Nr.1. Nokkur orð um hefðbundið kvennastarf
Vinnu-konur nútímans vinna við allt mögulegt; þrif, afgreiðslustörf, þjónustustörf, framleiðslustörf og það sem kallað eru umönnunarstörf; m.a. við að sinna þörfum þeirra ungu sem snúa að gæslu og uppfræðslu. Þær síðastnefndu vinna við það sem kalla mætti undirstöðuatvinnugrein en þess ber sannarlega hvergi merki þegar horft er til tekna þeirra.
Það er vissulega merkilegt að í íslensku samfélagi sé því sem næst öllum börnum tryggður aðgangur að gæslu og menntun. Leikskólarnir byggja á sósíalískum hugmyndum um að börn eigi rétt á nákvæmlega sömu aðhlynningu og menntun, sama hvaða stétt þau tilheyri. En jafnframt tryggir starfsemi þeirra að margumrædd hjól atvinnulífsins halda áfram að snúast. Í heimsmynd alvinnusamfélagsins eru þeir ein af mikilvægustu undirstöðunum. En eitt „gleymdist“ þegar dæmið um leikskólana var reiknað og það var ekki síst vegna djúpstæðrar og kerfisbundinnar fyrirlitningar á konu-vinnu: Það gleymdist að reikna með því að borga (kven)vinnuaflinu laun sem hægt væri að komast af á. Vinnu-konurnar vinna vinnuna, auðvitað á afsláttarprís, enda tíðkaðist frá örófi alda að láta þær gera það ókeypis.
Fyrir verkefnastjórum alvinnusamfélagsins eru verka- og lágstéttarkonur ekkert annað en tölur í excel-dálki og þeir telja ekki neina ástæðu til að velta veruleika þeirra eitthvað sérstaklega fyrir sér. En þar sem það er fullsannað og óumdeilanlegt að íslenskir kapítalistar ásamt hinu opinbera eru í raun og sannleika upp á konur komin með verkefni sín, hvort sem það er að græða eða að reka samfélagið, er orðið löngu tímabært að mikilvægi vinnu-kvennanna sem „aðila vinnumarkaðarins“ sé viðurkennt og að þeim sé raunverulega launað fyrir framlag sitt til samfélagsins.
Kaldlyndi og áhugaleysi þeirra sem hér fara með völd þegar kemur að aðstæðum láglaunakvenna sem vinna með börnum þjóðfélagsins (sem og öðrum efnahagslega undirsettum konum) er óþolandi og okkur ber að hafna alfarið áframhaldandi níðingshætti.
Nr. 2. Aðfluttar verka og láglaunakonur
Meðferð á konum um allan heim er hörmuleg. Einn af stóru gerendunum í lífi þeirra er sá sadíski óskapnaður sem alþjóðavæddur nýfrjálshyggjukapítalisminn er. Láglaunakonum, líka hér á Íslandi, er í raun haldið í efnahagslegri gíslingu af kerfi sem fyrirlítur þær, kerfi sem þær áttu engan þátt í að skapa, kerfi sem þær hafa engin völd yfir.
Staða erlendra kvenna sem hingað koma, víðsvegar að úr veröldinni, er alvarleg. Þær ganga flestar inn í störf sem eru lítils metin í íslensku samfélagi, yfirleitt hefðbundin kvennastörf. Þær, eins og verka- og láglaunakonur fæddar á Íslandi, eru markvisst arðrændar.
Hinna aðfluttu kvenna bíða oft ótrúlegar þrautir og þrekraunir. Margar þurfa að heyja erfiða baráttu til þess eins að fá rétt útborgað því að jafnvel þó að rétt útborguðu launin séu sannarlega ekki há gerast engu að síður sumir atvinnurekendur frumlegir og lausnamiðaðir í því að „halda launakostnaði niðri.“ Þær þurfa að reyna að finna „jafnvægi“ á milli þess að vera vinnu-konur og konur sem geta átt einhverskonar prívatlíf, en þetta getur verið hægara sagt en gert, því dagarnir eru langir og erfiðir og oft lítið eftir af orku, bæði líkamlegri og andlegri, þegar heim er komið. Og ekki aðeins þurfa þessar konur að læra á frumskóginn sem íslenskur vinnumarkaður er orðinn heldur bíður þeirra einnig allur sá lærdómur sem er fólginn í því að setjast að í ókunnu samfélagi þar sem reglurnar og tungumálið eru sannarlega flókin fyrirbæri. Ekki má svo gleyma þætti húsnæðismarkaðarins sem afhentur hefur verið fjármagnseigendum til umsjónar (svo að þeir megi þar ná til baka sem stærstum hluta af tekjum vinnuaflsins) en á honum þurfa aðfluttar verka- og láglaunakonur á dúsa, enda erfitt að spara fyrir útborgun í íbúð þegar meira en helmingur ráðstöfunartekna þinna fer í húsaleigu. (Húsnæðiskerfið hér á landi hlýtur að teljast einn af bestu bröndurum sem borgarastéttin hefur sagt sín á milli).
Þegar við horfum af heiðarleika á lífið sem aðfluttum láglaunakonum er boðið upp á hér kemur í ljós að því fer fjarri að Ísland sé kvennaparadís. Fyrir þau sem efast má benda á #MeToo sögur kvenna af erlendum uppruna, þar sem dregin var upp viðurstyggileg lýsing á aðstæðum kvenna sem þurfa að glíma við þrefalda kúgun; 1) efnahagslega kúgun láglaunafólks, 2) kynbundna kúgun þeirra sem vinna hefðbundna konu-vinnu og 3) kúgun byggða á uppruna.
Framkoman við aðfluttar vinnu-konur er til skammar. Hún er svartur blettur á íslensku samfélagi en byggir auðvitað á langri hefð um skelfilegt arðrán á alþýðukonum og því getur enginn neitað. Samstaða okkar sem fæddar erum á Íslandi með aðfluttum konum er lykilatriði í að breyta þessari ömurlegu hefð, öllum láglaunakonum til góða.
Nr. 3. Staða okkar í kapítalismanum og nýfrjálshyggjuvæddum femínisma
Í nýfrjálshyggjunni er ekkert pláss fyrir þann sannleika að meðferðin á lægra settum konum er kerfisbundin, og að lausnin á efnahagslegum vanda þeirra er ekki fyrst og fremst frama-, valda-, gróða- og menntunarmöguleikar hverrar og einnar, heldur sá einfaldi sannleikur að tryggja ber öllum í samfélaginu góða afkomu og öryggi og að laun kven-vinnuaflsins (líkt og vinnuaflsins alls) eiga að endurspegla hvað það kostar að lifa mannsæmandi lífi. En þar sem þessi leið hefur verið lýst ófær og ekki til umræðu að ganga hana, hefur nýfrjálshyggjan þess í stað boðið okkur upp á brauðmola-femínisma, þar sem öll áhersla er lögð á persónulega velgengni einstakra kvenna. Það eina sem konur þurfa, í þeirri heimsmynd, er„jafn aðgangur að tækifærum.“ En fyrir þann stóra hóp sem hér er haldið kerfisbundið efnhagslega fangelsuðum er tómt mál að tala um jöfn tækifæri. Valdalausar og því sem næst samfélagslega ósýnilegar láglauna- og verkakonur eru engu betur settar þó konur eigi jöfn tækifæri á við karla í að verða stjórnarformenn í stórfyrirtækjum, talsmenn kapítalista, bankastjórar eða annarskonar verkefnisstjórar gróðavædds þjóðfélags.
Í brauðmola-femínismanum er í raun fólgin krafa um að við sem tilheyrum lægri stéttunum stundum einhverskonar sjálfssefjun, að við „gleymum“ eigin aðstæðum og einbeitum okkur þess í stað að lífi annarra betur settra kvenna, í þeirri von að við getum einhvern daginn orðið örlítið meira eins og þær sem eiga mikið og mega margt. En vandamálin sem fylgja lífi láglaunakvenna eru kerfislæg, og svo alvarleg að það er í mínum huga hrein tímasóun fyrir okkur sem tilheyrum þessum hópi að velta fyrir okkur málum sem snúa að konum ofarlega í stigveldinu, eins og t.d. kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja. Við höfum einfaldlega hvorki tíma né orku til að berjast fyrir öðru en okkar eigin efnahagslegu hagsmunum, svo að við getum í raun átt möguleika á að upplifa einhverskonar frelsistilfinningu, en séum ekki alla okkar ævi dæmdar til að strita og streða, fastar í vítahring mikillar vinnu fyrir lítil laun.
Í nálgun þeirra sem eiga hagsmuna að gæta þegar kemur að því að halda niðri verðinu á kven-vinnuaflinu opinberast greinilega sú skoðun að verkakonuvinnu eigi einfaldlega að verðleggja lágt. Þessa afstöðu sjáum við jafnvel þótt árangur náist í réttindabaráttu kvenna annars staðar. Sem dæmi má taka að þó konum fjölgi á þingi eða í sveitarstjórnum, stjórnum fyrirtækja og forstjórastólum er ekki að sjá að áherslan á að halda niðri launum vinnu-kvenna hafi minnkað. Sú staðreynd segir okkur kannski eitthvað um það hversu lítið er að marka fagurgalann um algjöra nauðsyn samstöðu kvenna þvert á stéttir.
Kerfisbundið misrétti, stéttskipting og hefðbundin (söguleg) fyrirlitning á kvennastörfum er bundin inn í efnahagskerfi þjóðfélagsins. Þess vegna hafa þau sem fara með völd komist upp með að verðleggja okkur verkakonur svona lágt. Þetta misrétti er svo inngróið í samfélagið að meira að segja yfirlýstir femínistar úr röðum stjórnmálafólks virðist ekki enn hafa áttað sig almennilega á því að það er satt best að segja viðbjóðslegt að hafa stóran hóp kvenna í „hefðbundnum kvennastörfum,“ án þess að tryggja efnahagslegt öryggi þeirra og barna þeirra.
Þegar verka- og láglaunakonur benda á að aðstæður þær sem þeim er gert að lifa við séu óboðlegar er oft látið eins og stéttastaða þeirra sé aðeins persónulegt val. En það er ekki „persónulegt val“ að fá útborguð laun fyrir fulla vinnu sem duga ekki til að komast af. Það er ekki „persónulegt val“ að þurfa að strita til að geta boðið barni sínu uppá lágmarks öryggi í lífinu. Það er ekki „persónulegt val“ að vera dæmd til að dvelja á botni stigveldisins.
Við verkakonur og láglaunakonur eigum að hafna sögusögninni um einstaklingsmöguleika framalífsins og þess í stað eigum við að standa saman og láta á það reyna hvort að við getum knúið fram alvöru lífskjarabætur okkur og fjölskyldum okkar til handa. Það er barátta sem vert er að taka þátt í, barátta sem raunverulega getur fært okkur sigra og betra líf, barátta byggð á stórmerkilegri sögulegri hefð verkakvenna sem á undan okkur fóru, innblásnum af draumum um réttlæti og frelsi. Þær börðust við harðsvíraða kapítalista og þjóðfélag afskræmt af kvenfyrirlitningu og unnu engu að síður magnaða sigra. Leyfum sögu og sigrum þeirra að blása okkur baráttuanda í brjóst. Höfnum brauðmola-femínismanum og krefjumst samfélags sem er byggt á virðingu fyrir öllum manneskjum og efnahagslegu réttlæti.
Nr. 4. Konan sem auðlind.
Eitt mikilvægasta verkefni þeirra sem stjórna og stýra í því nýfrjálshyggjusamfélagi sem við nú búum í er ögun vinnuaflsins. Að því er unnið með ýmsum verkfærum, t.d. með því að neita að ræða á lýðræðislegan og upplýstan máta um styttingu vinnuvikunnar, með því að neita að ræða um jafna skiptingu gæðanna og með því að búa aldrei til pláss í samfélagsumræðunni um stöðu verka- og láglaunakvenna, halda þeim rækilega jaðarsettum og helst ósýnilegum.
Tvö nýleg dæmi um þessa ögun eru fáránlega ósvífin skrif leiðarahöfundar Fréttablaðsins sem fyrir helgi kallaði réttlátar kröfur um mannsæmandi laun heimtufrekju fólks sem vill fá „allt fyrir ekkert,“ og ummæli hagfræðings Viðskiptaráðs að hann hafi verið „skrambi glaður“ með það að lifa tímabundið af lægri ráðstöfunartekjum en 235.000 krónum á mánuði. Ég ætla að fullyrða að engin láglaunakona sem þurft hefur að komast af á lágmarkslaunum tæki undir með hagfræðingi Viðskiptaráðs, enda er erfitt að vera, svo ég umorði þennan glaðlynda mann örlítið, skrambi glöð þegar maður býr við áralangt efnahagslegt óöryggi, peningaleysi og streð. Ég fullyrði líka að það er ekki láglaunafólk, sem með kröfu sinni um að fá að lifa mannsæmandi lífi af launum sínum krefst þess að fá „allt fyrir ekkert,“ heldur virðast eigendur íslensks samfélags telja að það sé réttmæt krafa þeirra að við, vinnuaflið, gefum þeim allt; alla starfskrafta okkar, alla okkar ævi, án þess að þeir þurfi nokkru sinni að borga okkur það sem við eigum skilið.
Það tíðkast að setja allt fram með excel-tækum og tölulegum máta. En ég legg til að við reiknum líka með orðunum okkar og tilfinningunum og spyrjum: Hversu mikið af konutárum, blóði og svita þarf íslenskt hagkerfi? Hversu lengi eigum við vinnu-konur, aðfluttar og íslenskar konur sem tilheyra stétt verka- og láglaunakvenna, að sætta okkur við að rogast um með samfélagið á bakinu, án þess að fá fyrir það sanngjörn laun? Vinnuafl verka- og láglaunakvenna er samfélagsleg auðlind sem er nýtt af mikilli og djúpri ásælni í ódýrt vinnuafl og af ótrúlegri græðgi. Þar sem enginn hefur viljað taka það að sér að segja hátt og skýrt Nei! við meðferðinni á verka- og láglaunakonum þurfum við sjálfar að gera það. Þar er ekki eftir neinu að bíða.
„Látum ekki andstæðinga okkar í
stéttabaráttunni komast upp með að reikna
það út að við séum næstum verðlaus vara á útsölumarkaði kapítalismans“
Látum ekki andstæðinga okkar í stéttabaráttunni komast upp með að reikna það út að við séum næstum verðlaus vara á útsölumarkaði kapítalismans, látum þess í stað alla í Kvennaparadísinni Íslandi horfast í augu við óréttlætið sem við höfum verið beittar.
Nr. 5. Kvennabaráttan
Þrátt fyrir að Ísland mælist í alþjóðlegum samanburði hátt þegar kemur að jafnrétti á milli karla og kvenna er ekkert réttlæti til staðar í samfélaginu þegar kemur að úthlutun og skiptingu gæðanna. Á meðan að konur og karlar í efri lögum samfélagsins hafa jöfn tækifæri til að njóta góðs af öllu því auðmannadekri sem hér er stundað eru barna- og vaxtabætur hafðar af láglaunakonum og skattbyrði þeirra aukin, húsnæðismál alþýðunnar sett í algjört uppnám, og látið eins og engin lausn sé möguleg, svona bara eigi þetta að vera; sumar fæðist til að vinna alla ævi, á meðan að aðrar fái að njóta peninga, frítíma, ferðalaga og allra lífsins lystisemda.
Ég hvet okkur til að hugleiða af einlægni hvernig á því stendur að við getum árum saman rætt um allt mögulegt sem viðkemur jafnréttisbaráttunni, en við getum ekki nema örstutta stund í einu gert það að aðalatriði að hér á landi er stór hópur kvenna sem þarf að dvelja í veröld þar sem enginn raunverulegur vilji er til staðar til að knýja í gegn þær pólitísku og efnahagslegu stefnubreytingar sem eru nauðsynlegar til að mæta þörfum þeirra.
Ég spyr í fullri alvöru:
Hvaða skilaboð eru stúlkum samfélagsins send með því að láta eins og ekkert sé eðlilegra en að hafa hóp kvenna við að sinna börnum á niðursettu verði, útreiknuðu með því að notast við sparnaðaráætlun kvenfyrirlitningarinnar? Hvernig finnst okkur tilhugsunin um að enn í dag séu að vaxa úr grasi stúlkur sem bíði sömu örlögin og hafa beðið ótal kvenna á Íslandi; strit og streð alla ævi, heilsuleysi, peningaleysi og vonleysi? Hvernig tilfinningar vakna hjá okkur þegar við heyrum af einstæðum mæðrum á biðlista eftir íbúðum hjá Félagsmálastofnun, af því að þær ráða ekki við brjálsemina á frjálsum húsnæðismarkaði fjármagnseigenda?
Kvennabaráttan er ótrúlegt fyrirbæri og ein besta og mesta sönnun á djúpri þrá manneskjunnar eftir virðingu, réttlæti og frelsi. Við höfum náð fram allskonar mögnuðum sigrum með kvennasamstöðu. En staðreyndin er sú að baráttan fyrir efnahagslegu réttlæti til handa verka- og láglaunkonum hefur ekki verið barátta sem allar konur hafa sameinast í. Langt því frá. Það er staðreynd málsins. Láglaunakonur standa sína pligt; mæta til vinnu, strita þar fyrir litlu konu-launin sín, sinna svo fjölskyldunni sinni og er svo uppálagt, af sannri kvennasamstöðu, að finna smá orku á kvöldin til að gleðjast yfir því að þrátt fyrir allt saman er nú kona forsætisráðherra og femínisti borgarstjóri.
Kvennabaráttan er risastór og stórmerkileg. Hún er mannkynssöguleg og alþjóðleg og hún tengir okkur við vinnu-konur um alla veröld og í gegnum söguna alla. En að halda því fram að hana eigi ávallt að heyja þvert á stétt, í brútalisma þeirrar veraldar sem upp er risin í kringum okkar, er afskaplega ósanngjörn krafa.
Ég vona heitt og innilega að láglauna- og verkakonur á Íslandi ákveði að setja baráttuna fyrir eigin hamingju, draumum, löngunum og efnahagslegu þörfum loksins í forgang. Því það er sannarlega fyrir löngu tímabært að þær fái allt það pláss; andlegt, líkamlegt og fjárhagslegt sem þær telja sig sjálfar þurfa.
Verka- og láglaunakonur; stöndum saman, hver með annarri í okkar lífsnauðsynlegu baráttu. Þá eru okkur allir vegir færir.
Athugasemdir