Samningur um sextán ára bann á veiðum innan Norður-Íshafins var samþykktur miðvikudaginn 3. október. Níu þjóðir, ásamt fulltrúum Evrópusambandsins, undirrituðu samþykktina á Grænlandi, þar á meðal Ísland. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Jóhann Sigurjónsson, sérlegur erindreki málefna hafsins í utanríkisráðuneytinu leiddi samningaviðræðurnar af hálfu Íslands. „Óhætt er að tala hér um tímamótasamning“ segir Jóhann í skriflegu svari til Stundarinnar, en svæðið sem um ræðir er 2,8 milljón ferkílómetrar.
„Ég held, líkt og oftast er um góða samninga, að hér hafi tekist að sætta tvö meginsjónarmiðin, langtímasjónarmið um nýtingu annars vegar og vernd hins vegar.“
Jóhann vísar hér til annars af höfuðákvæðum samningsins, að þjóðirnar skuldbinda sig til þess að koma í gang vísindalegum rannsóknum og eftirliti á svæðinu til að meta hvort eða hvernig hægt er að hefja sjálfbærar fiskveiðar. „Í öllum megin atriðum tókst okkur að halda til streitu stefnu Íslands um ábyrga, sjálfbæra nýtingu fiskistofnanna á grundvelli þekkingar og nauðsynlegrar varúðar.“
„Það er alls óvíst hvernig aðstæður þróast og hvort komi til stórtækra fiskveiða í atvinnuskyni á þessum slóðum í náinni framtíð.“ Jóhann segir, að þar spili margir þættir inn í eins og hafstraumar, mikið dýpi og ferskvatnsáhrif í sjónum vegna bráðnunar íss. Ís á svæðinu hefur hopað mikið en íslaus svæði hafa nú þegar náð þeim spám sem vísindamenn töldu að yrðu að veruleika árið 2030.
„Það er sannarlega mikilvægt fyrir Ísland að taka nú fullan þátt í samstarfi þjóða og samningum, sem munu hafa áhrif á þróun mála og koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar í Norður Íshafi ef ísinn hopar enn frekar og möguleikar til arðbærra fiskveiða skapast.“
Athugasemdir