295 milljóna króna arður var greiddur út úr Brimi hf. í fyrra vegna rekstrarársins 2016. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikingi Brims en fyrirtækið er að mestu í eigu félaga Guðmundar Kristjánssonar útgerðarmanns. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 19,3 milljörðum árið 2017 og hagnaður rúmlega 1,9 milljörðum. Þetta er talsverður viðsnúningur frá 2016 þegar Brim tapaði 100 milljónum.
Brim er í tíunda sæti yfir þau fyrirtæki sem ráða yfir mestum aflahlutdeildum við Íslandsstrendur. Auk útgerðarinnar á Íslandi rekur Brim sölufyrirtæki í Asíu og útgerð og vinnslu í Grænlandi. Eignir samstæðunnar námu 60,6 milljörðum í árslok 2017 en þar af var verðmæti aflaheimilda metið á 24,8 milljarða. 249 manns störfuðu að meðaltali hjá Brimi árið 2017, almennur launakostnaður var 3,5 milljarðar en heildarlaun og þóknanir til stjórnenda námu 79,6 milljónum.
Arðurinn vegna afkomu ársins 2016 rennur til félaga sem eru ýmist alfarið eða að verulegu leyti í eigu Guðmundar Kristjánssonar. Þetta eru Línuskip ehf., Stilla útgerð ehf. og Fiskines ehf.
Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra var Guðmundur með að meðaltali 2,7 milljóna króna tekjur á mánuði árið 2017. Þá þénaði Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, um 3,3 milljónir á mánuði.
Brim keypti 34 prósenta hlut í HB Granda í apríl síðastliðnum á 21,7 milljarða króna, en kaupin voru fjármögnuð með handbæru fé, lántöku og sölu eigna. Brim gerði öðrum hluthöfum félagsins tilboð í samræmi við yfirtökuskyldu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. „Samkvæmt niðurstöðum yfirtökutilboðsins mun fjárfesting Brims hf. aukast um 1,9 milljarð króna og eignarhluturinn nema alls 37,02%,“ segir í ársreikningi Brims.
HB Grandi er það útgerðarfyrirtæki sem ræður yfir mestum aflahlutdeildum á Íslandi, en fyrr í sumar tók Guðmundur við forstjórastöðu í fyrirtækinu. Umsvif Guðmundar í íslenskum sjávarútvegi eru þannig gríðarleg. Samkvæmt nýjustu upplýsingum Fiskistofu um aflahlutdeildir útgerða ræður Brim hf. yfir 3,71 prósentum aflaheimilda á Íslandi og Ögurvík, dótturfélag Brims, yfir 1,62 prósentum. HB Grandi, sem nú er í 37 prósenta eigu Brims fer með 10,4 prósent aflaheimilda og Vinnslustöðin, sem Brim á um 33 prósent hlut í, fer með 4,11 prósent. Samtals eru þetta um 20 prósent heildarkvótans í sjávarútvegi.
Athugasemdir