Félagið Indigo Partners hyggst kaupa í flugfélaginu WOW air, en Skúli Mogensen verður áfram stærsti hluthafi, samkvæmt tilkynningu beggja félaga í gærkvöldi. Hætt hafði verið við kaup Icelandair á WOW í gærmorgun og var framtíð flugfélagsins tvísýn.
Indigo er leiðandi fjárfestir í hinu ungverska Wizz air, lággjaldaflugfélagi sem flogið hefur á milli Íslands og Póllands. Þá fjárfestir Indigo í flugiðnaði víða um heim.
Í tilkynningunni segist Skúli vera sannfærður um að þessi ákvörðun sé sú rétta fyrir starfsfólk WOW air og farþegana. Frekari skilmálar viðskiptanna hafa ekki verið gefnir upp.
Tilkynningin um kaupin kemur eftir að 237 manns var sagt upp hjá Airport Associates á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið er helsti þjónustuaðili WOW air og er þetta stærsta hópuppsögnin í Reykjanesbæ síðan varnarlið bandaríska hersins fór árið 2006, samkvæmt Víkurfréttum.
„Það er óhægt að segja að þetta sé svartur fimmtudagur. Okkur er verulega brugðið en við munum þjónusta þessa starfsmenn eftir fremsta megni,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður VSFK.
Athugasemdir