Undanfarnar vikur hef ég verið að fjalla um Adolf Hitler á námskeiði hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og af því tilefni rifjað upp ýmsan fróðleik sem ég hafði áður viðað að mér um þrjótinn og gluggað í nýjustu bækur í fræðunum. Að sumu leyti hef ég öðlast nýjan skilning á Hitler við þetta. Sú saga sem ég lærði í skóla og heyjaði mér svo sjálfur næstu ár og áratugi, hún gekk ekki síst út á að Hitler hefði verið nánast óhjákvæmileg afleiðing þeirra aðstæðna sem ríktu í Þýskalandi og raunar í Evrópu á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Hryggileg afleiðing og hræðileg, auðvitað, en óhjákvæmileg. Hörmungar fyrri heimsstyrjaldar og niðurbrot samfélagsins í kjölfarið, óðaverðbólga og kreppan mikla, grimmir skilmálar Versalasamninganna sem sigurvegararnir neyddu yfir Þjóðverja, já, þegar allt lagðist á eitt hlaut það að enda með Hitler, hugsaði ég lengi vel.
Fasísk stefna í Ungverjalandi
En nú er ég ekki lengur þeirrar skoðunar. Atburðir síðustu ára, ekki síst í Evrópu en einnig í Bandaríkjunum og víðar, höfðu þegar fært mér heim sanninn um að sú kenning er röng að fasisminn, sú grimmdarstefna, er ekki afleiðing af niðurbroti samfélags eins og ég hélt. Augljósasta dæmið um þetta er Ungverjaland. Eftir hrun kommúnismans var auðvitað við ýmsan vanda að glíma þar í landi en Ungverjar virtust ætla að verða snöggir að leysa þau vandamál. Allt virtist stefna mjög í rétta átt. En þar er nú kominn til valda svo stjórnlyndur forsætisráðherra að það er ekkert ofmælt að tala um fasíska stefnu hjá Viktor Orbán. Engin sú hætta steðjaði að Ungverjum að þeir hafi ekki átt annars úrkosti en leita undir verndarvæng „sterka mannsins“.
Má ekki líðast
Sama má segja um Pólland upp á síðkastið. Þar var líka við vandamál að etja en í samanburði við mörg lönd virtust þau léttvæg. Samt kusu Pólverjar yfir sig hálffasískan flokk sem virðist sífellt forherðast, og er nýjasta dæmið um það kvörtun pólska sendiherrans á Íslandi við forseta Íslands og forsætisráðherra yfir frétt Stundarinnar um þjóðhátíðargöngu sem nasistar í Póllandi tóku þátt í, án þess að amast væri við. Ég hef ekki ennþá heyrt af því að Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra Íslands, hafi kallað pólska sendiherrann á teppið til sín og skammað hann fyrir þetta frumhlaup, en það verður hann að gera. Það má einfaldlega ekki líðast að erlendir sendimenn ástundi annan eins terrorisma og pólski sendiherrann gerði þarna.
Mjög alvarlegur yfirgangur
Terrorisma segi ég, vegna þess að auðvitað var ætlunin með kvörtuninni annars vegar að skjóta blaðamönnum Stundarinnar skelk í bringu, láta þá hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifuðu eitthvað næst sem pólsk stjórnvöld gætu hugsanlega verið ósátt við, og hins vegar að venja forseta og forsætisráðherra við þá tilhugsun að pólsk stjórnvöld fylgdust ströng með umræðu hér og gætu orðið reið ef einhver úti í bæ segði eitthvað ljótt um pólsk stjórnvöld.
"Hótun sendiherrans um að frétt Stundarinnar gæti haft slæmar afleiðingar fyrir samskipti þjóðanna er mjög alvarlegur yfirgangur"
Hótun sendiherrans um að frétt Stundarinnar gæti haft slæmar afleiðingar fyrir samskipti þjóðanna er mjög alvarlegur yfirgangur, og ég verð að segja að mér finnst að Guðlaugur Þór mætti vel gefa sér eins og hálftíma frá stöðugri viðleitni sinni til að Íslendingar gangi í breska Íhaldsflokkinn og notað hálftímann til að tala yfir hausamótunum á þessum sendiherra.
Vildu gefa pópúlistanum tækifæri
Ný endurnýjuð kynni mín af Hitler hafa nefnilega fært mér heim sanninn um hve miklu munaði að tækist að koma í veg fyrir valdatöku hans. Í kosningum í Þýskalandi árið 1928 fékk Nasistaflokkurinn 2,5 prósent atkvæða. Þá hafði hann hamast á götum úti með Hitler í fararbroddi í mörg ár, vakið heilmikla athygli en aðeins þessi fáu prósent vildu þó kjósa hann. Í kjölfar kreppunnar miklu 1929–1932 vildu margir gefa Hitler tækifæri af því hefðbundnir stjórnmálaflokkar voru fastir í innbyrðis átökum, en að lokum var það samt fíflska og aðgæsluleysi stjórnmálamanna og værukærð þjóðarinnar sem kom Hitler til valda – alveg að óþörfu.
Lúmskari og hættulegri
Lærdómurinn er sá að pópúlisminn er miklu lúmskari og hættulegri en við getum ímyndað okkur. Einmitt af því við teljum okkur býsna örugg. Sá sem renndi yfir atkvæðatölurnar í Þýskalandi árið 1928 hefði vart getað ímyndað sér að réttum fimm árum síðar yrði 2,5 prósenta flokkurinn búinn að afnema lýðræði í Þýskalandi, banna alla aðra flokka og lagður út á þá braut sem endaði með gasklefum. Það þarf svo lítið til. Það geta orðið svo mörg slys. Því þurfum við sífellt að halda vöku okkar og þess vegna þarf Guðlaugur Þór að skamma sendiherra til að sýna honum að við hér látum ekki líðast fasískar aðfarir.
Undan því getur Guðlaugur Þór ekki vikist.
Athugasemdir