Það er auðvitað full ástæða til að samgleðjast þeim sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sem Hæstiréttur sýknaði loksins fimmtudaginn 27. september, og sömuleiðis afkomendum þeirra og öðrum aðstandendum.
Það er líka gleðiefni að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skyldi strax daginn eftir nota þjóðarumboð sitt til að biðja sakborninga og aðstandendur afsökunar og boða sáttaferli til að koma í veg fyrir að þetta fólki þurfi hvert í sínu lagi að standa í erfiðum málarekstri til að fá dæmdar bætur, að því afar takmarkaða leyti sem peningar geta bætt fjörutíu glötuð ár og kolsvart hyldýpi sársauka og örvæntingar.
Þetta er bæði gott og jákvætt. En þar með er því miður upptalið það sem er gott eða jákvætt við þennan úrskurð.
Þriggja línu dómur Hæstaréttar
Íslenska réttarkerfið virðist enn í dag reyna að sveipa sig dulúð og viðhalda ósnertanleika sínum og heilagri tign. Þar ríkir enn nokkurn veginn saman bræðralagshugsun og fyrir fjörutíu árum. Enn halda dómarar Hæstaréttar hlífiskildi yfir forverum sínum og samstarfsmönnum þeirra og þverneita að draga gömul ódæðisverk fram í dagsljósið.
Endurupptakan fyrir Hæstarétti var í raun réttri engin endurupptaka, heldur einungis örstutt athöfn þar sem fram fór stuttlegur kattarþvottur og kveðinn var upp úrskurður, sem ekki varð lengur vikist undan. Rökstuðningurinn fyrir sýknunni var ekki annar en sá, að settur ríkissaksóknari hefði krafist sýknu og samkvæmt lögum bæri réttinum þess vegna að sýkna. Raunverulegt inntak þessa dóms var afgreitt í þremur línum. Það var allt og sumt.
Það hefði þó verið full ástæða til að flytja allan málareksturinn að nýju. Það er enn nauðsynlegt að fara í gegnum hvert einasta atriði dómanna frá 1977 og 1980 setja allt undir smásjána. Við slíka rannsókn kemur ekki aðeins í ljós að sakborningar voru sannanlega saklausir, heldur beittu bæði lögregla og dómarar sakadóms margvíslegum óþokkabrögðum til að fá fram fyrirfram ákveðna niðurstöðu. Allmargir menn gerðu sig seka um mjög alvarlega refsiverða háttsemi og hefðu í raun réttri sjálfir átt að hafna bak við lás og slá. Sakleysi sakborninganna lá mjög snemma í augum uppi og sakadómararnir þrír gerðu sig seka um ásetningsbrot gegn lögum þegar þeir kváðu vísvitandi upp kolaranga dóma.
En þetta var og á að vera leyndarmál innan íslenska réttarkerfisins. Eins konar heilagur leyndardómur, varðveittur í innstu afkimum musteris þessa hátignarbræðralags. Enginn blettur má falla á mannorð neins þeirra sem þetta bræðralag verndar.
Það er þess vegna sem Hæstiréttur sættir sig nú við að hörfa þetta örstutta og aumingjalega hænufet, að kveða upp sýknudóm, en vel að merkja án þess í því felist nein viðurkenning á gömlum misgjörðum. Í besta falli merkir þessi úrskurður að hinum vísustu mönnum gæti mögulega hafa yfirsést eitthvað fyrir fjörutíu árum. En það er þó ekki fullvíst vegna þess að nýjar upplýsingar hafa bæst við síðan.
Með byssuhlaup í hnakkanum
Þetta er annað hænufetið, sem réttarkerfið hefur neyðst til að hopa. Hið fyrra fólst í úrskurðum Endurupptökunefndar, sem féllst á endurupptöku en skildi þó eftir ákæruliðinn um rangar sakargiftir á hendur hinum svokölluðu fjórmenningum. Að vísu hefur aldrei verið hægt að finna því stað að Erla Bolladóttir hafi borið sakir á nema þrjá þessara manna, en látum það liggja milli hluta.
Í úrskurðum sínum virðist Endurupptökunefnd hengja sig í undirskriftir sakborninganna undir skýrslur þar sem mismargir þessara manna eru sagðir hafa verið í Dráttarbrautinni í Keflavík. Í ljósi þeirrar meðferðar, sem nú hefur verið viðurkennt að sakborningar sættu, tekur þetta auðvitað engu tali. Undirskriftir undir þessar tilteknu skýrslur geta hvorki haft meira né minna vægi en aðrar undirskriftir í málinu, t.d. undirskriftir undir játningaskýrslur. Þessu má einna helst líkja við að dæma fólk í fangelsi fyrir að skrifa nafnið sitt með byssuhlaup í hnakkanum.
Enda er augljóslega allt önnur ástæða fyrir því, að þessum röngu sakargiftum var haldið eftir. Það er nefnilega illmögulegt að taka þær fyrir dóm að nýju án þess að spyrja hinnar áleitnu spurningar: Hverjir voru raunverulegir höfundar rógburðarins á hendur fjórmenningunum? Og þar með verður illa hjá því komist að svipta hulunni af refsiverðri háttsemi lögreglumannanna og rannsóknardómarans.
En yfir þeim heldur réttarkerfið alltumlykjandi verndarhendi sinni enn í dag. Þess vegna var einungis leyft að taka aftur upp þá ákæruliði, sem Hæstiréttur gæti fyrirsjáanlega afgreitt í þremur línum. Og eiginlega án þess að viðurkenna nokkurn skapaðan hlut.
Óendanleg röð lögbrota
Mistök eru ekki beinlínis rétta orðið til að lýsa því sem fór úrskeiðis við þessar svokölluðu rannsóknir á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum 1975-1977. Með góðum vilja má kannski telja til mistaka þá heimsku og trúgirni, sem leiddi til þess að rannsóknirnar hófust. En síðan tók við við löng röð margvíslegra lögbrota. Þessi lögbrot fólu m.a. í sér andlegar og líkamlegar misþyrmingar, skjalafals, ólöglegar frelsissviptingar - m.a. fyrirvaralausa handtöku vitnis - og margt fleira.
Mest áberandi og algengasta lögbrotið fólst í vanrækslu, sem ekki verður betur séð en hafi verið fyllilega meðvituð. Sú skylda hvíldi þá sem nú á rannsakendum, að kanna alveg jafnt þau atriði sem benda til sakleysis og hin sem benda til sektar. Þessi skýra skylda var ekki virt. Miklu fremur má segja að hún hafi verið svívirt. Vísbendingar og jafnvel sannanir fyrir sakleysi hrönnuðust upp, en ekkert þeirra atriða var svo mikið sem skoðað.
Síðasta og jafnframt sennilega alvarlegast afbrotið áður en dómur féll, frömdu dómarar Sakadóms Reykjavíkur sjálfir skömmu áður en málflutningur hófst. Sævar skrifaði dómurunum bréf í byrjun september 1977, þar sem hann rifjaði upp Kjarvalsstaðaferðina kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Í bréfinu lýsti hann stuttri fréttamynd, sem hann sá í sjónvarpinu heima hjá mömmu sinni einhvern tíma á bilinu hálfellefu til ellefu þetta kvöld. Að sjálfsögðu bar dómurunum skylda til að afla sér upplýsinga um þetta hjá sjónvarpinu, en það gerðu þeir ekki. Trúlega hafa þeir ekki kært sig um neitt sem gæti spillt hinni fyrirfram ákveðnu niðurstöðu.
Með þessu gerðu dómararnir sig seka um svo alvarlegt lögbrot að ef upp hefði komist, hefði það óhjákvæmilega kostað fangelsisdóm. Þetta var heldur ekki fyrsta brot þeirra og um leið hylmdu þeir vel og vandlega yfir margvísleg refsiverð brot ýmissa undirmanna sinna. Enginn blettur mátti falla á réttarkerfið né einstaka starfsmenn þess. Bræðralagið stóð vörð um hin helgu vé.
Feluleikurinn heldur áfram
Fjórum áratugum síðar reynist ekkert hafa breyst. Fyrir rúmum tveimur árum var ég að vinna að bókinni „Sá sem flýr undan dýri“ og tók þá upp þann þráð, sem sakadómararnir vildu ekki rekja haustið 1977. Einföld fyrirspurn í geymslum RÚV leiddi í ljós lista yfir filmur, sem settar höfðu verið í geymslu eftir sýningu þáttarins Heimshorn 19. nóvember 1974. Og viti menn: Í þættinum hafði verið sýnd myndin „France‘s Wingate“, einmitt sú fréttamynd sem Sævar lýsti í bréfi sínu.
Þar með var endanlega ljóst að Sævar Ciesielski gat ekki með nokkru móti hafa farið til Keflavíkur kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Erla var honum samferða allt kvöldið og gat því heldur ekki hafa farið. Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar þekktust ekki og þar með ekki beinlínis það líklegasta í stöðunni að þeir hafi farið tveir einir.
Endurupptökunefnd var að störfum þegar þetta gerðist og auðvitað kom ég bæði upplýsingunum og ljósriti af filmulistanum á framfæri við hana. Ég átti von á að nefndarmenn yrðu fegnir að fá í hendur svo afgerandi sönnunargagn. Það reyndist ekki nákvæmlega rétta ályktað. Filmulistans er getið á einum stað í úrskurðum nefndarinnar. Svona: „Um var að ræða sjónvarpsdagskrá Ríkissjónvarpsins 19. nóvember 1974,“ (skáletrun mín).
Þetta er í mgr. 1433 í úrskurðinum varðandi Guðjón Skarphéðinsson, en ekki svo mikið sem stafkrók um þessa fjarvistarsönnun er að finna í úrskurðinum varðandi Sævar þótt þetta væri umfram allt fjarvistarsönnun hans. Og svo er þetta auðvitað bein lygi. Listi yfir filmur er ekki sjónvarpsdagskrá. Það á að vera tiltölulega einfalt og auðskilið, jafnvel fyrir lögfræðinga.
En ástæðan er augljós. Endurupptökunefnd tók fullan þátt í feluleiknum sem hófst 1976 og stendur enn. Það má ekki hrófla við þessu máli. Óhroðanum skal haldið leyndum. Jafnvel svo mörgum áratugum síðar og þótt öllum sé í rauninni orðið ljóst í meginatriðum hvað gerðist, skal það aldrei viðurkennt. Jafnvel þótt leyndarhjúpurinn sé löngu orðinn tærður og gegnsær, skal honum haldið. Meira að segja þótt það sé einungis að forminu til.
Þetta hljómar satt að segja eins og bull, en er því miður eina haldbæra skýringin.
Sannleiksnefnd gæti afhjúpað sannleikann
Úrskurður Hæstaréttar skilur Erlu Bolladóttur, Sævar og Kristján Viðar eftir jafnsek og áður varðandi það atriði að hafa logið röngum sakargiftum upp á saklausa menn. Erla ætlar að reka málið áfram og kæra niðurstöðu Endurupptökunefndar til héraðsdóms. Hún hefur vissan meðbyr eftir sýknudóminn í manndrápsmálunum sjálfum, en það er ekki sjálfkrafa nein trygging.
Þó er hugsanlegt að nú verði skyndilega leyft að taka líka upp ákæruliðinnum rangar sakargiftir. En þá er líka alveg fullvíst að Hæstiréttur gengur ekki hænufetinu lengra en að kveða upp sýknudóm án skýringa. Fordæmi fyrir þriggja línu dómi er nú fyrir hendi. Þess verður vandlega gætt að hrófla ekki við málinu sjálfu. Réttarkerfið hefur þegar sýnt og sannað að það hyggst ekki umbera það, að nokkur blettur falli á æru þeirra ærulausu manna sem stóðu að lögleysunni á sínum tíma.
Vegna þess að allar sakir eru löngu fyrndar, er alveg ljóst að þessi gömlu sakamál fást aldrei endurskoðuð af neinni alvöru fyrir dómstólum. Það breytir hins vegar engu um nauðsyn þess að slíkt uppgjör fari fram. Einhvers konar sannleiksnefnd gæti vafalaust komist til botns í málinu. Það er sannast sagna ekki tiltakanlega erfitt.
Alþingi, eða kannski forsætisráðherra gæti skipað slíka rannsóknarnefnd. Það er þó augljóst að hún má ekki samanstanda af eintómum lögfræðingum. Það sannar reynslan af Endurupptökunefnd. Einn lögfræðingur þyrfti þó af eðlilegum ástæðum að vera með. En við höfum líka þörf fyrir réttarsálfræðinga, lyfjafræðinga, sagnfræðinga og siðfræðinga til að kryfja þetta margslungna mál.
Svo mikið er víst að réttarkerfið er ófært um að leysa þetta verkefni. Það sannar þriggja lína dómur Hæstaréttar. Endurupptökunefnd og Hæstiréttur hopuðu um tvö aumingjalegustu hænufet sögunnar og það færir okkur heim sanninn um að ekkert hefur breyst.
Athugasemdir