„Rándýrar íbúðir eru að rísa í miðborg Reykjavíkur þar sem gratín og marmari leika aðalhlutverk.“ Þannig kemst Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, að orði í bókun sem hún lagði fram á borgarstjórnarfundi í gær. Gagnrýndi hún borgarstjórnarmeirihlutann harðlega vegna hinna rándýru endurbóta á gömlum bragga við Nauthólsvík í Reykjavík og benti á að útlit væri fyrir 350 milljóna framúrkeyrslu. „Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu Reykjavíkur.“
Ummæli Vigdísar um gratíníbúðir vöktu nokkra kátínu, en hún notaði orðið gratín tvívegis í umræðum á borgarstjórnarfundinum. Verður að ætla að þar hafi hún verið að vísa til steintegundarinnar graníts fremur en til kartöflu- eða brokkolígratíns. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem orðaval Vigdísar vekur athygli, en frægt varð þegar hún gagnrýndi þáverandi fjármálaráðherra fyrir að „stinga höfðinu í steininn“ árið 2011 og sagði: „Það mega sumir kasta grjóti úr steinhúsi.“
Athugasemdir