Píratar högnuðust um 16 milljónir króna á árinu 2017 og eigið fé þeirra stóð í 46 milljónum í árslok. Aðeins fjórir lögaðilar styrktu flokkinn um samtals 560 þúsund, en útgerðarfélagið HB Grandi greiddi hæsta mögulega styrk, 400 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í ársreikningi Pírata vegna 2017 sem Ríkisendurskoðun birti í dag. Fram kemur að tekjur flokksins í fyrra hafi numið 77 milljónum króna. Megnið af þeirri upphæð voru ríkisframlög, eða tæpar 67 milljónir, en félagsmenn flokksins styrktu hann um 8,4 milljónir. Enginn einstaklingur styrkti flokkinn um meira en 200 þúsund krónur og er því enginn nefndur á nafn í reikningnum.
Rekstur flokksins kostaði rúma 61 milljón króna í fyrra og hagnaðist því flokkurinn um tæpar 16 milljónir króna á árinu. Árið áður hafði hagnaðurinn numið 7 milljónum. Eigið fé flokksins var 46 milljónir króna í árslok og skuldir aðeins um eina milljón króna. Þá kemur fram í ársreikningnum að sala á Píratavarningi hafi skapað 60 þúsund krónur í tekjur á árinu.
Athugasemdir