Þingmenn Miðflokksins fara hörðum orðum um kvenkyns stjórnmálamenn á upptöku sem Stundin hefur undir höndum og gantast með að stjórnmálakona hljóti að „hrynja niður“ prófkjörslista vegna þess að hún sé ekki jafn „hot“ og áður.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir ræddu málin á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn ásamt Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins. Orðaskiptin voru mjög hávær, áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust að hluta á upptöku. Þar er meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika.
„Það fellur hratt á hana“
Á einum tímapunkti töluðu þingmennirnir um hvernig næsta prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í tilteknu kjördæmi geti farið.
Gunnar Bragi: „Ég held reyndar að [...] geti verið helvíti öflug. Hún er helvíti sæt stelpa.“
Sigmunur Davíð: „Þetta er svona móment, ung kona, ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum, lyftum henni.“
Bergþór: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Sigmundur Davíð: „Og á þeim forsendum segi ég að hún hrynji niður listann.“
Bergþór: „Eðlilega.“
Á þessu augnabliki skaut Anna Kolbrún inn: „Viljiði velta fyrir ykkur, ef þetta væri karl?“ og við tóku háreysti og hlátrasköll karlanna.
Sprelluðu með að Silja Dögg væri „cunt“
Stundin hefur þegar fjallað um orð Bergþórs sem hann lét falla um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, þetta kvöld, en hann kallaði hana „húrrandi klikkaða kuntu“ þegar hann reyndi að sannfæra þingmennina Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson um að yfirgefa Flokk fólksins og ganga í Miðflokkinn.
„Þið ráðið ekkert við hana. Segið mér ef ég hef rangt fyrir mér. Ég mundi ekki ráða við hana, Sigmundur mundi ekki, hún er fokking tryllt,“ sagði Bergþór. Sigmundur Davíð tók undir, hló að orðum Bergþórs um að Inga Sæland væri kunta og sagði að Bergþór hefði „alltaf rétt fyrir sér“.
Á öðrum stað í upptökunni gantast þingmennirnir með stafina UNT og til hvaða konu megi vísa með því að setja stafinn C þar fyrir framan svo úr verði „cunt“. Hlógu þeir að því að cunt-orðið lýsti best Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins. Bergþór sagði að hún væri „ótraust kona“ og Anna Kolbrún sagði hana „hættulega“. Vert er að nefna í þessu samhengi að Silja Dögg var í hópi þeirra framsóknarmanna sem töldu Sigmundi Davíð ekki sætt á formannsstóli eftir umfjöllun um Panamaskjölin árið 2016.
„Kræf kerfiskerling“ og „algjör apaköttur“
„En ég get sagt þér heilagan sannleika,“ sagði Anna Kolbrún á einum stað í upptökunni. „Strákar eru lesblindir eða bleslindir, hvernig sem þið viljið orða það, stelpur eru að meirihlutanum talnablindar.“
„Er það þess vegna sem þær vita ekki hjá hvað mörgum þeir sofa hjá,“ svaraði Gunnar Bragi.
„Þarna kom skýring,“ sagði Bergþór.
„Ég held að þetta sé rétt,“ bætti Sigmundur Davíð við.
Á upptökunni kallaði Gunnar Bragi einnig Unni Brá Konráðsdóttur, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins „kræfa kerfiskerlingu“.
Þá lét hann miður falleg orð falla um Oddnýju Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, þegar Anna Kolbrún kom henni til varnar.
„Oddný er ekkert ágæt, hún er algjör apaköttur. Hún veit ekki neitt, hún kann ekki neitt, hún getur ekki neitt,“ sagði Gunnar Bragi.
Beitti sér fyrir jafnrétti á alþjóðavísu
Í tíð sem utanríkisráðherra beitti Gunnar Bragi sér fyrir He for She átakinu um kynjajafnrétti. „Spurningin sem ég legg til hér er nógu einföld: af hverju er íslenskum karlmönnum annt um jafnrétti?“ skrifaði hann í grein í The Guardian, sem leikkonan Emma Watson vakti athygli á á alþjóðavísu.
„Fyrir mér snýst málið um að það að ýta undir og verja jafnrétti kynjanna snúist um meira en aðgerðir stjórnvalda. Það krefst breytingar í viðhorfum og hegðun og það krefst þess að skaðlegar staðalímyndir um hvað við höldum að það þýði að vera karl eða kona séu brotnar niður. Hingað til hefur umræðan verið í höndum kvenna. En til þess að skapa varanlegar breytingar mega menn ekki vera fjarverandi frá umræðunni. Við karlmenn erum hluti af vandamálinu, en einnig hluti af lausninni.“
Sagði konur ekki treysta sér í stjórnmál vegna persónuníðs
Sigmundur Davíð sagði í Silfri Egils í október í fyrra að „taka verði á“ umræðunni á Íslandi, þar sem konur treysti sér ekki í stjórnmál vegna „persónulegs níðs“ á stjórnmálamönnum. „En það sem ég er að spá í sérstaklega, varðandi stöðu kvenna í stjórnmálum, er áferð stjórnnmálanna. Maður hefur tekið eftir því að fólk almennt, en kannski sérstaklega konur, hlutfallslega meira konur, eru ekki hrifnar af því hvernig stjórnmálin líta út. Og þar af leiðandi finnst þetta ekki freistandi starfsvettvangur,“ sagði Sigmundur.
Athugasemdir