Fjármálaráðuneytið dró upp villandi mynd af fjárhagsmálefnum Íslandspósts í tilkynningu sem birtist á vef stjórnarráðsins þann 14. september síðastliðinn.
Í tilkynningunni er lausafjárvandi fyrirtækisins rakinn til þess að tekjur af bréfasendingum vegna alþjónustu hafi dregist saman. Raunin er hins vegar sú að bréfasendingar innan einkaréttar hafa skilað Íslandspósti viðvarandi hagnaði undanfarin ár auk þess sem Póst- og fjarskiptastofnun staðfesti fyrr á árinu að rekstrarvandi Íslandspósts væri ekki tilkominn vegna alþjónustuskyldna.
Tekjur af einkaréttarþjónustu póstsins jukust úr 2,8 milljörðum í 3,2 milljarða milli áranna 2015 og 2016 og námu 3,3 milljörðum í fyrra um leið og rekstrargjöld stóðu nokkurn veginn í stað.
Eins og Stundin fjallaði um í gær virðist Íslandspóstur hafa oftekið gjöld innan einkaréttarins upp á hundruð milljóna undanfarin tvö ár. Póst- og fjarskiptastofnun hefur áður gefið þau svör að sá viðsnúningur frá rekstrarárinu 2015 stafi meðal annars af tekjuaukningu umfram áætlun og hagræðingaraðgerðum.
Tilkynning fjármálaráðuneytisins birtist um miðjan september eftir að Stundin hafði greint frá því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætlaði að veita Íslandspósti lán upp á 500 milljónir króna.
Aðstoðarmaður Bjarna, Svanhildur Hólm Valsdóttir, er varaformaður stjórnar Íslandspósts og hefur setið í stjórninni frá því í mars 2014. Stjórninni ber, samkvæmt samþykktum Íslandspósts, að hafa stöðugt og ítarlegt eftirlit með öllum rekstri félagsins og setja gjaldskrá í samræmi við ákvæði laga um póstþjónustu. Stjórnarformaður Íslandspósts er Bjarni Jónsson, fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna, og forstjóri er Ingimundur Sigurpálsson, fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar sem einnig er stjórnarformaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Isavia.
„Neikvæð áhrif á efnahag og lausafjárstöðu“
„Tekjur af bréfasendingum vegna alþjónustu hafa dregist saman á sama tíma og dreifikerfið hefur stækkað með fjölgun íbúða og fyrirtækja, en auknar tekjur af pakkasendingum hafa ekki dugað til að vega upp á móti samdrætti í bréfasendingum,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins. „Þessi þróun hefur haft neikvæð áhrif á efnahag og lausafjárstöðu félagsins.“
Fullyrðingarnar ganga t.d. í berhögg við upplýsingar sem koma fram í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá 23. janúar síðastliðnum um fækkun dreifingardaga á pósti. Þar tekur stofnunin fram að Íslandspóstur hafi fengið magnminnkun innan einkaréttar að fullu bætta í gegnum gjaldskrárbreytingar undanfarin ár. Rekstrarafkoma einkaréttarins hafi verið „vel viðunandi“ og einkaréttinum sé ætlað að standa undir alþjónustuskyldunum sem hvíla á fyrirtækinu. „Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum.“
Þá vekur athygli að í tilkynningu fjármálaráðuneytisins vegna lánveitingarinnar til Íslandspósts er einungis sagt frá þróun tekna án þess að samhliða sé gerð grein fyrir þróun gjalda. Í þessu tilviki hefur einmitt mismunur tekna og gjalda falið í sér verulegan hagnað undanfarin ár. Eru þannig upplýsingarnar misvísandi.
Lög gera ráð fyrir að gjaldskrár-
breytingar fyrirbyggi tap af alþjónustu
Samkvæmt 16. gr. laga um póstþjónustu eiga gjaldskrár fyrir alþjónustu Íslandspósts að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Ef rétt væri að alþjónusta Íslandspósts væri að valda fyrirtækinu rekstrarvanda þá væri það til marks um að þróun gjaldskrár hefði ekki samræmst þessu lagaákvæði. Raunin er hins vegar sú að gjaldskrá fyrir bréfapóst í einkarétti hefur hækkað umtalsvert undanfarin ár, langt umfram þróun vísitölu neysluverðs.
Þegar Íslandspóstur skilaði Póst- og fjarskiptastofnun sundurliðuðum bóhalds- og fjármálaupplýsingum vegna rekstraráranna 2013, 2014 og 2015 staðfesti stofnunin að verðgrundvöllur einkaréttar væri í samræmi við 16. gr. laga um póstþjónustu. Í yfirliti Póst- og fjarskiptastofnunar vegna bókhaldslegs aðskilnaðar Íslandspósts árið 2016 var hins vegar brugðið frá venjunni og ekki vikið einu orði að því hvort verðgrundvöllur einkaréttarins og gjaldskrá Íslandspósts samræmist umræddu lagaákvæði. Það var þó ekki vegna slakrar afkomu, heldur vegna hundruða milljóna hagnaðar – og vart þarf að taka fram að mikill og viðvarandi hagnaður getur seint haft neikvæð áhrif á efnahag og lausafjárstöðu fyrirtækis, slík áhrif má yfirleitt rekja til tapreksturs.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur fjármálaráðuneytinu þegar verið bent á að sú mynd sem dregin er upp í tilkynningunni stangist á við fyrirliggjandi upplýsingar um bókhald og rekstur Íslandspósts. Tilkynningin hefur engu að síður verið látin standa óbreytt.
Athugasemdir