Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir peningaþvætti. Þetta kemur fram í umfjöllun Kjarnans í dag. Héraðssaksóknari hefur ekki birt honum ákæruna.
Júlíus var einn af þeim stjórnmálamönnum sem reyndust eiga aflandsfélög þegar Kastljósið fjallaði um Panamskjölin 3. apríl 2016. Félag hans, Silwood Foundation, var stofnað 2014 og var rík áhersla lögð á að nafn Júlíusar yrði ekki í forgrunni félagsins, heldur hlutabréf stíluð á handhafa. Júlíus sagði af sér sem borgarfulltrúi tveimur dögum eftir þáttinn.
Systkini Júlíusar sögðu í kjölfarið að hann hefði viðurkennt daginn eftir opinberun skjalanna að arfur foreldra hans væru geymdir í aflandsfélagi í hans eigu. Ingvar Helgason og Sigríður Guðmundsdóttir, foreldrar Júlíusar, ráku ein stærstu fyrirtæki landsins, Ingvar Helgason hf. og Bílheima hf, sem skiluðu góðum hagnaði og var Ingvar sjálfur meðal auðugustu manna landsins. Í yfirlýsingu fyrir uppljóstrun Kastljóss sagði Júlíus að í Silwood Foundation væri um persónulegan eftirlaunasjóð hans að ræða og að allt sem við komi sjóðnum væri í samræmi við íslensk lög og reglur. Þá liggi fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar fyrir hjá skattayfirvöldum.
Allt að sex ára fangelsisdómur
5. janúar 2017 kærði svo skattrannsóknarstjóri Júlíus vegna meintra brota á skattalögum og gruns um peningaþvætti. Við peningaþvætti getur legið allt að sex ára fangelsisdómur.
Í samtali við Stundina 9. september 2017 neitaði Júlíus því að hann hefði sleppt því að koma með peningana til landsins til að forðast skattgreiðslur. Sagðist hann hafa gert fyllilega grein fyrir sínum málum gagnvart hinu opinbera. „Peningarnir eru á fullkomlega löglegum stað. Fullkomlega,“ sagði Júlíus. „Og til þeirra sjóðs, sem stofnað var, var stofnað með fullkomlega löglegum hætti.“ Í kjölfarið neitaði hann því að fjármunirnir væru eign dánarbúsins.
Athugasemdir