Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hefur ákært Kaj Anton Arnarsson Larsen fyrir að hafa ekið, sviptur ökurétti ævilangt, á 108 km hraða á klukkustund um Norðurlandsveg þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km. Þetta kemur fram í ákæru og fyrirkalli sem birtist nýlega í Lögbirtingablaðinu.
Kaj var dæmdur í rúmlega tveggja ára fangelsi í Noregi árið 2016 fyrir að hafa misþyrmt tveggja ára barni. Voru áverkarnir slíkir að læknir brast í grát þegar hann lýsti þeim í vitnastúku.
Stundin fjallaði ítarlega um málið og í fyrra steig Kaj fram í viðtali við DV og lýsti sér sem fórnarlambi réttarmorðs. Sagðist hann ætla að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. „Það eru engar sannanir fyrir því að ég hafi lamið eitthvað barn. Ég myndi aldrei gera það,“ sagði Kaj.
Kaj kom til Íslands í nóvember 2016 og afplánaði eftirstöðvar dómsins á Litla-Hrauni. Þann 6. mars á þessu ári var hann svo staðinn að hraðakstri og hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra höfðað sakamál fyrir Héraðsdómi Norðurlands.
Athugasemdir