„Það hefur engin gugga teygt mig meira á asnaeyrunum en hún sem ég hef ekki fengið að ríða.“
Þetta sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, við félaga sína, Gunnar Braga Sveinsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, á Klaustri bar þann 20. nóvember síðastliðinn.
Stundin hefur undir höndum upptöku af samskiptunum, en þingmennirnir voru háværir og vakti hegðun þeirra athygli.
Ekki er ljóst til hvaða konu orð Bergþórs vísa. Á svipuðum stað í samtalinu heyrist Gunnar Bragi kalla stjórnmálakonu „helvítis tík“, en einnig er óljóst um hverja hann er að tala. Á þessum tíma kvöldsins höfðu Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, þingmenn Flokks fólksins, yfirgefið samkunduna.
Stundin fjallaði með ítarlegum hætti um þá kvenfyrirlitningu sem birtist í samskiptum þingmannanna í gærkvöldi. Athygli vakti að Bergþór Ólason mætti ekki til vinnu í morgun og var fjarverandi á fundi umhverfis- og samgöngunefndar.
Í fréttum Stundarinnar í gær kom meðal annars fram að Bergþór hefði kallað Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, „húrrandi klikkaða kuntu“ auk þess sem þingmennirnir hefðu gantast með að það væri eðlilegt að kona sem væri ekki jafn „hot“ og áður yrði látin gjalda fyrir það í prófkjörum. „Það fellur hratt á hana,“ sagði Bergþór um stjórnmálakonu.
Þingmenn Miðflokksins birtu yfirlýsingu á Facebook áðan þar sem þeir biðjast „einlæglegrar afsökunar“ á „ónærgætnum orðum“. Þeir segja að það hafi ekki verið ætlunin að meiða neinn. „Ljóst má vera að sá talsmáti sem þarna var á köflum viðhafður er óafsakanlegur. Við einsetjum okkur að læra af þessu og munum leitast við að sýna kurteisi og virðingu fyrir samferðarfólki okkar. Jafnframt biðjum við flokksmenn Miðflokksins og fjölskyldur okkar afsökunar á að hafa gengið fram með þessum hætti.“
Athugasemdir