Á síðasta ári fékk 18% kvenna á Íslandi ávísað þunglyndislyfjum. Það sama á við um 10% karla. Íslendingar nota tvöfalt meira af þunglyndislyfjum en meðaltal OECD og 24% meira en næsta OECD þjóð. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Mest aukning var á notkun þunglyndislyfja hjá konum á aldrinum 15 til 40 ára. 31 þúsund konur leystu út þunglyndislyf í fyrra og 17 þúsund karlar. Ísland skeri sig úr á alþjóðavísu og er notkun Íslendinga á bæði þunglyndis- og svefnlyfjum í sögulegu hámarki.
Langtímanotkun á svefnlyfjum er einnig áhyggjuefni Embættis landlæknis. Af 27 þúsund manns sem fengu ávísað svefnlyfjum árið 2003 var rúmur þriðjungur enn að fá svefnlyf árið 2017. „Okkar áhyggjuefni er hversu margir eru á þessum lyfjum og virðast vera að festast á þessum lyfjum í langan tíma,“ segir Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá Embætti landlæknis um svefnlyfin.
Rannsóknir staðfesta skaðsemi langtímanotkunar svefnlyfja, en oft er ráðlögð notkun ekki nema tvær til fjórar vikur. Margir noti þau um árabil og segir Ólafur að hættan sé að fólk ánetjist þeim. Árið 2016 notuðu Íslendingar 37% meira af svefnlyfjum en næsta Norðurlandaþjóð.
Læknar fengu árið 2016 aðgang að lyfjagagnagrunni í rauntíma. Með notkun hans sé hægt að sporna gegn aukningunni. „Ráp milli lækna ætti því ekki að vera mikið vandamál en við sjáum það enn vera vandamál með þessi ávanabindandi lyf,“ segir Ólafur. „Ef fólk fær ekki lyfin sín getur það brugðist við á ýmsan hátt. Við fáum upplýsingar frá læknum um að þeir verði fyrir ógnunum í sínu starfi og fólk sækir mjög stíft að fá þessi lyf og halda þessum skömmtum.“
Athugasemdir