Félag atvinnurekenda hefur kvartað til eftirlitsnefndar um framkvæmd sáttar Íslandspóst við Samkeppniseftirlitið í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar um ePóst, dótturfélag Íslandspósts.
Stundin greindi frá því 25. september síðastliðinn að ePóstur ehf. reiddi sig enn á vaxtalaust lán frá móðurfélaginu samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2017, þrátt fyrir að Íslandspóstur hafi skuldbundið sig með sátt við Samkeppniseftirlitið til að hverfa frá slíkum viðskiptaháttum.
Fram kom í frétt Stundarinnar að skuld ePósts við móðurfélagið næmi 284 milljónum samkvæmt ársreikningi en vaxtagjöld ePósts væru aðeins 5.547 krónur, augljóslega langt undir markaðskjörum þrátt fyrir að Íslandspóstur hefði skuldbundið sig samkvæmt sáttinni við Samkeppniseftirlitið til að tryggja að ábyrgð ríkisfyrirtækisins gagnvart dótturfélögum takmarkaðist við eiginfjárframlag og að stofnfjármögnun dótturfélaga væri á kjörum sem eru ekki undir markaðskjörum sem sambærileg fyrirtæki njóta.
„Í tilviki ePósts er um að ræða skýrt og skjalfest brot á sáttinni, sem samkeppnisyfirvöld hljóta að taka hart á,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í tilkynningu sem birtist á vef félagsins í gær. Hefur Félag atvinnurekenda farið fram á að málið verði skoðað auk þess sem rýnt verði í lán Íslandspósts til annarra dótturfélaga og metið hvort um sé að ræða brot á sáttinni.
Félag atvinnurekenda bendir á að ekki aðeins séu vaxtagjöld ePósts „í hrópandi ósamræmi við þá vexti sem sambærileg fyrirtæki greiða á lánsfjármarkaði“ heldur megi einnig draga í efa að rétt lánsfjárhæð sé færð í ársreikning ePósts. „Á bls. 65 í sáttinni segir að LRAIC-kostnaðarlíkanið innifeli sértækan fastan kostnað sem fallið hafi til við starfrækslu viðkomandi samkeppnisþáttar, þótt hann hafi fallið til í fortíðinni,“ segir í bréfinu, sem Guðný Hjaltadóttir lögfræðingur ritar fyrir hönd samtakanna. „Að réttu ætti því að reikna vexti vegna ársins 2017 af mun hærri fjárhæð en 283 milljónum, þar sem bæta hefði átt uppsöfnuðum vöxtum við höfuðstólinn.“
Stundin sendi Íslandspósti fyrirspurn um málið þann 24. september og óskaði eftir svörum frá Ingimundi Sigurpálssyni forstjóra. Engin svör hafa borist.
Athugasemdir