Meira en 50 þúsund Íslendingar eru nauðugir viljugir á leigumarkaði ef tekið er mið af nýlegri skoðanakönnun sem leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs lét framkvæma og náði til handahófskennds úrtaks leigjenda af landinu öllu. Aðspurðir sögðust einungis 8 prósena leigjenda vilja vera á leigumarkaði og langflestir, eða 86 prósent leigjenda, frekar vilja búa í eigin húsnæði.
Að því er fram kemur í skýrslu Íbúðalánasjóðs um viðhorfskönnunina og stöðuna á íslenskum leigumarkaði eru 30 þúsund heimili á leigumarkaði og á bilinu 16 til 18 prósent landsmanna yfir 18 ára aldri, þ.e. í kringum 60 þúsund manns.
Rúmlega 20 prósent leigjenda telja frekar eða mjög líklegt að þau missi húsnæðið sitt. Þá sér tæplega helmingur leigjenda fáa eða enga kosti við að leigja og nefna flestir hátt leiguverð sem helsta gallann.
Nær allir, eða 92 prósent, telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi. Eins og Íbúðalánasjóður bendir á í skýrslu sinni hefur leiguverð hækkað um 90 prósent frá 2011 meðan laun hafa hækkað um 74 prósent og íbúðaverð tvöfaldast.
Athugasemdir