem í sumum, jafnvel mörgum, tilvikum er enn grófara en það sem birst hefur að undanförnu. Þingmenn af báðum kynjum eiga þar í hlut og fórnarlömbin eru auk þess af báðum kynjum.“
Í gær þvertók Gunnar Bragi þó fyrir það að málið væri ástæða til afsagnar og sagðist ekki hafa brotið af sér, aðeins hegðað sér asnalega. Aðspurður sagðist hann vel geta staðið undir því að verða sendiherra og hann myndi íhuga það yrði honum boðin slík staða. Viðtalið við Gunnar Braga var tekið áður en Stundin greindi frá áformum hans um hefndaraðgerðir gegn Lilju Alfreðsdóttur, sem hann lýsti í samsætinu á Klaustri.
Aðeins Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, sagðist taka ábyrgð sína alvarlega í gær og að hún væri að íhuga að víkja vegna málsins. Ef af því verður hverfur eina þingkona Miðflokksins af þingi.
Framhaldið veltur á hinum
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem hefur meðal annars kennt siðfræði í opinberri stjórnsýslu, hefur verið í forsvari fyrir Gagnsæi - samtök gegn spillingu. Samtökin birtu í dag færslu á Facebook þar sem bent var á að það er ekki persónuleg ákvörðun þessara þingmanna hvort þeir muni segja af sér.
„Framhald þessa máls veltur ekki á þingmönnunum sex: Viðbrögð þeirra eru fyrirsjáanleg. Þeir munu reyna að halda sætum sínum og segjast sjá eftir öllu saman eins lengi og aðrir leyfa þeim það. Framhaldið veltur á hinum: Hvort flokksfélagarnir sniðganga þá eða fyrirgefa þeim „stráksskapinn“, hvort aðrir þingmenn neita að vinna með þeim eða láta eins og ekkert hafi í skorist – svona þegar verstu lætin eru liðin hjá.
Nú er það Alþingi sjálft sem þarf að sýna hvort það ætlar að samsama sig menningarstigi sexmenninganna, eða loksins reka af sér slyðruorðið og sýna að ruddaskapur, klámkjaftur og ofbeldisfullt þrugl hefur afleiðingar.
Þetta gera hinir 57 þingmennirnir og flokkar sexmenninganna með því einfaldlega að sniðganga þá og sýna þeim að það er hægt að fyrirgera rétti sínum til valda og áhrifa, jafnvel þó að formlega takist manni að hanga á þingsæti sínu.“
Uppfært 3. desember:
Karl Gauti sendi frá sér yfirlýsingu um helgina þar sem hann fullyrðir að orðin um að Eygló Harðardóttir sé „galin kerlingarklessa“ og að það sé „ekkert í henni“ séu ekki sín heldur einhvers annars sem sat á Klaustri Bar. „Ég þekki mitt orðfæri og mína rödd. Þessi orð voru ekki mín og sú rödd sem talar er það ekki heldur,“ segir Karl Gauti. Erfitt er að greina á upptökunni hvort Karl Gauti eða Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, lætur orðin falla. Karl Gauti er úr Vestmannaeyjum, eins og Eygló, en Gunnar Bragi var samráðherra Eyglóar í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem einnig var viðstaddur umræðurnar. Gunnar Bragi hefur sjálfur sagt að hann muni lítið eftir því sem hann sagði í umræðunum og sé hissa á þeim orðum sem hann hefur heyrst segja.
Athugasemdir