Greiðslur sjúkra- og dagpeninga hafa aukist verulega hjá verkalýðsfélögunum VR og Eflingu það sem af er ári. Hækkunin hjá VR nemur 43% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að iðgjöld í sjúkrasjóð hafi numið 1,8 milljörðum króna í fyrra og verði hærri í ár. Útgreiðsluhlutfallið sé hins vegar komið í 80% og ef fram fer sem horfir muni að lokum þurfa að grípa til skerðinga.
„Við viljum vita af hverju fólkið okkar er að gefast upp,“ segir Ragnar. „Hvað er það í okkar samfélagi sem veldur því að við erum að missa fólk í þetta miklum mæli í veikindi, í streitutengda sjúkdóma, og út af vinnumarkaði?“
Síðbúin áhrif frá hruninu
Dagpeningagreiðslur Eflingar til félagsmanna hafa aukist um 39% milli ára, en hækkunin skýrist að hluta af hærri launum og fjölgun félagsmanna. „Þó er ljóst að veikum hefur fjölgað, þeir voru lengur veikir og fengu hærri upphæðir,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, sviðsstjóri sjúkrasjóðs hjá Eflingu, við Morgunblaðið.
Ragnar segir að nú sé starfandi rannsóknarhópur á vegum VIRK þar sem ástandið sé greint. Hann nefnir að mögulega sé um að ræða síðbúin áhrif frá bankahruninu. „Það eina sem við vitum er að þessi þróun getur ekki haldið áfram endalaust,“ segir Ragnar. „Samfélagið þarf að stíga inn í og spyrja spurninga. Annars mun þetta leggjast af þunga á almannatryggingakerfið.“
Athugasemdir