Heilbrigðisráðherra vill færa sérgreinalækna í auknum mæli á göngudeildir spítalanna. Rammasamningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands tryggi þeim hins vegar hærri greiðslur og einfaldari sjúklinga með því að starfa á stofum. Þetta skrifar Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir og aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun.
Rammasamningurinn rennur út um áramótin og nokkrar deilur hafa orðið um framtíð hans opinberlega. Í síðustu viku felldi héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga um að neita sérfræðilækni aðild að samningnum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lýsti því yfir í gær að ríkið hyggðist ekki áfrýja í málinu.
Ráðherra kynnti hugmyndir sínar í málaflokknum á fundi í velferðarráðuneytinu í gær og lýsti hún vilja sínum til að framlengja gildandi rammasamning um eitt ár meðan unnið yrði að breyttu fyrirkomulagi, að því sem fram kemur í fréttatilkynningu. Fyrr hafði hún árétt að það sé ekki stefna eða markmið að fyrirbyggja starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks á stofum með greiðsluþátttöku hins opinbera.
Sérfræðilæknar í námi erlendis vilji störf á spítala
Í grein sinni í dag bendir Birgir á að samkvæmt skýrslu McKinsey frá 2016 sé Landspítalinn mun verr mannaður af reyndum sérfræðilæknum en sambærileg sjúkrahús á Norðurlöndunum og breyta þurfi því. „Þetta er ekki hægt að gera á meðan sérgreinalæknar fá bæði betur greitt og einfaldari sjúklinga þegar þeir starfa á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands,“ skrifar Birgir.
„Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á styrkingu opinbera heilbrigðiskerfisins, heilsugæsluna um allt land sem fyrsta viðkomustað sjúklinga með breiðri aðkomu fleiri heilbrigðisstétta, og að auka aðgengi að sérgreinalæknum fyrir alla landsmenn með því að styrkja göngudeildarstarfsemi sjúkrahúsanna, ekki síst Landspítala, þar sem auðveldara er að koma við teymisvinnu fleiri fagstétta. Til þess að koma þessu til leiðar þarf fleiri sérgreinalækna inn á sjúkrahúsin,“ skrifar Birgir.
Birgir segir það misskilning að bjóða þurfi íslenskum heilbrigðisstarfsmönnum í námi erlendis starf á stofu. „Flestir íslenskir læknar eru í sérnámi á háskólasjúkrahúsum erlendis og koma því aðeins heim að þeim sé boðin sambærileg starfsaðstaða hér á landi,“ segir Birgir.
Í viðtali við Stundina í apríl lýsti Birgir skoðunum sínum á þróun heilbrigðismála hér á landi. Hann hefur verið mjög gagnrýninn á vaxandi hlut einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, sem hann segir meira og minna hafa þróast af sjálfu sér. Sérfræðilæknar í einkareksti vinni samkvæmt mjög hvetjandi kerfi, alltof hvetjandi, á meðan opinbera kerfið innihaldi enga hvata.
Athugasemdir