Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir núverandi stefnu í heilbrigðismálum vera „harðlínu sósíalisma“ sem virðist miða við að heilbrigðiskerfið verði „eitt bákn sem starfar á einum stað“. Þetta kemur fram í grein hans í Fréttablaðinu í dag sem ber titilinn „Heilbrigðiskerfi að hætti Marx og félaga“.
Sigmundur Davíð skrifar að allir landsmenn séu sammála um að ríkið skuli tryggja öllum góða heilbrigðisþjónustu. „Það er því mikið áhyggjuefni að nú skuli hafa verið tekin upp stefna sem er ekki hægt að kalla annað en harðlínu sósíalisma í heilbrigðismálum,“ skrifar hann. „Teknar eru ákvarðanir sem augljóslega eru óskynsamlegar og jafnt og þétt horfið frá því sem best hefur reynst á Íslandi og erlendis. Allt í nafni hugmyndafræði sem hvergi hefur gengið upp. Jafnvel góðgerðarsamtök sem byggja að miklu leyti á sjálfboðastarfi fá að finna fyrir hinni marxísku endurskipulagningu.“
Ekki er ljóst til hvaða breytinga Sigmundur Davíð er að vísa. Segir hann ríkið senda sjúklinga í aðgerðir á einkastofnunum á Norðurlöndum og greiða fyrir þrefalt það sem aðgerðin mundi kosta á Íslandi. „Viðhorf þeirra sem ráða för virðist vera að um sé að ræða starfsemi sem teljist á einhvern hátt óhrein og megi því ekki fara fram innan landamæranna en hægt sé að líta fram hjá því og borga aukalega fyrir ef „glæpurinn” er framinn utan landsteinanna,“ skrifar hann.
Virðist Sigmundur Davíð mæla sérstaklega fyrir einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og tekur SÁÁ sem dæmi um þjónustuaðila sem falli utan núverandi stefnu og sé þrengt að. „Sjúklingar geta því valið um að þjást á biðlista í ár eða greiða sjálfir fyrir þjónustuna og fá hjálp strax,“ skrifar Sigmundur Davíð. „Sósíalisminn leiðir oft af sér ójafnræði.“
Athugasemdir