Framkvæmdastjóri mjólkurframleiðslunnar Örnu segist hafa hlegið að frétt Stöðvar 2 á laugardag um atburð í anddyri Alþingis þar sem fulltrúar MS og afmælisnefndar fullveldis Íslands afhentu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra nýjar mjólkurfernur fyrirtækisins. Afmælisnefndin þvertekur fyrir að um auglýsingu hafi verið að ræða.
„Mér fannst þetta bara fyndið eins og líklega mörgum öðrum,“ segir Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu í Bolungarvík. „Að þetta skyldi vera flokkað sem frétt og merkilegur atburður á Stöð 2. Þetta var bara kynning á mjólkurvörum MS, það geta allir séð það sem vilja.“
„Ég er ekki viss um að Coca Cola hefði getað gert þetta, þó þeir hefðu sett fullveldistexta á kókdós.“
Arna selur laktósafríar mjólkurvörur og er einn af fáum aðilum sem hafa farið í samkeppni við MS, langstærsta aðilann í framleiðslu á mjólkurafurðum. MS er 90,1% í eigu Auðhumlu, samvinnufélags kúabænda, og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á 9,9% hlut. Fyrirtækið var dæmt til að greiða tæpan hálfan milljarð króna í sekt vegna samkeppnisbrota í héraðsdómi Reykjavíkur í maí.
„Þeir virðast eiga greiðan aðgang að opinberum aðilum,“ segir Hálfdán. „Ég er ekki viss um að Coca Cola hefði getað gert þetta, þó þeir hefðu sett fullveldistexta á kókdós.“
Athöfnin að frumkvæði nefndarinnar
Í samtali við Stundina segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisnefndar fullveldis Íslands, að athöfnin hafi verið að frumkvæði nefndarinnar og ekki í markaðsskyni fyrir MS. Í frétt Stöðvar 2 heimsótti Ragnheiður mjólkurbú MS á Selfossi, skálaði í mjólk og kynnti nýju fernurnar fyrir fréttamanni.
„Mjólkursamsalan ákvað í samráði við afmælisnefnd að setja fræðslu og fróðleik um fullveldisárið 1918 á mjólkurfernur nú fyrir jólin,“ segir í tilkynningu frá Ragnheiði og Einari K. Guðfinnssyni, formanni nefndarinnar og fyrrverandi þingmanni. „Afmælisnefnd óskaði eftir því við forsætisráðherra að þiggja fyrstu fernurnar með fræðslutextum um fullveldið. Í samráði við yfirstjórn Alþingis var ákveðið að afhendingin færi fram í anddyri Alþingishússins. Þess var gætt að hvergi kæmi fram kynningarefni frá fyrirtækinu og áhersla lögð á texta og myndefni sem tengjast fullveldisárinu. Fræðslutextar á fernunum eru unnir af Bryndísi Sverrisdóttur fyrir afmælisnefndina.“
Athugasemdir