Eini talmeinafræðingur landsins sem veitir börnum af pólskum uppruna talþjálfun á eigin móðurmáli fær ekki starfsréttindi á Íslandi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Justyna Gotthardt er skólastjóri Pólska skólans, en velferðarráðuneytið hefur staðfest synjun Landlæknis á veitingu starfsleyfis. Hún hefur nú kært ákvörðunina til umboðsmanns Alþingis, en hún hefur sérstakt leyfi frá pólskum stjórnvöldum til að veita þjónustuna.
„Það ætti í rauninni allt að vinna með mér,“ segir Justyna. Ég hef bæði rétta menntun, mikla starfsreynslu í Póllandi og öll leyfi og réttindi frá pólskum yfirvöldum, Þar að auki er mjög mikil þörf fyrir þessa þjónustu hér á Íslandi.“
Justyna segir talþjálfun á móðurmálinu mjög mikilvæga og sé undistaða fyrir að börn geti lært annað tungumál, íslensku. „Ég hef fengið börn til mín sem eru í rauninni alls ekki talandi vegna þess að þau hafa ekki fengið viðeigandi aðstoð á pólsku en því betur sem börnunum gengur með sitt eigið móðurmál, því betur mun þeim ganga að læra íslenskuna,“ segir hún.
Segist Justyna reið yfir áhugaleysi stjórnvalda á börnum af pólskum uppruna. „Það er ekki bara ég í þessum vandræðum heldur skilst mér að aðrar starfstéttir hafi líka lent í vandræðum með að fá starfsréttindi sín viðurkennd hér,“ segir Justyna. Nefnir hún námsráðgjafa, sálfræðinga og sjúkraþjálfara til dæmis.
Í Fréttablaðinu kemur fram að lagafrumvarp sé í undirbúningi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um viðurkenningu á menntun og hæfi til að starfa hér á landi. Lilja Alfreðsdóttir ráðherra segir að staða Justynu ætti að breytast verði frumvarpið að lögum.
Athugasemdir