Hvað ef ég hefði sagt ykkur að á tíu ára afmæli hrunsins myndum við ræða skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um orsakir hrunsins? Og að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu í skýrslunni, sem greitt var fyrir með skattfé okkar, að staðföst leiðtogahæfni Davíðs Oddssonar hefði skipt sköpum um að ekki fór verr í hruninu?
Að Davíð myndi verða ritstjóri Morgunblaðsins, og að hann myndi birta grein í blaðinu um hversu ómakleg gagnrýni væri á skýrslu Hannesar (frá „vinstri mönnum“, sem eru í reynd bara óháðir fræðimenn við háskólann).
Að koma myndi fram að Bjarni Benediktsson og fjölskylda hans hefði staðið í stórfelldum verðbréfaviðskiptum með bréf tengd Glitni í aðdraganda hrunsins, á sama tíma og eftir að hann fundaði um alvarlegan vanda bankanna með bankastjóra Glitnis fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sem þingmaður? Að hann hefði selt bréf sama dag og Glitnir var yfirtekinn af ríkinu?
Að hann yrði í kjölfarið fjármálaráðherra?
Að lagt hefði verið bann við umfjöllun um þessi mál, sem væri í gildi ári síðar eftir að það hefði verið dæmt ólöglegt?
Að þrátt fyrir stöðugar umkvartanir um að lög um Landsdóm og ráðherraábyrgð væru ósanngjörn vegna þess að Geir var dæmdur, hefðu engin ný lög verið sett um ráðherraábyrgð?
Að Alþingi væri á afmæli hrunsins að ræða um hvernig væri hægt að biðja Geir Haarde afsökunar á því að hann var dæmdur?
Að í sjónvarpsviðtali við Geir hefði fréttamaður gert lítið úr alvarleika dómsins yfir honum, og haldið því fram að hann hefði verið dæmdur fyrir að „halda ekki fundargerðir“, og að hann segði sjálfur ranglega að hann hefði verið „hreinsaður“ í dómi Landsdóms, sem dæmdi hann sekan með þeim afleiðingum að hann sagði dóminn „fáránlegan og sprenghlægilegan“?
Að Geir hefði á hrunafmælinu verið skipaður af ráðherra Sjálfstæðisflokksins fulltrúi Norðurlandanna fyrir hönd Íslands í stjórn Alþjóðabankans?
Að niðurstaða margra helstu álitsgjafa og stjórnmálamanna sé að „umræðuhefð“ Íslendinga sé helsta vandamálið, hvernig sumir tjá sig í kommentakerfum?
Að Íslendingar væru í nýju góðæri að brjóta skipulega gegn varnarlausum hópi í helsta góðærisgeiranum, þar sem væri meðvitað viðhaft eftirlitsleysi og refsileysi af hálfu yfirvalda gagnvart brotamönnunum?
Að ráðherra málaflokksins væri sjálfur nátengdur broti á sviði hans sjálfs?
--
Við teljum okkur gjarnan trú um að við sem heild lærum af sögunni. En sagt er að sagan sé skrifuð af sigurvegurunum og lærdómurinn þannig mótaður af þeim. Hvað ef þau sem stóðu uppi sem sigurvegarar gerðu það með vafasömum hætti, með hætti sem brýtur gegn almannahagsmunum? Hver verður þá lærdómurinn?
Sigur Geirs Haarde
Í síðustu viku var birt ítarleg uppgjörsumfjöllun á RÚV um efnahagshrunið. Niðurstaðan, í einfaldaðri mynd, var að Hallgrímur Helgason rithöfundur hefði gengið of langt þegar hann trommaði á bíl Geirs Haarde forsætisráðherra í mótmælum og sagði honum að segja af sér, á sama tíma og Geir vildi vinnufrið eftir að hafa sýnt af sér það sem fjölskipaður, óháður dómstóll úrskurðaði síðar „stórfellt gáleysi“ og „athafnaleysi“ frammi fyrir ógn við þjóðina. Hallgrímur ætti að „skammast sín“, telur Geir í dag.
Spurningin á dagskránni núna er hvort Alþingi, Hallgrímur og öll hin eigi að biðja Geir afsökunar?
Eins og Stundin greinir frá hefur Geir hins vegar undanfarið fært fram beinlínis rangar lýsingar á niðurstöðu dómsmáls gegn honum, þar sem hann var harðlega ávíttur í niðurstöðu óháðs, fjölskipaðs dómstóls, lögum samkvæmt.
Innherjarnir sem forðuðu sér
Mánuðina fyrir hrunið höfðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar ferðast með bankamönnum til Evrópu til að reyna að veita þeim ásýnd heilbrigðis, með vottorði okkar samfélags. En á bak við tjöldin misstu erlend yfirvöld trú á íslenska kerfinu, vegna þess að ekki stóðst það sem sagt var. Niðurstaða óháðrar úttektar og dómstóla er að starfshættir Geirs sem forsætisráðherra hefðu skipt þar miklu.
„Það er ekkert sérstakt sem þar gekk á“
„Það er ekkert sérstakt sem þar gekk á,“ sagði Geir 30. september. „Ég nota gjarnan tækifærið og spjalla við Björgólf Thor þegar hann er á landinu.“
Þegar Geir sagði síðan „Guð blessi Ísland“, og fyrsti snjór vetrarins féll í efri byggðum Reykjavíkur, fannst mörgum sem það væri staðfest að hann hefði lengi blekkt fólk. En vandamálið er að hann er enn að afvegaleiða okkur.
Hinn 6. október 2008 var stund sannleikans loksins runnin upp. Geir H. Haarde sat með skjaldarmerkið að baki og viðurkenndi loksins, það sem hagfræðingurinn Gylfi Magnússon hafði tekið að sér að segja í fréttatíma Ríkisútvarpsins nokkrum dögum fyrr, að fjármálakerfið væri komið í þrot og gjaldmiðillinn okkar á gjörgæslu.
Ástæðuna fyrir því að Gylfi Magnússon ákvað að segja frá þessu, sem þau sem báru ábyrgð á málunum héldu svo staðfastlega leyndu, útskýrði hann í hrunþættinum á RÚV: „Helsta skýringin var sú að ég horfði upp á að sumir greinilega áttuðu sig á þessu, en ekki aðrir. Og það er eiginlega ekki hægt að reka fjármálakerfi og kauphöll og hafa allt opið þegar aðstaðan er svona mismunandi, að sumir innherjar vissu hvað þeir væru að gera og sáu það fyrir, og gátu hugsanlega reynt að eiga einhver viðskipti, sem að nýttu þá þekkingu, en aðrir ekki.“
„Glæpur án fórnarlambs“
Það var í kringum þessa daga sem Bjarni Benediktsson og ættingjar hans seldu verðbréf tengd Glitni í unnvörpum, fyrir milljarða króna. Nokkrum dögum áður hafði föður Bjarna til dæmis hugkvæmst að gera 400 milljóna króna „Úttekt úr safni – millif[ært] til Flórída,“ 28. september, og svo aðra 100 milljóna króna sölu 1. október, úr sjóði 9, sem var mikið til umræðu í innsta hring, meðal annars hjá þingmanninum syni hans. Þegar neyðarlögin voru sett var Bjarni Benediktsson, þá þingmaður með aðgengi að margvíslegum innherjaupplýsingum, að selja síðustu bréfin sín í Glitni. Ástæðuna fyrir því að ekki er ólöglegt að nefna þessa staðreynd, er að Glitnir Holdco, þrotabú Glitnis banka, fór ekki fram á lögbann hjá Sýslumanninum í Reykjavík fyrr en eftir að Stundin var búin að segja fréttina. Nú er til dæmis bannað að segja hér nánar frá viðskiptum innherjanna, jafnvel þótt dómstólar meti bannið ólöglegt.
Tíu árum eftir viðskipti sín hafði Bjarni, standandi uppi sem sigurvegari í stöðu fjármálaráðherra landsins, og með aðgengi að sameiginlegum fjármunum okkar, notað 10 milljónir af skattfé til að panta skýrslu frá yfirlýstum stuðningsmanni sínum og flokks síns, þar sem meðal annars kom fram að „ekkert [sé] nauðsynlega rangt við innherjaviðskipti eða að þau ættu endilega að vera ólögleg“ og að þau séu „glæpur án fórnarlambs“.
Frjálshyggjumaður snýst
Algerlega óháð persónu hans var Hannes Hólmsteinn Gissurarson ekki að verki sem hlutlaus fræðimaður, heldur var hann í vinnu við að breyta Íslandi í „ríkasta land í heimi“, eftir stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði að miklu leyti. Hannes var eins konar frjálshyggju-aktívisti, á launum frá ríkinu sem var undir stjórn flokksins hans. Hluti af þeirri vinnu var að skrifa bréf til bandaríska hagfræðingsins James M. Buchanan og biðja hann um að koma til Íslands til að þrýsta á breytingar á íslensku samfélagi. „Þú yrðir ómetanlegur bandamaður í að sannfæra stjórnmálamenn og almenning hér á landi um ágæti skattalækkana,“ skrifaði Hannes. „Reyndar tel ég að Ísland geti orðið skattaskjól,“ sagði hann, og tók fram að skattaskjólið ætti þó ekki að vera fyrir svarta peninga, en að við ættum að skapa okkur sérstöðu í Evrópu.
„Reyndar tel ég að Ísland geti orðið skattaskjól“
Skattalækkanir og takmarkalítið athafnafrelsi fyrirtækja eru kjarninn í nýfrjálshyggjunni. Á tíu ára afmæli hrunsins skilaði Hannes hins vegar skýrslu með annarri niðurstöðu, að ábyrgðin á efnahagshruninu hefði í raun verið ríkisvalds sem bjargaði ekki einkafyrirtækjum. En ekki íslenska ríkisvaldsins, sem var á ábyrgð og undir forystu samflokksmanna og svo „mjög nánum vini“ Hannesar, eins og hann lýsti honum í bréfi til Buchanans, heldur erlent ríkisvald.
Sagan af ábyrgðinni
Til að skilja söguna þarf að fylgja eftir aðalpersónunni, ábyrgðinni.
Nýfrjálshyggjan sendir ábyrgðina á hinn frjálsa markað, og þegar Geir leitaði til Guðs undan storminum, og bað okkur að „láta ekki örvæntingu ná yfirhöndinni“, fauk ábyrgðin út í veður og vind. Síðan hefur verið reynt að finna henni stað.
Fjölmargir bankamenn hafa verið dæmdir fyrir lögbrot, til dæmis fyrir að blekkja markaðinn með því að lána fyrir hlutabréfakaupum í sjálfum sér og falsa þannig eigið fé og gengi hlutabréfanna. Sumir segja að það hefði ekki átt að sækja þá til saka. Útgefandi Fréttablaðsins, mest lesna blaðsins á landinu, líkti þessu við Geirfinnsmálið áður en hún var ráðin af hagsmunaaðilum hrunsins sem ritstjóri. Forsætisráðherra var dæmdur fyrir að brjóta stjórnarskrá og sýna „stórfellt gáleysi“ þegar hann ákvað að taka vanda bankanna ekki formlega til meðferðar hjá æðsta yfirvaldi framkvæmdarvaldsins.
Þjóðin reyndi að taka ábyrgðina sjálf með því að velja leikreglur samfélagsins í lýðræðislegu ferli, en ábyrgðin var tekin af henni með valdi.
Alls staðar þar sem ábyrgðin hefur reynt að finna sér stað hefur henni verið bolað burt.
En ábyrgðin verður að finna stað. Lög og óformleg viðmið eru rammarnir sem við styðjumst við. Fólk í ábyrgðarstöðu grefur hins vegar oft undan þessum ramma í eiginhagsmunaskyni. Það er þar sem skiptir máli að við öll fylgjumst með. Til að tryggja að samfélagið þróist í heilbrigða átt fyrir okkur öll er nauðsynlegt að við tryggjum að sögunni verði ekki rænt og ábyrgðin látin hverfa.
Athugasemdir