Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, var með rúmlega 1,9 milljónir króna í mánaðarlaun árið 2016. Það gerir hann að hæst launaðasta verkalýðsleiðtogi landsins. Til samanburðar var Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi formaður Alþýðusambands Íslands, með tæplega 1,4 milljónir króna í mánaðarlaun sama ár. Félagsmenn Alþýðusambandsins eru um 133 þúsund en félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands eru um 600 talsins. Jónas hefur ekki svarað fyrirspurn Stundarinnar þess efnis hvort tekjur hans komi alfarið frá Sjómannafélagi Íslands.
Bergur Þorkelsson gjaldkeri Sjómannafélagsins var með ríflega 1,2 milljónir króna í tekjur á mánuði árið 2016. Árstekjur þeirra Jónasar og Bergs voru því rúmlega 38 milljónir króna árið 2016, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra sem nálgast má á vefsíðunni tekjur.is. Þrír starfa á skrifstofu félagsins, Jónas, Bergur og ritari.
Miklar deilur hafa staðið um Sjómannafélag Íslands að undanförnu eftir að Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingu var rekin úr félaginu á dögunum. Var Heiðveig sögð hafa skaðað hagsmuni félagsins með gagnrýni sinni á það og var henni vikið úr félaginu af trúnaðarmannaráði þess, af þeim sökum.
Ítarlega er fjallað um Sjómannafélag Íslands, deilurnar þar og formanninn Jónas Garðarsson í nýju tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.
Athugasemdir