Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram í fjórða sinn frumvarp um að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið.
„Markmið frumvarpsins eru að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Eins og Stundin hefur áður fjallað um telur Íbúðalánasjóður að afnám stimpilgjalds myndi að öllum líkindum leiða til hækkunar fasteignaverðs. Þá gætu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu kynt undir húsnæðisvandanum að mati Samtaka leigjenda.
Í umsögn sem yfirlögfræðingur Íbúðalánasjóðs skilaði Alþingi í fyrra kom fram að niðurstöður ýmissa rannsókna bentu til þess að sá viðskiptalegi ábati sem til komi vegna afnáms stimpilgjalds falli alfarið til seljenda, þ.e. að lækkun stimpilgjalda leiði til samsvarandi hækkunar íbúðaverðs. „Við aðstæður eins og á íslenskum fasteignamarkaði, þar sem framboð nýrra íbúða hefur brugðist hægt við verðbreytingum, er líklegra en ella að lækkun eða afnám stimpilgjalda skili sér út í hærra fasteignaverð,“ segir í umsögninni.
Samtök atvinnulífsins hafa einnig bent á að óvíst sé hvort frumvarpið nái því markmiði að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis. „Aðgerðir eins og þessar eru til þess fallnar að ýta undir eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem leiðir til verðhækkunar,“ segir í umsögn samtakanna frá því í fyrra.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir og Brynjar Níelsson, virðast hins vegar ósammála þessu mati. „Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár,“ segir í greinargerð frumvarpsins sem þau lögðu fram í morgun. Frumvarpið var áður flutt á á 146., 147. og 148. löggjafarþingi.
Athugasemdir