Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kröfur um 375 þúsund króna lágmarkslaun ekki „í samræmi við raunveruleikann“. Upphæðin muni hækka launakostnað hjá fyrirtækjum um 200 til 300 milljarða sem valdi öllum tjóni. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Stéttarfélagið Framsýn á Húsavík kynnti á þriðjudag kröfugerð vegna væntanlegra kjarasamninga. Samkvæmt henni er miðað við 375 þúsund króna lágmarkslaun fyrir fullt starf.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að slík nálgun muni leiða til rangrar niðurstöðu fyrir alla. „Á sama tíma og verkalýðsfélögin eru að kalla eftir ábyrgð atvinnulífsins og skilningi á stöðu þeirra sem lægst hafa launin, þá virðast mörg þeirra vera að sýna takmarkaðan skilning á stöðu fyrirtækjanna, sem félagsmenn verkalýðsfélaganna starfa hjá,“ segir Halldór við Morgunblaðið. „Það er vitanlega umhugsunarefni fyrir okkur öll, ef verkalýðsfélögin ætla að fara fram með þessum hætti og sýna þar með takmarkaða ábyrgð í atvinnulífinu.“
Halldór bendir á að fyrirtækin í landinu greiði rétt um eitt þúsund milljarða í laun og launatengd gjöld á hverju ári og að hlutfall launa og launatengdra gjalda hafi aldrei verið hærra. „Við hjá Samtökum atvinnulífsins vonum heilshugar, að kröfur þeirra verkalýðsfélaga, sem munu leiða þær kjaraviðræður sem framundan eru verði í meira samræmi við raunveruleikann, en þessar kröfur Framsýnar eru,“ segir Halldór.
Athugasemdir