Þrjár konur kynntu stóra dóminn í stóra Orkuveitumálinu og tveir karlar geta nú snúið aftur til starfa. Konan sem gerði aðsúg að yfirmanni sínum hjá fyrirtækinu átti skilið að vera rekin. Hann líka. Stóri sökudólgurinn í málinu er svokölluð opinber smánun, fyrirtækið ætlar að líta í barm og móta stefnu um hvernig bregðast megi við í framtíðinni ef einhver dregur í efa að vinnustaðamenningin sé frábær.
Málið var alls ekki einfalt tvist inn í Metoo-umræðuna. Í aðalhlutverkinu var karl sem tróð upp sem fórnarlamb í málinu og fór þar með hlutverk eiginkonunnar. Hann virðist einnig hafa troðið upp sem umræðustjóri Metoo-byltingarinnar og núna sem helsti skúrkurinn. Þetta er frábær frammistaða og við skulum öll klappa fyrir Einari Bárðarsyni áður en við höldum áfram að velta okkur upp úr forinni.
Það voru líka þrjár svartklæddar konur sem fluttu okkur fagnaðarerindið um Orkuveituna. Þær lásu upp úr þykkri skýrslu um staðla og möt og ferla, milli þess sem þær fimbulfömbuðu um hversu dásamlegt fyrirtæki Orkuveita Reykjavíkur væri. Orkuveitan er heldur ekki dæmigert karlrembufyrirtæki. Þar er varla vinnufriður fyrir jafnréttisúttektum og metoo-vinnustofum og ekki hægt að þverfóta fyrir jafnréttisviðurkenningum.
Hjá Orkuveitunni er kynferðisáreitni bara 1 prósent og einelti bara 3 prósent, sem er undir meðaltali. Það er víst gott að vera undir meðaltali. Við talnablindu vitleysingarnir megum samt ekki falla í þá gryfju að halda að allir starfsmenn hafi verið áreittir en bara lítið.
Það er víst þannig að bak við þetta eina prósent eru fimm starfsmenn sem höfðu verið áreittir. Hafi áreitið verið alvarlegt má ætla að þeir hafi litla huggun af því að fyrirtækið sé undir meðaltali. En það er líka athyglisvert að átta prósent fyrrverandi starfsmanna höfðu orðið fyrir kynferðisáreiti og þriðjungur fyrrverandi starfsmanna sagðist hafa verið lagður í einelti. Undarlegt ósamræmi nema fólk sé almennt rekið fyrir frammistöðuvanda ef það verður fyrir kynferðisáreiti eða lendir í einelti.
Á kvennafrídaginn ætlaði allt um koll að keyra af fögnuði þegar Áslaug Thelma Einarsdóttir hélt ræðu um starfslok sín hjá Orkuveitunni. Núna er þögnin ærandi. Enda kemur fram í skýrslunni undir yfirskriftinni trúnaðarmál að hún hafi átt við frammistöðuvanda að stríða.
Þetta er næstum of gott til að vera satt. Hugsa sér, þarna er þessi hundleiðinlega kona að nöldra og grafa undan yfirmanni sem er frábær rekstrarmaður og þá reynist hún eiga við frammistöðuvanda að stríða. Málið er dautt.
En ég skil samt ekki eitt. Af hverju er Bjarni Már ekki ráðinn aftur ef ekkert var athugavert við framkomu hans?
Og ef eitthvað var raunverulega athugavert við framkomu hans, var þá forsvaranlegt af Bjarna Bjarnasyni forstjóra að láta hjá líða í marga mánuði að bregðast við því?
Það hljómar eins og dálítill frammistöðuvandi.
En nei, þetta er trúnaðarmál. Ástæður uppsagna fólksins, sem er upphaf og endir deilunnar, er trúnaðarmál. Skýrslan og blaðamannafundur í beinni útsendingu fjallaði ekki um inntakið i málinu heldur hvað Orkuveitan er gott fyrirtæki. Allt annað er trúnaðarmál.
Málið er þó óþægileg áminning um þrennt.
Það er mjög ánægjulegt ef skúrkar fá makleg málagjöld á samfélagsmiðlum en það er að sama skapi óþægileg tilhugsun ef einhverjir fá slíka útreið bara af því að þeir liggja vel við höggi. Við þurfum að geta treyst því að það sé tekið af festu á málum þegar þau koma upp. Það var ekki gert hjá Orkuveitunni. Það blasir við. Þannig varð til jarðvegur fyrir hina „opinberu smánun“.
„Ef þú ætlar að vera kvenfrelsishetja, ekki láta eiginmann þinn taka af þér orðið“
Og í öðru lagi, ef þú ætlar að vera kvenfrelsishetja, ekki láta eiginmann þinn taka af þér orðið. Ekki siga honum á yfirmennina. Það er ekki trúverðugt.
Og í þriðja og grátlegasta lagi, það er engin trygging fyrir því að það sé hlustað á konur að aðrar konur séu hinum megin við borðið.
Því miður.
Þrenningin sem kynnti stóra dóminn í Orkuveitumálinu hefur örugglega verið á Austurvelli í klappliðinu þegar Áslaug flutti ræðuna sína á kvennafrídaginn.
En síðan hverfur hver til síns heima.
Eins og Áslaug Thelma benti sjálf á í ræðunni sinni er auðveldara að fordæma hegðun manna sem eru ekki yfirmenn á vinnustað manns sjálfs, í sömu fjölskyldu eða í sama stjórnmálaflokki.
Kannski er bara þægilegast að láta sig bara hverfa aftur á bak inn á metoo-vinnustofuna, til að pússa jafnréttisverðlaunin eða yfirfara línurit og staðla.
Við erum þó varla í stöðu til að efast um heilindi þeirra sem gerðu skýrsluna. Við höfum þaðan af síður neina ástæðu til að trúa þeim í blindni. Við erum í raun engu nær. Eina sem við vitum núna er að einhverjum finnst Orkuveitan frábært fyrirtæki og að Áslaug Thelma stríði við frammistöðuvanda. Svo hefur ekki heldur farið framhjá okkur að hún á frekar dónalegan mann.
Annað er trúnaðarmál.
Athugasemdir