Forstjóri Icelandair, Björgólfur Jóhannsson, keypti í dag 400 þúsund hluti í félaginu á rúmar 3 milljónir króna samkvæmt tilkynningu til kauphallar. Heiðrún Jónsdóttir stjórnarmaður keypti yfir 300 þúsund hluti fyrir um 2,4 milljónir króna. Kaupin koma í kjölfar verðhruns á bréfum félagsins, sem hafa lækkað um tæp 40% frá 9. júlí.
Í ársfjórðungsuppgjöri félagsins, sem kynnt var í fyrradag, kom fram að Icelandair hefði tapað 2,7 milljörðum króna á fjórðungnum og alls 6,4 milljörðum það sem af er ári. Tekjur félagsins höfðu hækkað um 9% á milli ára, en kostnaður aftur á móti um 18%.
Í kjölfar tilkynningarinnar lækkuðu hlutabréf í félaginu skarpt og hafði verð þeirra fallið um tæp 12% á tveimur dögum. Verðhrun hafði þegar orðið á bréfum félagins í byrjun júlí, en þau lækkuðu um tæp 25% í kjölfar afkomuviðvörunar 9. júlí. Alls hafa bréf félagsins því lækkað um tæp 40% frá því hún var gefin út, en um næstum helming frá áramótum.
Lífeyrissjóðir stærstu eigendurnir
Í tilkynningu til kauphallarinnar sagði Björgólfur að von væri á almennri hækkun fluggjalda í kjölfar hækkandi verðs á flugvélaeldsneyti. Aðstæður væru erfiðar, en félagið væri í góðri stöðu til að takast á við áskoranirnar.
Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur Icelandair og á Lífeyrissjóður verslunarmanna um 14% í félaginu. Þar á eftir koma Gildi, Birta og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild með á milli 7 og 8% hlut.
Athugasemdir