Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Kaj Anton fundinn sekur: Misþyrmdi tveggja ára barni tvo daga í röð

Í dag dæmdi norsk­ur dóm­ari Kaj Ant­on Arn­ars­son í 26 mán­aða fang­elsi fyr­ir að hafa mis­þyrmt tveggja ára ís­lensk­um dreng hrotta­lega. „Hlægi­leg­ur dóm­ur,“ seg­ir einn að­stand­enda drengs­ins.

Kaj Anton fundinn sekur: Misþyrmdi tveggja ára barni tvo daga í röð
Situr inni með öðrum barnaníðingum Kaj Anton mun afplána restina af dómnum sínum með öðrum níðingum í Noregi.

Kaj Anton Arnarsson, 24 ára Íslendingur, sem setið hefur í fangelsi í átta mánuði í Stavangri í Noregi, grunaður um að hafa misþyrmt tveggja ára dreng hrottalega, var í dag dæmdur í tveggja ára og tveggja mánaða fangelsi. Hann var fundinn sekur um að hafa misþyrmt drengnum í október á síðasta ári, tvo daga í röð. Áverkar drengsins líktust þeim sem börn á þessum aldri hljóta í bílslysum.

Með glóðurauga
Með glóðurauga Sannað þótti að Kaj Anton hafi meðal annars gefið tveggja ára drengnum glóðurauga.

„Hlægilegur dómur,“ segir einn aðstandenda drengsins sem Stundin ræddi við. Samkvæmt heimildum blaðsins fékk engin aðstandandi drengsins að vera viðstaddur dómsuppkvaðningu. Þess í stað fékk móðir drengsins símtal þar sem henni var tjáð að Kaj Anton hafi fengið 26 mánaða dóm.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar var Kaj Antoni einnig gert að greiða drengnum 150 þúsund norskar krónur eða rúmar tvær milljónir króna í miskabætur. Stundin greindi ítarlega frá málinu og sagði söguna alla á vefnum í síðustu viku.

Afplánar með öðrum níðingum í Noregi

Samkvæmt heimildum Stundarinnar kemur Kaj Anton til með að afplána dóminn á sérstakri deild innan veggja fangelsisins með öðrum barnaníðingum í Noregi.

Þá fjallaði blaðamaður Stundarinnar ítarlega um málið þegar það kom upp í október í fyrra en það vakti mikinn óhug bæði hér á Íslandi og í Noregi. Forsaga málsins er sú að Kaj Anton og móðir drengsins hittust í byrjun október á síðasta ári í partíi í Reykjavík. Þau höfðu þekkst en út frá þessum hitting í partíinu hafi þau ákveðið að Kaj Anton myndi kíkja eftir nokkra daga í heimsókn til hennar þar sem hún bjó í Noregi. Móðir drengsins hafi síðan snúið aftur til Noregs og stuttu síðar hafi Kaj Anton komið í heimsókn. Heimsóknin hafi fljótlega farið frá því að vera stutt dvöl yfir í það að Kaj Anton hafi ákveðið að flytja alveg til Noregs og finna sér vinnu.

Áverkar eins og í bílslysi
Áverkar eins og í bílslysi Læknirinn á háskólasjúkrahúsinu í Stavangri brast í grát þegar myndir af áverkum drengsins voru sýndar í réttarsalnum.

Flúði á næsta bóndabæ

Kaj Anton dvaldi hjá móðurinni í smá tíma áður en hann réði sig til starfa á bóndabæ í Kristiansand, þar sem hann átti að sinna hinum ýmsu störfum. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar entist hann aðeins 29 klukkutíma á bóndabænum og hélt aftur til Lye. Bóndinn sem réð Kaj Anton til vinnu bar meðal annars vitni fyrir dómnum og sagði að annað starfsfólk á bænum, meðal annars ung stúlka frá Danmörku, hefði kvartað undan Kaj Antoni. Hann hefði sýnt af sér ógnandi hegðun og fólk hefði verið hrætt við hann. Bóndinn hefði þó ekki orðið sjálfur vitni af þessari hegðun. Þegar þeir hafi unnið saman tveir hefði honum litist ágætlega á Kaj Anton.

Kaj Anton útskýrir fyrir henni, líkt og hann gerði fyrir dómi í síðustu viku, að þeir hafi verið í einhverjum leik sem var þannig að Kaj Anton hljóp á eftir honum og var að hræða hann.

Þá sagði bóndinn enn fremur að Kaj Anton hefði verið að hreykja sér af því við stúlkur á staðnum að hafa lamið mann og annan á Íslandi og væri ekki hræddur við neinn. Kvöldið sem hann yfirgaf bóndabæinn hafi hann beðið um að fá að hringja en þegar því var neitað þá hafi Kaj Anton orðið mjög reiður og skellt hurðum með fúkyrðaflaumi.

Ung dönsk stúlka sem starfaði á sama stað flúði bóndabæinn í öllum látunum og svaf á öðrum stað umrædda nótt.

Ætluðu að vera saman til lengri tíma

Frá bóndabænum í Kristiansand lá leið hans til Lye, í sveitarfélaginu Time í Noregi. Þar bjó móðir drengsins ein ásamt syni sínum en heimili hennar var í um þriggja klukkustunda akstursfjarlægð frá bóndabænum. Samkvæmt heimildum Stundarinnar höfðu þau bæði verið á Íslandi vikuna áður en Kaj Anton fluttist búferlum til Noregs. Hún hafi þekkt til hans, en þarna vikuna áður hafi þau hist í partíi í Reykjavík og ákveðið, þegar til Noregs væri komið, að hittast.

Kaj Anton var spurður fyrir dómi hvort hann og móðirin hafi ætlað sér að eiga einhverja framtíð saman. Kaj Anton hafi svarað því játandi. Eftir því sem Stundin kemst næst var móðirin í sömu hugleiðingum; Kaj Anton virtist hafa snúið við blaðinu eftir afbrot á Íslandi þar sem hann hlaut meðal annars dóm fyrir líkamsárás.

Byrjaði í nýrri vinnu á leikskóla

Mánudaginn 19. október byrjaði móðir drengsins í nýrri vinnu. Hún hafði fengið vinnu á leikskóla ekki langt frá heimili sínu og vaknaði því með spennuhnút í maganum þennan morgun. Hún fór með barnið sitt á leikskóla á meðan Kaj Anton var heima. Sama var uppi á teningnum á þriðjudeginum. Móðirin sótti vinnu, fór með barnið sitt á leikskóla og á meðan var Kaj Anton heima. Á miðvikudaginn vaknaði drengurinn hins vegar með flensu og var veikur. Þar sem móðirin var nýbyrjuð í nýrri vinnu bauðst Kaj Anton til þess að passa drenginn. Kaj Anton ætti sjálfur tvö börn og sagðist vita nákvæmlega hvað hann væri að gera. Móðirin sótti vinnu á miðvikudeginum, var mætt klukkan níu um morguninn og komin heim um miðjan dag. Ekkert amaði að drengnum þennan miðvikudag og borðuðu þau saman kvöldmat áður en allir lögðust til rekkju.

Hryllingurinn hófst á fimmtudeginum

Á fimmudagsmorgun var drengurinn enn með flensu. Kaj Anton mun hafa boðist til þess að passa hann aftur og þar sem allt hafi gengið vel á miðvikudeginum treysti móðir drengsins Kaj fyrir honum. Þegar móðirin snéri heim frá vinnu sá hún að drengurinn var rauður á enninu. Kaj Anton mun hafa útskýrt fyrir henni, líkt og hann gerði fyrir dómi í síðustu viku, að þeir hafi verið í einhverjum leik sem var þannig að Kaj Anton hljóp á eftir honum og var að hræða hann. Drengurinn hafi hlaupið undan honum, rekist í þröskuld og dottið fram fyrir sig. Kaj Anton bar einnig fyrir dómi að hann hafi huggað drenginn og komið honum síðan fyrir framan sjónvarpið þar sem hann hafi horft á teiknimyndir. Sjálfur segist Kaj Anton hafa farið í tölvuna. Þau ákváðu öll að hvíla sig þennan fimmtudagseftirmiðdag. Þau hafi öll sofnað í einn eða tvo klukkutíma.

Þeim ber saman um það, bæði Kaj Antoni og móður drengsins að þau hafi öll sofnað. Þegar þau vöknuðu þá ákvað móðirin að bregða sér út í búð. Kaj Anton hafi aftur boðist til þess að passa drenginn sem hann síðan gerði. Kaj Anton sagði að á þeim tímapunkti hafi hann ákveðið að svæfa drenginn og að sá litli hafi sofnað, aftur, aðeins klukkutíma eftir að drengurinn vaknaði með móður sinni eftir að hafa lagt sig í einn til tvo klukkutíma.

Var heitt í hendinni og svaf ekki alla nóttina

Þá sagði Kaj Anton að drengurinn hafi vaknað þegar móðir hans kom heim úr búðinni. Þau hafi fengið sér að borða og síðan hafi móðir drengsins ákveðið að svæfa hann. Hún bar fyrir dómi að drengurinn hafi átt erfitt með að sofna á fimmtudagskvöldið. Hann hafi nánast vakið alla nóttina og hafi reynt óljóst að segja að honum hafi verið heitt í hendinni. Móðir drengsins segist ekki hafa spáð mikið í það, hann hafi verið veikur umræddan dag og tengdi hún þetta við veikindi hans.

„Hann hefur kannski dottið á steina eða eitthvað“

Á föstudeginum, 23. október 2015, hafði móðir drengsins sofið yfir sig. Í algjörum flýti klæddi hún sig í og gerði sig tilbúna fyrir vinnu. Kaj Anton hafi boðist til þess að passa drenginn í þriðja skiptið og að hann hafi komið fram úr til þess að ná í drenginn sem grét og grét og stóð fyrir útidyrahurðinni svo móðir hans kæmist ekki út. Þetta sagði Kaj Anton að væri ekki rétt. Hann sagði það óskiljanlegt, og þetta sagði hann fyrir dómi, að móðir drengsins hafi skilið hann einan eftir. Dómarinn í málinu sagði þá við Kaj Anton að drengurinn hafi ekki verið einn heima, Kaj Anton hafi verið hjá honum: „En ég var sofandi,“ svaraði hann.

Móðir drengsins segir hinsvegar að hún hefði aldrei komist út úr húsinu öðruvísi en að Kaj Anton hafi vaknað og tekið drenginn upp við útidyrahurðina svo hún yfir höfuð myndi komast út.

Brotið klakabox og glóðurauga

Kaj Anton sagði einnig fyrir dómi að þeir hafi aftur farið í sama leik, sem hafi orðið til þess að drengurinn hafi hlotið sömu áverka og deginum áður. Leik sem virkaði þannig að Kaj Anton var að elta hann og drengurinn að hlaupa undan honum með þeim afleiðingum að drengurinn datt á sama stað, við sama þröskuld. Kaj Anton sendi móður drengsins skilaboð: Hann hafi meitt sig aðeins meira en deginum áður, væri samt hættur að gráta og að hann væri að horfa á sjónvarpið og allt væri í lagi. Kaj Anton hafi huggað drenginn og komið honum fyrir framan sjónvarpið. Á meðan hafi hann sjálfur farið í tölvuna.

Drengurinn grét ekki neitt, var stökkbólginn á höfðinu og virtist í losti. Hún hljóp í áttina til þeirra í algjöru áfalli.

Í sönnunargögnum, sem lögð voru fyrir dómi, var meðal annars klakabox úr ísskáp móðurinnar. Kaj Anton hafði náð í klaka til þess að kæla höfuð drengsins. Klakaboxið var hinsvegar brotið. Kaj Anton gaf þá skýringu að hann hafi egkki náð klökunum úr boxinu og því barið það í borðið til þess að fá þá til þess að losna. Hann hafi síðan kælt höfuðið á drengnum. Þrátt fyrir þetta sendi Kaj Anton móðurinni umrædd skilaboð þar sem hann taldi henni trú um að allt væri í lagi.

Einhvern tímann eftir hádegi þennan föstudag hafi Kaj Anton hins vegar ákveðið að fara með drenginn til móts við móður hans og gengið í átt að leikskólanum. Hann hafi ákveðið að stytta sér leið og gengið með drenginn ákveðinn stíg í nágrenninu en á þessum stíg er að finna göngubrú. Kaj Anton hafi gengið á undan drengnum og þegar hann hafi litið við þá hafi hann séð hvar drengurinn lá á bakinu: „Hann hefur kannski dottið á steina eða eitthvað,“ sagði Kaj Anton fyrir dómi. Spurður af saksóknara hvort hann hafi séð hann detta sagði Kaj Anton að hann hafi ekki gert það. Barnið hefði legið á bakinu þegar hann hefði litið til baka. Hann hafi því ákveðið að halda á drengnum það sem eftir var af þessu rölti á leikskólann.

Starfsmaður leikskólans: Eitthvað hræðilegt hafði komið fyrir 

Í þann mund sem Kaj Anton kom með barnið fyrir utan leikskólann steig móðir þess út af vinnustaðnum. Hún leit í áttina til Kaj Antons og drengsins, sem þá var með húfu enda kalt í Noregi á þessum tíma, og sá að það var eitthvað mikið að. Drengurinn grét ekki neitt, var stökkbólginn á höfðinu og virtist í losti. Hún hljóp í áttina til þeirra í algjöru áfalli. Önnur kona sem starfaði við leikskólann var stödd úti á skólalóð þennan dag. Hún bar vitni fyrir dómi að hún hefði séð Kaj Anton og barnið og að hún hafi bæði séð og fengið það á tilfinninguna að eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir.

Á sama tíma, sagði Kaj Anton fyrir dómi, að hann hafi í raun og veru ekki ætlað að fara með drenginn á leikskólann heldur hafi þeir ætlað saman út í sjoppu þar sem Kaj Anton hafi ætlað að kaupa handa drengnum súkkulaðistykki.

Í tómu núðluumbúðunum voru hárflyksur frá drengnum.

Móðir drengsins hringdi strax í norska vinkonu sína. Þessi norska vinkona og kærasti hennar, sem er af íslensku bergi brotinn, báru bæði vitni fyrir dómnum. Þau hafi keyrt til móts við móður drengsins og sótt þau þrjú. Leiðin hafi legið á læknavaktina í Klepp. Þar tók á móti þeim læknir sem var nýmættur á vakt. Sá læknir bar einnig vitni fyrir dómi í síðustu viku. Hann sagðist hafa tekið eftir alvarlegum áverkum á höfði drengsins. Móðir hans hafi gefið þær skýringar að hann hafi dottið tvisvar. Einu sinni í dag (föstudag) og einu sinni í gær (fimmtudag). Læknirinn sagði fyrir dómi að þær útskýringar hafi strax vakið athygli hans því 98 sentímetra barn gæti ekki dottið fram fyrir sig með slíkum afleiðingum. Áverkar hans hafi verið í líkingu við það að barnið hafi lent í bílslysi.

Á meðan reykti Kaj Anton sígarettu fyrir utan læknavaktina.

Áverkar barnsins í líkingu við það sem gerist í bílslysi

Sjúkrabíll kom aðvífandi að Klepp. Læknirinn hafði pantað sjúkrabíl fyrir annan sjúkling á læknavaktinni en vegna þess hve alvarlegir áverkarnir voru þá ákvað hann að barnið skyldi flutt með flýti á sjúkrahúsið í Stavangri. Hann lét starfsfólk þar vita að barnið sem væri á leiðinni hafi hugsanlega verið beitt ofbeldi. Útskýringar á áverkum þess stæðust engan veginn. Með sjúkrabílnum fór móðir drengsins en með vinafólki móðurinnar fór Kaj Anton. Öll hittust þau á sjúkrahúsinu í Stavangri. Þar gekk starfsfólk sjúkrahússins á móðurina og Kaj Anton sem gaf þær skýringar að drengurinn hafi dottið tvisvar. Það hafi hins vegar ekki staðist. Áverkar barnsins líktust bílslysi, svo alvarlegir voru þeir. Kaj Anton hafði þó engan bíl til umráða. Ofbeldi gagnvart barninu virtist eina skýringin á áverkum þess.

„Ég átti bara erfitt með að trúa því að einhver gæti gert litlu barni svona ljóta hluti.“

Læknirinn á bráðamóttökunni í Stavangri grét í vitnastúkunni þegar hann lýsti áverkum barnsins. Á sama tíma fékk dómarinn, og þeir sem viðstaddir voru aðalmeðferðina, að sjá myndir af áverkunum.
Þegar á bráðavaktina var komið fór litli drengurinn að æla. Ældi meðal annars á móður sína. Hann hafði hlotið heilahristing. Stuttu síðar kom önnur vinkona móðurinnar á sjúkrahúsið og bauðst til þess að keyra til Lye og sækja ný föt. Móðir barnsins tók vel í það. Kaj Anton fór með vinkonunni og keyrðu þau saman til Lye. Þar beið lögreglan eftir Kaj Anton.

Hárflyksur í tómum núðlupakka í ruslinu

Litli tveggja ára drengurinn var tvíhandleggsbrotinn með heilahristing, marinn út um allan líkamann, ældi og ældi, grét stöðugt og á stóru svæði á höfði hans vantaði hársbút.

Við tók viðamikil rannsókn lögreglu en þegar blaðamaður Stundarinnar ræddi við saksóknara málsins í október í fyrra þá sagði hann að allir tiltækir rannsóknarlögreglumenn yrðu fengnir í rannsóknina og að það myndi hljóta algjöran forgang hjá embættinu. Saksóknari sagði lögreglu hafa ástæðu til að ætla að ofbeldið hafi átt sér stað bæði inni á heimili barnsins og fyrir utan það. Meira vildi Unni Byberg Malmin ekki tjá sig um málið enda rannsókn í fullum gangi. 

Eitt af því sem ekki hefur komið fram áður í fjölmiðlum varðandi þetta óhugnarlega mál er það að við leit í húsi móðurinnar fundust umbúðir utan af núðlupakka. Í tómu núðluumbúðunum voru hárflyksur frá drengnum. Hárflyksur sem rifnuðu af barninu þegar það hlaut alvarlega áverka á höfði. Kaj Anton hafði engar skýringar á hárflyksunum en sagðist hafa eldað sér núðlur í kvöldmat kvöldið áður og því væru umbúðirnar í ruslinu.

Þá bar einnig móðir Kaj Antons vitni fyrir dómnum og sagði son sinn aldrei hafa sýnt af sér ógnandi hegðun í hennar viðurvist. Kaj Anton ætti sjálfur tvö börn sem væru á Íslandi og í hvert skipti sem hann hafi ætlað út að skemmta sér um helgar þá hefði eldri dóttir hans verið í pössun hjá henni. Það hafi sýnt að Kaj Anton væri ábyrgur. Hann væri hinsvegar ekki í miklu sambandi við yngra barnið „þar sem það væri enn svo ungt“. Þegar móðir Kaj Antons bar vitni um nákvæmlega þetta þá heyrðist hlátur í réttarsalnum. Sindri Kristjánsson, faðir unga barnsins sem hafði verið misþyrmt hrottalega, hló að vitnisburðinum.

Sindri segir í samtali við Stundina að hann hafi hlegið í hálfgerðri reiði: „Ég þekkti Kaj Anton frá fornu fari og fannst svo mikil hræsni felast í því sem hún sagði. Mamma hans Kaj var að sjálfsögðu þarna bara að reyna að verja strákinn sinn en mér fannst þetta frekar aumt. Ég var reiður mest megnis öll réttarhöldin. Ég átti bara erfitt með að trúa því að einhver gæti gert litlu barni svona ljóta hluti.“

Barnaverndaryfirvöld skárust í leikinn

Þegar litli drengurinn hafði jafnað sig á sjúkrahúsinu í Stavangri skárust barnaverndaryfirvöld í Noregi í málið. Þau fluttu móðurina og litla drenginn til Bergen þar sem haft var eftirlit með drengnum og móður hans. Drengurinn hitti fagfólk, þar á meðal sérfræðinga, sem unnu með drengnum til þess að lágmarka skaðann sem orðið hafði af þessu áfalli. Sindri þakkar barnaverndaryfirvöldum aðstoðina í málinu. Hann hafi búist við því að allt öðruvísi yrði tekið á málunum en í stað þess að hrifsa barnið af móðurinni og koma því fyrir í fóstri þá hafi fagfólk allan tímann staðið við hlið foreldranna og hjálpað þeim í gegnum þetta: „Ég er þeim ótrúlega þakklátur. Ég bjóst engan veginn við þessu og óttaðist í raun að ég fengi ekki að sjá hann aftur. Hausinn á manni fer náttúrulega á fullt þegar maður lendir í svona og maður býst alltaf við því versta.“

„Honum líður ótrúlega vel miðað við það sem hann hefur gengið í gegnum.“

Sjálfur bar Sindri vitni í málinu. Hann var meðal annars spurður hvernig hann þekkti Kaj Anton. Sindri viðurkenndi fúslega að þekkja Kaj Anton frá því hann hafi sjálfur verið í neyslu: „Við vorum vinir fyrir löngu síðan og áttum það eitt sameiginlegt að neyta fíkniefna upp á dag. Leiðir okkar skildu hinsvegar. Eftir að ég eignaðist son minn þá tók ég bara stóra U-beygju í lífinu og sá að ég þurfti í mikilvægari hlutum að snúast en að standa í þessu rugli.“ Þá var Sindri einnig spurður um samband sitt við barnsmóður sína sem var ágætt á þeim tíma sem þetta mál kom upp.

Sindri segir í samtali við Stundina að samband þeirra sé gott í dag, þau ræði mikið saman og beri hag sonar þeirra fyrir brjósti. Sindri stundar vinnu og býr Noregi í dag, ekki langt frá heimili þeirra mæðgina, og er með son sinn aðra hverja helgi auk þess sem hann reynir að taka eins mikið af aukadögum og hann getur. Sonur hans búi samt sem áður dags daglega hjá móður sinni.

Hvernig líður drengnum í dag?

„Honum líður ótrúlega vel miðað við það sem hann hefur gengið í gegnum. Í fyrstu var hann mjög hræddur og öll læti urðu til þess að koma honum úr jafnvægi. Ef það var bankað á útidyrahurðina þá hljóp hann í fangið á mér. Þarna hefur barnaverndarnefndin hér í Noregi komið sterk inn. Þessi sálfræðiviðtöl sem við foreldrarnir höfum fengið, og strákurinn líka, hafa orðið til þess að við vitum betur hvernig á að kljást við svona áfall.“

Sindri segir að strákurinn sinn eigi erfitt með að sofa einn en að tíminn eigi vonandi eftir að laga það og lækna öll þau sár sem sonur hans hafi orðið fyrir, bæði andlega og líkamlega.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
1
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.
Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI ævaforn rómversk kveðja
2
Flækjusagan

Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI æva­forn róm­versk kveðja

Hin við­ur­styggi­lega nas­ista­kveðja Elons Musks dag­inn sem Don­ald Trump var sett­ur í embætti hef­ur að von­um vak­ið mikla at­hygli. Kannski ekki síst vegna þess að kveðj­una lét Musk flakka úr ræðu­stól sem var ræki­lega merkt­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Hin fasíska til­hneig­ing margra áhang­enda Trumps hef­ur aldrei fyrr birst á jafn aug­ljós­an hátt — enda lét Musk sér ekki nægja að heilsa...
Sigmundur Davíð ver Musk með hæpnum samanburði
3
Greining

Sig­mund­ur Dav­íð ver Musk með hæpn­um sam­an­burði

Á með­an að öfga­menn og nýnas­ist­ar víða um heim upp­lifa vald­efl­ingu og við­ur­kenn­ingu og fagna an­kanna­legri kveðju Elons Musks spyr fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Ís­lands hvort ís­lensk­ir fjöl­miðl­ar ætli í al­vöru að flytja þá fals­frétt að handa­hreyf­ing sem leit út eins og nas­ista­kveðja, frá manni sem veit­ir öfga­full­um sjón­ar­mið­um vængi flesta daga, hafi ver­ið nas­ista­kveðja.
Yfirgangstal með óþægilega hliðstæðu
4
StjórnmálBandaríki Trumps

Yf­ir­gangstal með óþægi­lega hlið­stæðu

Embætt­i­staka Don­alds Trumps vek­ur upp spurn­ing­ar sem við Ís­lend­ing­ar þurf­um að hugsa alla leið, með­al ann­ars í ljósi yf­ir­lýs­inga hans gagn­vart Græn­landi og Kan­ada, seg­ir Frið­jón R. Frið­jóns­son borg­ar­full­trúi. Hann kveðst einnig hafa „óþæg­inda­til­finn­ingu“ gagn­vart því að vellauð­ug­ir tækni­brós­ar hjúfri sig upp að Trump, sem nú fer á ný með fram­kvæmda­vald­ið í lang­vold­ug­asta ríki heims.
Sólveig Anna sendi bréf á móðurfélög Subway og Hard Rock Cafe
6
Fréttir

Sól­veig Anna sendi bréf á móð­ur­fé­lög Su­bway og Hard Rock Ca­fe

Fé­lög­in sem reka Su­bway og Hard Rock Ca­fé á Ís­landi eru að­il­ar að SVEIT, sem Efl­ing seg­ir að stað­ið hafi fyr­ir stofn­un gervistétt­ar­fé­lags til að rýra kjör starfs­manna í veit­inga­geir­an­um. Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir formað­ur fé­lags­ins hef­ur nú skrif­að bréf út til al­þjóð­legra móð­ur­fé­laga þess­ara tveggja veit­inga­staða­keðja og beð­ið þau um að rann­saka starfs­hætti sér­leyf­is­haf­ana hér­lend­is.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
3
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Það rís úr djúpinu 1: Gríðarlegt vatnsmagn leynist á 660 kílómetra dýpi, og demantar
4
Flækjusagan

Það rís úr djúp­inu 1: Gríð­ar­legt vatns­magn leyn­ist á 660 kíló­metra dýpi, og dem­ant­ar

Fyr­ir fá­ein­um dög­um birti vef­rit­ið Science Al­ert fregn um rann­sókn, sem raun­ar var gerð ár­ið 2022, en hef­ur ekki far­ið hátt fyrr en nú. Hér er frá­sögn Science Al­ert. Rann­sak­að­ur var ör­lít­ill dem­ant­ur sem fund­ist hafði í dem­antanámu í rík­inu Bótsvana í suð­ur­hluta Afr­íku. Hér er sagt frá þeirri rann­sókn í vef­rit­inu Nature.com. Í ljós kom að dem­ant­ur­inn hafði mynd­ast...

Mest lesið í mánuðinum

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár