Traust Íslendinga til bankakerfis, fjármálastjórnkerfis og eftirlits, stjórnmálaflokka og dómskerfis eða löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds, mælist umtalsvert minna en á öðrum Norðurlöndum í skoðanakönnunum. Einnig kemur fram í könnunum að vantraust á fjölmiðlum á Íslandi er áberandi mikið.
Í þessum könnunum er iðulega spurt: Hversu mikið traust berð þú til … ? Og svarið nú síðast var að 14% bera mikið traust til bankakerfisins, 19% til fjármálakerfis og borgarstjórnar. Alþingi 22%, Seðlabankinn 33% og dómskerfið 43%. Landhelgisgæslan, Lögreglan og forseti Íslands njóta oftast mests trausts. Það er ekkert nýtt, tilhneigingin hefur iðulega verið í þessa átt þótt tölurnar séu lágar.
Spyrja má hversu góð spurning þetta er: Hversu mikið traust berð þú til … ? Kannski yrðu niðurstöðurnar svipaðar ef spurt yrði: Hversu mikla virðingu berðu fyrir …? Ef til vill ætti frekar að mæla áreiðanleika og réttmæti.
Að treysta sjálfum sér og öðrum
Fólk treystir lögreglunni almennt til að sjá um löggæslu og Landhelgisgæslunni til að sjá um varnarmál. Verkefnin eru vel skilgreind, það gilda lög og reglugerðir og verkferlar um hvaðeina hjá þessum stofnunum. Það er einnig auðvelt að treysta fólki fyrir skilgreindum verkefnum, sérstaklega ef fagfólk sinnir þeim af hæfni. Eðlilega hefur fólk eftir hrun meiri vara á gagnvart bankakerfinu og stjórnmálaflokkum og stofnunum eins og Alþingi. Það er ekkert nýtt. Ef spurt er um traust þá er í raun spurt um ýmsa þætti:
• Hvernig má treysta sjálfum sér? Fólk treystir sér til þess að gera hluti eða standast þrýsting eftir að hafa lært að þekkja sjálft sig, æft sig og þjálfað. Það lærir hvar hæfileikar þeirra liggja og vinnur út frá því. Það speglar sig í öðrum, það metur málin út frá reynslu og öðlast sjálfstraust. Til dæmis á óskipulögð manneskja helst ekki að vera verkefnastjóri. Kærulaus maður sem jafnframt er utan við sig veit að honum á ekki að treysta fyrir mikilvægum tímasettum verkefnum. Hverjum og einum ætti að treysta fyrir því sem hann hefur hæfileika til og unnið fyrir. Allt eftir því hvar styrkleikar hans liggja.
• Hvernig má treysta öðrum? Fólk lærir af reynslunni að treysta öðru fólki, vinum og kunningjum vel eða illa – en alls ekki til að gera allt milli himins og jarðar. Einn er góður hlustandi, annar er röskur til vinnu og sá þriðji er góður ráðgjafi í vissum málum. Fólk treystir öðrum misvel, allt eftir því hvað ber að gera og hversu mikilvægt það er. Og hvort viðkomandi sé heiðarleg og hæf manneskja og hvort hægt sé að reiða sig á hana.
• Hvernig má treysta stofnunum/fyrirtækjum? Hægt er að mæla traust meðal annars út frá því hvort allir fái sams konar afgreiðslu. Er þeim reglum fylgt? Er viðmótið vinsamlegt? Eru upplýsingar aðgengilegar og er samræmi milli stefnu og aðgerða? Treystum við til dæmis leikskóla til að sinna þörfum barna vel? Treystum við ekki kennurum almennt til að kenna? Treystum við pólitískum stofnunum til að fylgja eftir stefnum sínum og loforðum?
• Hvernig má treysta fjölmiðlum? Áður en traust til fjölmiðils byggist upp, má gjarnan spyrja: Hver er eigandi fjölmiðilsins? Hverjir ritstýra, hverjir skrifa efnið? Í hvaða upplýsingaveitur er sótt? Er fjölmiðillinn háður hagsmunahópi, banka eða auðmanni? Hvaða aðferð er notuð til að segja fréttir? Er áherslan á átök og ofbeldi eða á málefni og lausnir, leiðtoga eða borgara? Er sanngirni leiðarljós og fjölbreytileiki meðal gilda? Er verið að leita sannleikans eða smelli vikunnar til að selja auglýsingar?
Við reiðum okkur á margt í lífinu, við reiðum okkur á lögmál náttúrunnar og við reiðum okkur á valda þætti í efnahagslífinu en við búumst ávallt við frávikum. Sá sem treystir tekur óhjákvæmilega áhættu því í mannlífinu getur alltaf einhver brugðist, oftast óvart en stundum vísvitandi með svikum.
Áreiðanleiki og undantekningar
Áreiðanleiki er lykilorð hvað traust varðar. Spyrja má: Er áreiðanlegt að almennar reglur gildi fyrir alla? Er áreiðanlegt að mannúðarsjónarmið gildi alltaf? Eru mælikvarðar mannúðar til staðar?
Við viljum til að mynda geta treyst því að Útlendingastofnun sinni verkefnum sínum en við viljum ekki nauðsynlega að strangasta túlkunin sé ávallt valin til að senda allslausa burtu í stað þess að veita þeim skjól. Sérmeðferð af mannúðarástæðum má ekki vera útilokuð ef hún getur bjargað mannslífum og skapað hamingju.
Þannig getur verið að jafnvel þótt við þráum áreiðanleika og fullkomið traust og jafnræði að þá viljum við samt geta gert nauðsynlegar undantekningar. Traust er því ekki aðeins háð reglum og verkferlum heldur einnig viðhorfum og væntingum.
Blekking er andstæðan við traust
Hvernig á sá sem temur sér að treysta, veitir öðrum virðingu og stendur við skyldur sínar: að koma fram við lygara? Væri ekki ráð að ljúga og blekkja líkt og svikarinn? Svarið er afdráttarlaus neitun vegna þess að langtímaverkefnið í samfélaginu er að segja skilið við lygar og blekkingar. Hvers vegna? Blekking þurrkar út það traust sem er til staðar og eyðileggur samfélagssáttmála.
„Einstaklingar og hópar sem eru með falska ásýnd og falda fyrirætlan eru iðulega hættulegir samfélaginu.“
Svik og prettir eru sennilega andstæðan við traust og helsti óvinur þess. Vísvitandi lygar og ósanngjarnar ásakanir hafa það að markmiði að grafa undan, skaða og skemma fyrirætlanir annarra. Einstaklingar og hópar sem eru með falska ásýnd og falda fyrirætlan eru iðulega hættulegir samfélaginu. Þeir ala á sundrungu og reyna að telja fólki trú um að aðrir séu falskir en ekki þeir sjálfir.
Blekking getur því aldrei verið nothæf ef traust er markmið. „Prettur er aldrei réttur og oft leyna sæt orð svikum,“ segja málshættirnir. Á því andartaki sem til dæmis stjórnmálamaður, fjölmiðlamaður eða embættismaður felur upplýsingar eða raðar þeim vísvitandi rangt saman hefur ásetningur um blekkingu komið fram og áreiðanleiki hans brestur um leið og afhjúpun á sér stað. Traustið verður þá seint endurheimt.
Hvernig er traust á fjölmiðlum?
Hvernig má treysta fjölmiðlum? Spurt er um hversu mikið eða lítið traust fólk ber til fjölmiðla í könnunum og eru niðurstöðurnar sjaldnast eitthvað sem fjölmiðlafólk getur hrópað húrra yfir. Kannski er þessi spurning hvorki sanngjörn eða rétt.
Fjölmiðlar gera þýðingarmikið efni aðgengilegt en hafa ekki alltaf þolinmæði til að gera það skiljanlegt. Við viljum að fjölmiðlum sé frjálst að leita sannleikans og að rannsaka réttmæti ríkjandi viðhorfa.
Fjölmiðlun skal vera áreiðanleg, annars er lítið gagn af henni. Prósentutala um traust á fjölmiðli segir ekki mikið, sölutölur eða vinsældir segja ekki nóg heldur. Samfélagsverkefni fjölmiðla og hugsjónin felst í því að vinna í samræmi við þekktar staðreyndir og meginreglur um hæfni og heiðarleika og miðla því.
Aðalatriðið fyrir notendur fjölmiðla er að kunna að gera greinarmun á áreiðanlegum fréttum og óáreiðanlegum. Notandinn þarf með öðrum orðum að búa sjálfur yfir aðferðum til að meta áreiðanleika frétta og réttmæti ályktana.
Trúverðugleiki
Verkefnið er að læra að treysta sjálfum sér og öðrum – að treysta og að vera treyst – en vita að það er alltaf hætta á að einhver og eitthvað bregðist.
Sá sem engum treystir nema sjálfum sér einangrast. Sá sem öllum treystir verður leiksoppur annarra. „Öngum að trúa ekki er gott, öllum hálfu verra“, segir málshátturinn. Traust er göfugt og gott en það er jafnframt áhætta. Enginn ætti að treysta öðrum manni fyrir öllum fjöreggjum sínum.
Fólk sem hefur hæfni til tiltekinna verka, vilja til að standa sig vel og heilindi til að gera rétt er líklegt til að vera treyst fyrir verkefnum. Traust felst í trú á að einhver geti gert það sem hann lofar að gera og að hann muni gera það án þess að svindla.
Átök og skylda
Eitt einkenni átaka í samfélaginu er: að á sama tíma og tilraunir eru gerðar til að byggja upp traust þá reyna aðrir að ala á tortryggni og grafa undan trausti. Það er átakanleg aðferð að byggja upp traust á sjálfum sér með því að grafa undan öðrum. Þá skortir heilindi og samkennd. Það er gagnslaust að berjast um traust við aðra – það er í andstöðu við inntakið sem snýst um að vera treyst til góðra verka.
En það er gott að geta komið auga á það með gagnrýnni hugsun og það er gefandi að geta hafnað þessari niðurdrepandi átakamenningu.
Stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar virðast endrum og eins falla í þá gryfju að berjast um traust fólks. En ástæður borgaranna fyrir vali sínu í hvert skipti eru þó ekki alltaf byggðar á trausti. Ástæðurnar eru af ýmsum toga, en það er alltaf skylda að standa vörð um verðmæti almennings og setja hvert mál í rétt samhengi, upplýsa, afhjúpa, framfylgja og hvaðeina sem lofað hefur verið.
Borgarinn vonast til að geta treyst því.
Athugasemdir