Úrskurðir endurupptökunefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum eru mikill áfangasigur og sennilega aðeins tímaspursmál hvenær endanlegur sýknudómur verður kveðinn upp. Mér er það líka persónulega nokkurt ánægjuefni, að nefndin skuli svo augljóslega taka undir ýmsar röksemdir í bók minni „Sá sem flýr undan dýri“, en ég sendi nefndinni fullbúið handrit í byrjun september og bókin var því meðal málsgagnanna.
Í úrskurðum nefndarinnar er á hinn bóginn að finna mjög alvarlega ágalla. Mörgum þykir harkalegt að Erla Bolladóttir skyldi ekki fá neina uppreisn æru í úrskurði nefndarinnar. Og eiginlega er ekki hægt að kalla það neitt annað en fáránlegt.
Það sem almennt virðist vega þyngst er einhvers konar varðstaða um „hin helgu vé“ réttarkerfisins. Á heiður þess sýnist enginn blettur mega falla. Það liggur nokkuð ljóst fyrir endurupptökunefnd hefur hreinlega tekið þá ákvörðun að fallast ekki á að nokkur maður innan réttarkerfisins hafi brotið lög og til að standa að fullu við þá ákvörðun teygir nefndin sig í nokkrum tilvikum lengra en með nokkru móti getur talist boðlegt.
Í lögum eru tilgreindar fjórar ástæður fyrir endurupptöku mála. Ein þeirra er sú, að menn hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi. Þannig má endurupptaka mál, sem dæmt hefur verið í Hæstarétt ef
„ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins“
Endurupptökunefnd tekur alveg skýrt fram að þetta ákvæði geti ekki átt við:
„Endurupptökunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að gögn málsins gefi ekki tilefni til að ætla að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem málið fékk. Endurupptöku á grundvelli b-liðar er því hafnað.“
Við þessa niðurstöðu nefndarinnar er óhjákvæmilegt að setja spurningarmerki. Menn gerðust nefnilega nokkuð ótvírætt sekir um refsiverða háttsemi í þessum málum. Í sumum tilvikum er það augljóst og fullsannað, en vísbendingar um refsiverða háttsemi eru talsvert fleiri.
Dæmi um refsiverða háttsemi
Yfirfangavörður Síðumúlafangelsisins falsaði þau endurrit úr fangelsisdagbók, sem verjendur fengu afhent. Það getur ekki talist neitt annað en refsiverð háttsemi. Brot rannsóknarlögreglumanna og fulltrúa yfirsakadómara gegn lögum og reglum voru fjölmörg. Og sjálfir dómararnir, sem dæmdu í málinu, brutu gegn þeirri meginreglu sakamálaréttarfars að rannsaka jafnt það sem horfir til sýknu og sektar, þegar þeir létu ekki einu sinni kanna lýsingu Sævars á fréttamyndinni, sem hann horfði á í sjónvarpinu einhvern tíma milli kl. 22:30 og 23:00 kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Þetta getur varla flokkast undir neitt annað en refsiverða háttsemi.
Dæmin eru miklu fleiri og allmörgum þeirra eru gerð skil í 13. kafla bókarinnar „Sá sem flýr undan dýri“. Þótt endurupptökunefnd hafi greinilega tekið alvarlega ýmis atriði í bókinni, svo sem kaflann um hina snargölnu tímatöflu lögreglunnar varðandi Keflavíkurferðina, hefur hún alveg leitt hjá sér að greina hvort uppskáldun tímatöflunnar hafi hugsanlega verið saknæm. Sú vanræksla að kanna ekki ófærðina í Hafnarfirði eftir skýra ábendingu leigubílstjóra, gæti líka sem best talist saknæm.
Þetta eru bara dæmi, nánast valin af handahófi.
Falsanir teknar gildar
Það að falsa gögn er og var refsivert. Yfirfangavörður Síðumúlafangelsisins tók saman endurrit úr fangelsisdagbókinni varðandi flesta sakborningana, en sleppti þar öllu því sem mögulega gat komið sér illa fyrir rannsóknaraðila, auk þess sem hann breytti orðalagi. Engu að síður staðfesti hann þetta með undirskrift sinni og embættisstimpli: „Rétt endurrit staðfestir Gunnar Guðmundsson forstöðumaður,“ stendur t.d. handskrifað í lok endurrits Tryggva Rúnars Leifssonar og fyrir neðan er svo stimpillinn „FANGELSIÐ SÍÐUMÚLA 28“ ásamt íslenska skjaldarmerkinu.
Samanburður við fangelsisdagbókina sjálfa sýnir strax að endurritið getur ekki kallast neitt annað en fölsun. Um leið er ógerlegt að smokra sér fram hjá þeirri staðreynd að forstöðumaðurinn hafi brotið af sér. Og fölsun gagna hlýtur að teljast mjög alvarlegt brot. Önnur endurrit forstöðumannsins eru sama marki brennd.
Í úrskurðum endurupptökunefndar bregður hins vegar svo við endurritin eru kölluð „samantektir“ og „útdrættir“. Það er beinlínis ótrúlegt að sjá opinbera nefnd lögfræðinga reyna þannig að hliðra sér hjá því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum, sem sé einfaldlega falsanir.
Erla látin sitja uppi með skömmina
Það er reyndar misskilningur að einungis beiðni Erlu Bolladóttur hafi verið hafnað. Nefndin neitaði að taka ákæruatriðið um rangar sakargiftir til endurskoðunar. Það gilti líka um Sævar Ciesielski og Kristján Viðar. Þessa ákvörðun styður nefndin lögfræðilegum skýringum, en þær verða að teljast hæpnar, þegar þessi ákæruliður er settur í eðlilegt samhengi.
Það er vissulega rétt hjá nefndinni að öll þrjú báru þau sakir á saklausa menn. Ekkert þeirra hefur nokkru sinni neitað því. Nefndin leiðir hins vegar hjá sér að ígrunda þær blekkingar sem einkum Erla og Sævar voru beitt í þeim tilgangi að ná fram þessum vitnisburðum. Þeim var báðum talin trú um að Erla væri í lífshættu og rannsakendurnir ýttu enn frekar undir skelfingu hennar með því að láta tvo vopnaða lögreglumenn gæta hennar.
Þegar við vitum nú fyrir víst, að Sævar, Erla og Kristján tengdust ekki hvarfi Geirfinns, er samstundis augljóst að þau höfðu alls enga ástæðu til að ljúga neinu upp á saklausa menn í því sambandi. Því síður að þau hafi fyrirfram verið búin að sammælast um þetta, ef grunur beindist að þeim, eins og gefið er til kynna í dómunum.
Eftir stendur þá sá möguleiki að lögreglumennirnir hafi verið hinir raunverulegu sökudólgar og höfundar hinna röngu sakargifta.
Og hér stendur hnífurinn í kúnni. Hafi lögreglumennirnir beitt blekkingum og jafnvel þvingunum til að fá Erlu, Sævar og Kristján til að ljúga upp á saklausa menn, hafa þeir þar með gerst sekir um refsiverða háttsemi.
Ef fallist hefði verið á endurupptöku þessa ákæruliðar, væri þar með líkast til viðurkenndur sá möguleiki, að rannsóknarlögreglumenn og fulltrúi yfirsakadómara hefðu gert sig seka um refsiverð brot. Og svo langt var nefndin ekki tilbúin að ganga.
Endurupptökunefnd greip til ósanninda
Það styður þessa tilgátu, að nefndin skuli bæði hafa gripið til ósanninda og sleppt því alveg að fjalla um afar mikilsvert atriði til að hlífa embættismönnum réttarkerfisins. Í upptalningu framlagðra gagna, stendur þetta í einum úrskurði nefndarinnar:
Í þriðja lagi voru lögð fram gögn af hálfu endurupptökubeiðanda með bréfi dagsettu 6. maí 2016. Um var að ræða sjónvarpsdagskrá Ríkissjónvarpsins 19. nóvember 1974, sem endurupptökubeiðandi telur varpa ljósi á fjarvistasönnun Sævars Marinós Ciesielski þann dag.
Það vill svo til að mér er fullkunnugt um þessi gögn, enda var ábendingin upphaflega frá mér komin. Hér var aldeilis ekki um að ræða sjónvarpsdagskrána frá 19. nóvember 1974, þótt hún væri reyndar nauðsynlegt fylgiskjal. Það sem raunverulega var lagt fram, var listi úr filmugeymslu sjónvarpsins ásamt skýringum. Þar kom fram, að fréttamyndin „France‘s Wingate“ var sýnd í þættinum Heimshorn þetta kvöld. Þessari mynd lýsti Sævar í bréfi til sakadómaranna, en þeir athugðu málið ekki frekar.
Um þessa fréttamynd og ýmislegt henni tengt er fjallað á fjórum síðum í 10. kafla bókarinnar „Sá sem flýr undan dýri“. Þetta blað, listinn yfir filmurnar, fannst í geymslu í Efstaleitinu við vinnslu bókarinnar. Það er erfitt að líta á þennan lista, ásamt fréttamyndinni sjálfri, sem neitt minna en endanlega fjarvistarsönnun Sævars, ekki síst þegar hægt er að skoða þessa sömu mynd á YouTube og bera saman við lýsingu Sævars.
Og um leið er þetta auðvitað endanleg fjarvistarsönnun Erlu, Kristjáns og Guðjóns.
Það eru að sjálfsögðu óafsakanleg vinnubrögð að gera þessu ekki nánari skil. Og að kalla þetta sönnunargagn einfaldlega „sjónvarpsdagskrá“ eru bein ósannindi. Að nefndin skuli ganga svo langt til að vernda „hin helgu vé“ réttarkerfisins, getur hins vegar mögulega skýrt fleiri ágalla á niðurstöðum hennar.
Dómararnir brutu af sér
Á því leikur enginn vafi að dómararnir brutu af sér með því að kanna ekki sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar Sævars að hafa verið að horfa á sjónvarpið. Og ég er ekki alveg einn um að vilja flokka brot þeirra undir refsiverða háttsemi. Ég kom upplýsingunum um myndina á framfæri við Ragnar Aðalsteinsson hrl. og hann sendi nefndinni sérstakt erindi um málið, einmitt það sem endurupptökunefnd kallar „sjónvarpsdagskrá“. Erindi Ragnars er nokkuð ítarlegt og varðandi refsiverða háttsemi segir hann m.a. þetta:
„Óumdeilt er að rannsakendum, ákæruvaldi og dómsstólum bar að sjá til þess að hvaðeina væri rannsakað, sem heyrði til sektar eða sakleysis sakborninga. Sé þess ekki gætt ... er þeirri hættu boðið heim, að saklausir verði fundnir sekir um athæfi, sem þeir eru saklausir af. ...
Heimilt er að álykta af framangreindu að rannsakendur, ákæruvald og dómarar hafi hagað málum þannig að líkur séu á að uppfyllt séu skilyrði refsingar.“
Umfjöllunin um bréf Sævars
Lýsingu sína á fréttamyndinni setti Sævar fram í bréfi til sakadómaranna í byrjun september og fjallar þar um talsvert fleira, rekur athafnir sínar nokkuð nákvæmlega bæði 19. nóvember 1974 og dagana á undan og eftir. Og reyndar tekur endurupptökunefnd þetta bréf fyrir í úrskurði sínum varðandi Sævar. Þar fá dómararnir meira að segja nokkuð hastarlega á baukinn fyrir að láta ekki rannsaka ýmis atriði, sem unnt hefði verið að staðfesta. Endurupptökunefnd telur þessi atriði upp í úrskurðinum, en fréttamyndin um vínhneykslið í Frakklandi er ekki meðal þeirra. Nefndin ber aðgerðaleysi dómaranna saman við þá ofboðslegu vinnu, sem án árangurs var lögð í að reyna að sanna að tiltekið úr hefði verið í eigu annaðhvort Guðmundar eða Geirfinns. Og niðurlagsorðin eru nokkuð harkalegur áfellisdómur:
„Ef þessi tvö tilvik eru borin saman sýnist áhorfsmál hvort 2. mgr. 75. gr. laga um meðferð opinberra mála hafi verið fullnægt þannig að dómarar hafi rannsakað öll atriði er varði sekt sökunauts eða sýknu.“
Hér hefði auðvitað verið eðlilegt að fjalla líka um fréttamyndina, enda var hún stórum mikilsverðari en nokkurt þeirra atriða sem endurupptökunefnd nefnir. Og um þessa mynd hafði sem sé ítarlegri ábendingu verið komið sérstaklega á framfæri.
Hér þarf kannski að gera þann fyrirvara, að ég hef auðvitað ekki lesið allar þessar nærri sex þúsund síður, en ég hef ekki séð að nefndin minnist einu orði á fréttamyndina. Hefði nefndin fjallað um hana er hæpið að niðurstaðan hefði getað orðið nokkurt „áhorfsmál“. Og nefndin virðist hafa verið tilbúin að leggja mikið á sig til að þurfa ekki að viðurkenna þann möguleika að nokkur starfs- eða embættismaður sakadóms hefði brotið lög.
Hin helgu vé verður að vernda, hvað sem það kostar.
Athugasemdir